Heræfingar varnarliðsins
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki oft áður upplifað það á fundi í sameinuðu Alþingi að þegar ræðumanni er gefið orðið til að gera örstutta athugasemd eða, eins og reyndar forseti orðaði það og hefur væntanlega verið beðinn um, til að bera af sér sakir að þá noti menn sér það að fá þannig orðið til þess að halda 10 mínútna langa ræðu eða svo, fulla með órökstuddar dylgjur og svívirðingar um aðra menn. Það kalla ég ekki að bera af sér sakir heldur að bera á aðra menn sakir. Þó að hv. 1. þm. Suðurl. hafi fengið orðið með þessum hætti og í þessum tilgangi sýndi hann innræti sitt með því hvernig hann notaði það tækifæri.
    Það er svo, virðulegi forseti, að Sjálfstfl. hefur farið nokkuð hamförum í þessu máli. Hér töluðu þeir þinndarlaust langt inn í nóttina fyrir nokkru og óskuðu síðan eftir frestun á þeirri umræðu á veikum forsendum að því er ég taldi þá þó að ég blandaði mér ekki í þá þingskapaumræðu vegna þess að sá ráðherra sem fyrir svörum situr í þessari utandagskrárumræðu var þá í salnum. En það má vera mönnum nokkurt umhugsunarefni, það er mér a.m.k., að Sjálfstfl. skuli vera það svona mikið keppikefli að halda dögunum lengur uppi umræðum um heræfingar sem eiga að hefjast á þjóðhátíðardaginn. Það er skemmtileg tilviljun eða hitt þó heldur. Það er reisn yfir því hjá Sjálfstfl. ( ÓE: Hver hóf umræðuna?) að halda þessum umræðum uppi með þessum gassagangi sem hér ber raun vitni sem eiga að hefjast á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar af hverjum stendur stytta hérna úti á Austurvelli ( HBl: Ráðherrann veit að þetta er ósatt.) og væri kannski ástæða til, hv. 2. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal, sem ætti einhvern tíma að þegja þegar aðrir hafa orðið, ( HBl: Það er nú gagnlegt.) að fara út að glugganum og gá að því hvort umrædd stytta á Austurvelli hafi nokkuð færst úr stað þegar Sjálfstfl. heldur hér uppi linnulausum umræðum dögunum lengur um heræfingar sem eiga að hefjast á þjóðhátíðardaginn. Það er mikill metnaður og það er mikil reisn yfir því fyrir forkólfa Sjálfstfl. að hafa ekki annað þarfara við tíma sinn að gera. Ég segi það nú bara.
    Það voru smekklegar líkingarnar sem þeir tóku hérna, talsmenn Sjálfstfl., um slökkviliðið, brunaliðið. Ég var hissa á því að þeir skyldu ekki frekar taka dæmi af skátaæfingu eða æfingu á barnaheimili, svo saklaust er þetta í þeirra huga. Hér er verið að tala um hvað? Hér er verið að tala um heræfingar til að verja ekki Ísland og Íslendinga heldur til að verja kjarnorkuvígbúnaðaraðstöðu Bandaríkjamanna hér á Íslandi, lykilstöð í þeirra vígbúnaði í norðurhöfum, og væntanlega þá eins gegn því að hér gæti skollið á kjarnorkustyrjöld. Og halda menn að einhverjir skólakennarar vestan frá Bandaríkjunum yrðu það slökkvilið sem nægði til að kæfa þá surtarloga ef til kæmi? Ég held ekki. Ég held að það sé alveg ástæða til að taka þessa umræðu þannig niður á jörðina að menn geri sér grein fyrir því um hvað er verið að tala. Það er verið að tala um heræfingar, um

stríðsviðbúnað, en ekki um einhverjar skátaæfingar eða slökkviliðsæfingar.
