Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil staðfesta það fyrst, sem kom fram hér áðan, að ástæða þess að ég og væntanlega aðrir höfðu ekki beðið um orðið hér áðan var einfaldlega það að hæstv. forseti Salome Þorkelsdóttir tilkynnti að það væri beðið eftir 1. þm. Reykv. og mig minnir að það hafi verið um það bil 5 mínútur sem beðið var í þögn eftir komu hans í salinn. ( Forseti: Forseti vill aðeins taka það fram að ástæðan fyrir því að hv. 1. þm. Reykv. gat ekki komið í salinn var að hann var á fundi með hæstv. forseta Sþ. niðri í hans skrifstofu.) Já, ég er ekkert að draga það í efa. Ég er einfaldlega að skýra það hvernig stóð á því að enginn annar var á mælendaskrá því að venjan hefur almennt verið sú að ef það á að fresta umræðu af þessu tagi sé gert almennt samkomulag um það.
    Ég vil hins vegar nota þennan tíma til að fara nokkrum orðum um einstakar spurningar sem til mín hefur verið beint í þessari umræðu.
    Í fyrsta lagi vil ég greina frá því að það héldu áfram viðræður milli samninganefndar ríkisins og samninganefndar BHMR síðdegis í dag og í kvöld og báðir aðilar urðu ásáttir um að vinna að ákveðnum hugmyndum sem mótaðar yrðu í kvöld og fram að hádegi á morgun og síðan mundu viðræðuaðilar bera sama bækur sínar. Sáttasemjari væri ekki þátttakandi í þessari vinnu heldur væri hún algerlega á vegum fulltrúa BHMR og samninganefndar ríkisins. Ég held að þessi þróun mála frá því að ég greindi frá stöðunni síðdegis í dag staðfesti það, sem ég sagði þá, að ég hefði nokkuð góðar vonir um að yfir helgina hefði tekist að finna ákveðinn farveg fyrir þessar viðræður sem ég vænti að geti skilað árangri innan tíðar.
    Í öðru lagi var þeirri spurningu beint til mín hver væri umframkostnaður ríkisins sérstaklega vegna þessa kjarasamnings við BSRB. Hann er hvað launaþáttinn snertir í kringum 500 millj. Það eru þau viðbótarútgjöld á launaliðnum sem þessi samningur felur í sér.
    Í þriðja lagi hefur nokkuð verið vikið að ummælum mínum varðandi samninga á hinum almenna vinnumarkaði. Þar sagði ég að grundvallaratriðið væri hinn frjálsi samningsréttur. Hann felur í sér að fulltrúar launafólks í hinum einstöku atvinnugreinum og fulltrúar atvinnurekenda geri kjarasamning. Það er ekki vettvangur ríkisins að vera aðalþátttakandi í þeirri vinnu og ég endurtek það hér, sem ég hef sagt í fjölmiðlum, að mér finnst hættumerki hvað fulltrúar atvinnurekenda og ýmsir aðrir sem að samningum á hinum almenna vinnumarkaði koma eru haldnir mikilli ríkisforsjárhyggju í þeirri vinnu. Áður en þeir eru sjálfir sestir að ítarlegum viðræðum sín á milli er fyrsta hugsunin ávallt að hlaupa til ríkisvaldsins og spyrja um þetta og spyrja um hitt, biðja um þetta og biðja um hitt. Við þróum ekki okkar hagkerfi með þeim hætti ef þeir sem eru fulltrúar atvinnulífsins og samtaka launafólks taka ekki sjálfstæðar ákvarðanir í sínum samningum. Það er tómt mál um það að tala af

hálfu forustumanna atvinnurekenda að vera að biðja hér um þróun frjálsra samskiptahátta á hinum ýmsu mörkuðum í okkar hagkerfi, bæði peningamarkaði, þjónustumarkaði og vinnumarkaði, ef menn eru ekki reiðubúnir fyrst að axla þá ábyrgð sem felst í því frelsi en verða ætíð í upphafi í hverri samningalotu að biðja um sífellda fundi í stjórnarráðinu. Meginástæða fyrir því að það er eðlilegt að samningarnir séu sjálfstæðir á hinum frjálsa vinnumarkaði er að aðstæður þar eru mjög mismunandi og fyrirtæki og atvinnugreinar geta sem betur fer boðið sínu fólki betri kjör með margvíslegum hætti. Ég nefni t.d. að Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna hafa þegar gert samning við iðnaðarmenn um 4--6% kauphækkun fram að hausti. Forustumenn þessara samtaka hafa ekki verið að heimta neinar gengisfellingar út af þeim samningi sem þeir hafa þó sjálfir gert við sína viðsemjendur en ætla svo að kyrja gengisfellingarkór út af samningi ríkisins sem felur ekki í sér meiri breytingar á sambærilegum tíma en samningurinn við iðnaðarmenn. Það er þess vegna ekkert samræmi í þessum málflutningi Vinnuveitendasambandsins og Hjartar Eiríkssonar, fulltrúa Sambandsins, sem vitnað hefur verið til í kvöld. Um það mætti auðvitað hafa mörg fleiri orð. Ég endurtek það hér: það er ekkert tilefni til gengisbreytinga í þeim kjarasamningi sem gerður hefur verið við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, ekki neitt.
