Bann við kjarnavopnum
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 12. þm. Reykv. spyr: ,,Hvernig hefur af Íslands hálfu verið komið á framfæri á alþjóðavettvangi, m.a. við Atlantshafsbandalagið og Bandaríkjastjórn, afstöðu Alþingis og íslenskra stjórnvalda varðandi þá stefnu að á Íslandi skuli ekki geymd kjarnavopn?
    Spurt er sérstaklega í þessu samhengi um eftirfarandi.
    1. Yfirlýsingu utanrrh., Geirs Hallgrímssonar, á Alþingi 16. apríl 1985 við umræður um 360. mál.
    2. Ályktun Alþingis 23. maí 1985 um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum (496. mál).
    3. Yfirlýsingar utanrrh., Steingríms Hermannssonar, á Alþingi 20. október um umræður um 11. mál, 10. nóvember við umræður um 65. mál og 3. desember 1987 við umræður um 79. mál.``
    Það hefur verið nokkuð reglubundið að hér hefur verið þyrlað upp á Alþingi moldviðri um að staðsett séu á Íslandi kjarnavopn. Það hafa a.m.k. sex utanrrh. íslenskir fundið sig til knúna að lýsa yfir eftir ítarlegar athuganir að engin kjarnavopn væru á Íslandi. Stefna Íslands er kunn og skýr. Hér á landi eru ekki leyfð kjarnavopn.
    Við Íslendingar vitum að jafnt bandamenn okkar sem aðrir vita þetta og virða þetta. Hins vegar er ekki spurt sérstaklega í hvert skipti sem erlent herskip kemur í lögsögu eða erlend herflugvél fær að lenda hvort um borð séu kjarnavopn.
    Svo sem lesa má í fréttatilkynningu utanrrn. 19. desember 1984 var síðasta upphlaupið í þessum málum vegna fullyrðinga Williams nokkurs Arkin í þá átt að Bandaríkjamenn átta sig fyllilega á þessu og virða þessa stefnu. Það gera líka öll ríki sem hlut eiga að máli. Um þetta sagði hæstv. þáv. forsrh. 3. des. 1987, með leyfi forseta: ,,Ég hef kannað innan Atlantshafsbandalagsins og fengið upplýst að þeim er mjög vel kunnugt um þessa ákvörðun íslenskra stjórnvalda.`` Þeim er vel kunnugt um þá yfirlýsingu sem gefin var hér á Alþingi sem hv. fyrirspyrjandi vísaði til og reyndar vel kunnugt um þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið hér.
    Fullyrðingar hv. þm., sem hún kveður sig hafa eftir sérfróðum mönnum um það að ekki sé mark tekið á orðum íslenskra utanrrh. í aðalstöðvum Atlantshafsbandalagsins, eru að mínu mati ekki svara verðar.
    Það sem hér hefur verið vísað til eru yfirlýsingar Geirs Hallgrímssonar frá 16. apríl 1985 um heimsókn herskipa og kjarnavopna. Við göngum því út frá því sem gefnu og af gefnum upplýsingum að stefna okkar sé virt í hvívetna. Segja má að forsenda fyrir dvöl varnarliðsins hér sé að hér eru ekki kjarnavopn. Það er á valdi okkar Íslendinga sjálfra, þ.e. íslenskra stjórnvalda, að ákveða hvort hér eru kjarnavopn eða ekki. Þó okkur sé kunnugt um að sú stefna sem ég hef nú lýst stuttlega sé vel þekkt komum við reglubundið á framfæri upplýsingum sem varða þessa afstöðu.
    Ályktun Alþingis frá 23. maí 1985 um stefnu

Íslendinga í afvopnunarmálum var t.a.m. þýdd á erlendar tungur og hún hefur kerfisbundið verið send utanrrn. og varnarmálaráðuneytum þeirra ríkja sem málið varðar sem og kynnt kerfisbundið á fundum og ráðstefnum. Sennilega er viðamesta alþjóðleg dreifing ályktunarinnar þó í enskri þýðingu í skýrslu þáv. hæstv. utanrrh. Matthíasar Á. Mathiesens til Alþingis 1987. Ályktunin birtist þar á ensku sem viðauki 6. Þeirri skýrslu eins og öðrum slíkum er kerfisbundið dreift til ráðuneyta og alþjóðastofnana.
    Þáv. forsrh. sagði við setningu utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík 11. júní 1987, með leyfi forseta: ,,Afstaða okkar Íslendinga er ljós. Við leyfum ekki kjarnavopn á íslensku yfirráðasvæði. Þetta var samhljóða staðfest á Alþingi í maí 1985.``
    Bæði ég og fyrirrennarar mínir í starfi utanrrh. notum tækifærið þegar við hittum erlenda starfsbræður okkar erlendis á fundum og ráðstefnum til að kynna íslenskan málstað jafnt í þessu máli sem öðrum. Í því efni minni ég á að í ræðu minni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sl. haust komst ég svo að orði um þetta mál: ,,Svo sem kunnugt er leyfa Íslendingar ekki kjarnavopn á landi sínu og ganga út frá því sem gefnu að erlend skip í heimsóknum virði fullveldi Íslands að þessu leyti.`` Þar með hafa hinar 150 þjóðir sem sitja allsherjarþingið nýlega verið minntar á stefnu Íslendinga í þessum málum.