    Fleira var merkilegt sem kom fram, virðulegi forseti, þegar ég fæ orðið við og við eða þögn við og við til að ljúka máli mínu. Það var til að mynda þegar hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, sem mun vera 3. þm. Reykv., opinberaði samviskubit sitt og kvöl yfir því, sem komið væri nú í ljós, að hinn voðalegi maður, núv. forsrh., hefði verið utanrrh. í síðustu ríkisstjórn. Það var greinilegt að hv. þm. leið illa og það var eins og það færi hrollur um hv. þm. í ræðustólnum þegar henni varð hugsað til þeirra myrku daga þegar þessi mikilvægi málaflokkur var í höndum núv. forsrh.
    Hafi það verið eitthvað, virðulegur forseti, sem mér hefur þótt öðru fremur ógeðfellt í þessari umræðu, og er þó af ýmsu að taka þegar hugsað er til málflutnings Sjálfstfl. hér, þá er það sá gleiðgosagangur og það gleðibros sem hér hefur verið á hverjum ræðumanni Sjálfstfl. á fætur öðrum yfir því að geta tekið afstöðu með bandaríska hernum gegn íslenskum forsrh., glaðst yfir því með bros á vör, lýst því yfir hér að herinn sé saklaus en það sé íslenski forsrh. sem sé ósannindamaður. Margt hefur maður heyrt hér ósmekklegt, en þetta held ég að taki flestu öðru fram. Svo langt seilast nú talsmenn Sjálfstfl. um hurð til lokunnar, eins og einn fyrrv. þingmaður þeirra hefði e.t.v. sagt, að koma höggi á núv. hæstv. forsrh. Það er vægast sagt ósmekklegt.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fara djúpt inn í efnisumræðu þessa máls sem hér er til umræðu utan dagskrár að öðru leyti en því að lýsa yfir, sem má kannski vera einhverjum kunnugt, andstöðu minni við þessar heræfingar og gera grein fyrir því að ég hef þegar lagt það til í ríkisstjórn Íslands að við þær verði hætt. Ég tel það í raun og veru það eina svar sem er boðlegt og nokkur minnsta reisn er yfir fyrir hönd íslensks málstaðar eftir þá lítilsvirðingu sem íslensku þjóðinni og fullveldi okkar hefur m.a. verið sýnd með því að ætla að hefja þennan viðbúnað allan saman um og á þjóðhátíðardegi okkar.
    Það má ekki minna vera, vilji menn á annað borð sýna það að við höfum einhvern metnað og að við látum ekki hvað sem er yfir okkur ganga, en að það verði með einföldum hætti tilkynnt að af þessum heræfingum verði ekki. Það er
náttúrlega eina maklega svarið við þeirri framkomu sem við höfum orðið fyrir að þessu leyti. (Gripið fram í.) Eru hv. þm. e.t.v. svo firrtir öllu sambandi við sína þjóð að þeir hafi ekkert orðið varir við það hvernig fréttir af því hvenær þessar heræfingar ættu að hefjast komu við menn? Hvers konar fólk er það, hvers konar Íslendingar eru það þá sem hv. þingmenn umgangast --- ég spyr nú bara að því --- hafi þeir hvergi orðið þess varir að þær fréttir að það ætti að stilla þessum hlutum saman hafi komið illa við þjóðina?
    Ég hef talið líka og vil segja í fáeinum orðum að það séu mörg verkefni brýnni en að láta þessar heræfingar fara hér fram, til að mynda það að fara að standa við yfirlýsingar og ítrekaðar yfirlýsingar margra

núv. og fyrrv. utanrrh. um það að Ísland vilji eitthvað af mörkum leggja til þess að koma á afvopnun hér á höfunum og í okkar heimshluta og slökun á því svæði. Það hefur verið til siðs og nánast tíska að setja inn í alla ræðukafla sem íslenskir ráðamenn, gjarnan utanríkisráðherrarnir, fara með á alþjóðavettvangi undanfarin ár hinn hefðbundna kafla um áhuga Íslendinga á því að dregið verði úr vígbúnaði á höfunum, og þetta með mengunarslysið sem gæti orðið íslenskri þjóð og íslenskum auðlindum svo hættulegt. Þeir eru örugglega einir 20 ræðukaflarnir af þessu tagi sem hafa komið fram á alþjóðavettvangi á síðustu árum í máli m.a. utanríkisráðherranna og jafnvel fleiri ráðherra erlendis.
    En hvað hefur verið gert? Hvað hefur staðið á bak við þessi orð? Það er ástæða til að huga að því vegna þess að svona ræðukaflar endurteknir æ ofan í æ verða auðvitað markleysa ef ekkert sem við gerum hér heima fyrir eða annars staðar bendir til þess að okkur sé alvara. Ég tala nú ekki um ósköpin ef það sem við gerum gengur í þveröfuga átt, gengur til þess að auka hér vígbúnað á þessu svæði og auka spennu en ekki draga úr henni. Ég legg til að annað tveggja verði gert. Það verði farið í framkvæmdir, t.d. gerð alvara úr áformum um að boða hér til alþjóðlegrar ráðstefnu um afvopnun og slökun hér á höfunum og í okkar heimshluta, eða að þessir ræðubútar verði felldir niður og verði ekki hafðir í komandi ræðum af þessu tagi. Það sæmir ekki að fara með þessa tuggu æ ofan í æ án þess að það komi þá í ljós með aðgerðum að menn meini eitthvað með því sem þeir eru að segja. Ég tala nú ekki um ósköpin ef ýmislegt af því sem hér er verið að bardúsa vísar í þveröfuga átt. Það er til skammar.
    Ég hefði líka viljað segja, virðulegur forseti, að mér hafa þótt ummæli sem hér hafa fallið hjá fleiri en einum þingmanni, m.a. hv. formanni utanrmn. Jóhanni Einvarðssyni, um þátt fjölmiðla í því að fjalla um þessa atburði ósmekkleg og ómakleg. Það er ekki stórmannlegur málflutningur að kenna þeim sem fréttirnar færir um það þó að þær kunni að þykja óþægilegar. Það er í raun og veru það sem hér hefur verið reynt að gera á heldur lúalegan hátt að mínu mati, af fleiri en einum ræðumanni. Það er ekki sök Ríkisútvarpsins þó að það færi þær fréttir að svo ósmekklega tókst til og þvílík lítilsvirðing var sýnd íslenskri þjóð að það eigi að hefja þessar heræfingar í kringum þjóðhátíðina. Menn verða að kunna að greina þar á milli. Hlutverk fjölmiðla er að bera fram upplýsingar --- sem hæstv. utanrrh. hefur núna staðfest, að þessar dagsetningar séu eins og í fréttum útvarpsins kom fram, liðssafnaðurinn fari fram á þjóðhátíðardaginn og hermennirnir komi hingað aðfaranótt hins 18., nákvæmlega eins og fréttir m.a. í Ríkisútvarpinu sögðu frá því. Ég vil því færa þessi orð til varnar þeim fjölmiðlum sem hafa ekki gert annað í þessu máli að ég best veit en skyldu sína, að færa þjóðinni fréttir af þessum atburðum þegar þegar þeir urðu þeirra vísari.
    Síðan hefur ýmsu verið haldið fram um það að

menn eigi að hafa haft hér allar upplýsingar um þessi mál og að í munnlegum samtölum og á fundum, af hverjum engar fundargerðir eru til o.s.frv., hafi þetta allt átt að liggja fyrir. Til vitnis um eitt af því sem tínt hefur verið til er ræðumaður. Þannig var að ég var í hópi þeirra aðalmanna og varamanna í utanrmn. sem fór til skoðunar, ekki í fræðsluferð, heldur til skoðunar að eigin frumkvæði eins og utanrmn. Alþingis gerir, á Keflavíkurflugvöll fyrir um ári síðan. Þar hefur því verið haldið fram að utanrmn. og fulltrúar þar hafi fengið allar upplýsingar um þessar heræfingar. Það er þvættingur. Og ég ætla að leyfa mér að fara með eftir mínu besta minni, og ég vona að fleiri geti þá staðfest það verði þess óskað, hvernig þessum upplýsingum var komið á framfæri. Það var að vísu ekki við mjög smekklegar aðstæður satt best að segja, í tveimur rútukálfum frá hernum sem hv. utanrmn. var ætlað og látin fara í suður á Keflavíkurflugvöll, og var það auðvitað hin mesta hneisa sem vonandi endurtekur sig ekki. En í þeim rútukálfum, hvort sem þeir voru nú einn eða tveir, var fyrirbæri sem mun nefnast blaðafulltrúi varnarliðsins og ég kann ekki í raun frekari deili á, blaðrandi um stund um þessa hluti og kom þá víða við og tyllti naumast niður tánum. Einhverjir af okkur sem í bílnum vorum heyrðum eitthvað um þetta, þeir sem sátu næst þessum nefnda blaðafulltrúa. Ég hygg að það hafi farið meira fyrir ofan garð og neðan hjá flestum öðrum. Að öðru leyti bar þetta ekki svo mark sé á takandi á góma. Kalla menn þetta að koma hlutunum með einhverjum skilmerkilegum hætti á framfæri? Veita upplýsingar sem mark sé á takandi? Er kannski fleira af því sem verið er að
tíunda og á að byggjast á munnlegri geymd af þessu tagi? Ja, ég spyr. Það er von að maður spyrji þegar hálmstráin eru nú ekki merkilegri en þetta sem verið er að færa hér fram. Og ég tek það fram að lokum að ég ber fullt traust til hæstv. forsrh. og tek að fullu og öllu mark á því sem hann hefur frá skýrt. Ég hef aldrei staðið hann að öðru en því að upplýsingar sem hann ber fram af þessu tagi væru marktækar að fullu og öllu.
    Ég vil líka meina það og ætla að leyfa mér að segja að ýmis samskipti mín við batterí sem nefnt er varnarmálaskrifstofa eru af því tagi að það kemur mér ekki mjög á óvart þó að meðferð upplýsinga á þeim bæ sé með nokkuð skringilegum hætti á köflum. Ég hef átt, vegna áhuga míns og þátttöku í umræðum um þessi mál undanfarin 5--6 ár, talsvert saman við þessa aðila að sælda þó með óbeinum hætti sé, þ.e. maður hefur heyrt bergmál af þeirra vinnubrögðum og enduróm koma jafnvel hér inn í sali Alþingis. Og það hefur ósjaldan skeð að þeir hafa setið hér í hliðarsölum þegar umræður hafa farið fram af þessu tagi. Mér hefur virst það vera svo að framreiðsla upplýsinga frá þessum ágætu mönnum væri nokkuð hentistefnukennd og bæri jafnvel nokkurn keim af því, svo að ekki sé fastara að orði kveðið, hvenær það hentaði og hvenær ekki að láta upplýsingar koma fram. Þannig hefur það stundum verið að engar

upplýsingar hafa virst vera fyrir hendi og hvorki Alþingi né þjóðin hefur haft hugmynd um hvað þessi stofnun hefur verið að bardúsa svo árum skiptir, en þegar það svo hentar spretta alskapaðar fram í dagsljósið fullbúnar skýrslur upp á tugi blaðsíðna til að nota við tiltekin tækifæri ákveðnum málstað til framdráttar. Þannig hefur mér virst að háttað væri reglum um meðferð upplýsinga á þessum bæ og gerir það það að verkum að ég á létt með að trúa því að sú í raun og veru hroðalega skýrsla sem gefin hefur verið í þessum umræðum um vinnubrögð í þessari deild, m.a. skráningu fundargerða og fleira af því tagi, sé sönn og rúmlega það.