    Þau orð sem sumir hafa vitnað til og hæstv. sjútvrh. lét falla í dag eru hins vegar ósköp eðlileg yfirlýsing í því hagkerfi sem við búum við, að það geti komið til þess einhvern tíma síðar á þessu ári að gengið taki einhverjum breytingum, en mjög litlum eins og hæstv. sjútvrh. sagði þá. En að tengja það við kjarasamninga BSRB eins og hv. fulltrúar Sjálfstfl. hafa hér gert er algerlega út í hött. Hvers vegna? Jú, vegna þess að í samningum opinberra starfsmanna er verið að semja um sérstakar hækkanir hjá þeim lægst launuðu í gegnum krónutöluregluna, hækkanir hjá fólki sem hefur í heildarlaun 40--50 þús. kr. á mánuði. Og að ætla sér á þeim grundvelli að gera gengisfellingarkröfu á ríkið vegna þess að laun fólks sem er kannski með 60--70 þús. kr. í heildarlaun eigi að hækka með því að yfirfæra þessa upphæð yfir í reikningsgrunn fiskvinnslunnar að gefnu tilliti til hinna sérstöku
launakjaraaðferða bónus- og álagsgreiðslna sem þar hefur þróast er það sama og að segja að öll launakerfi í landinu eigi að vera bundin af bónuskerfinu í fiskvinnslunni. Væri svo ætti Vinnuveitendasambandið og fiskvinnslan þá að afhenda ríkisvaldinu samningaumboðið fyrir sjálfan sig, en það hafa þeir auðvitað ekki gert. Þess vegna er það algerlega út í hött að taka þessa krónuupphæð, yfirfæra hana í allt annað launakerfi eins og tíðkast í sjávarútveginum, láta hana þar mynda reikningsgrunn margfeldis upp eftir launakerfinu og ætla svo að gera gengisfellingarkröfu á ríkið eftir þeirri aðferð. Væri krónutölureglunni beitt í sjávarútveginum í launakerfi

fiskvinnslunnar með sama hætti og gert er í kjarasamningum BSRB er engin ástæða fyrir fiskvinnsluna til að biðja um gengisfellingu á grundvelli þessa kjarasamnings.
    Hins vegar er það ekkert nýtt að fiskvinnslan biðji um gengisfellingu. Það hefur hún gert á hverju ári undanfarin ár án þess að geta bent á það að gengisbreyting mundi í nokkru bjarga þeim fiskvinnslufyrirtækjum sem verst eru stödd. Og ég spyr hv. varaþm. Sjálfstfl. á Vestfjörðum sem talaði áðan: Mundi gengisfelling bjarga fiskvinnslufyrirtækjum Einars Guðfinnssonar í Bolungarvík? Hvað þyrfti sú gengisbreyting að vera mikil? 10%, 20%, 50%, 100%? Það væri fróðlegt að taka slík dæmi. Og það væri fróðlegt fyrir forsvarsmenn Vinnumálasambands samvinnufélaganna að taka dæmi af Dýrafirði, af Patreksfirði, af Stöðvarfirði, af Breiðdalsvík og fleiri stöðum og útskýra hvaða áhrif gengisfelling hefði á rekstrargrundvöll þessara fyrirtækja því hún stóreykur fjármagnskostnaðinn, hún stóreykur skuldabyrðina. Hún magnar í raun og veru upp vanda þessara fyrirtækja, en leysir hann ekki með neinum hætti og það eina sem hún gerir er að rýra kjör fólksins í landinu. ( FrS: Af hverju hækkið þið bara ekki gengið ef þetta er rétt hjá hæstv. ráðherra?) Hæstv. fyrrv. iðnrh., sem stóð hér fyrir svokallaðri fastgengisstefnu og á auðvitað stærsta þáttinn í því hvernig er komið fyrir iðnfyrirtækjum í landinu, ætti ekki úr sæti sínu að spyrja slíkrar spurningar eins og hann bar fram því að hann veit fullvel að það hafa verið gerðar á undanförnum mánuðum breytingar á raungenginu. Það hefur lækkað. Þær breytingar hafa hins vegar verið gerðar smátt og smátt. Þannig hafði t.d. 3% gengisbreytingin í september sl. mun meiri áhrif til styrktar útflutningsatvinnugreinunum en 10% gengisbreytingin sem hæstv. þáv. iðnrh. stóð fyrir í maí á því ári. Það eru einmitt þær aðferðir sem ríkisstjórnin hefur beitt frá því í september og til þessa dags sem hafa leitt til þess að ákveðnar aðgerðir í efnahagsmálum til skuldbreytingar hjá fyrirtækjunum ásamt minni háttar breytingum í hverjum áfanga á genginu hafa í raun skilað útflutningsgreinunum inn á raungengi nú sem er sambærilegt við meðaltal undanfarinna 30 ára. Ef litið er á það er ekki hægt að finna neinn efnisgrundvöll til að rökstyðja sérstaklega þörf á gengisbreytingum, enda hafa þau rök ekki verið flutt fram. Það hafa ekki verið lagðir fram neinir útreikningar í þeim efnum. Það hafa bara verið almennar óskir. Hins vegar vita menn það ósköp vel að ef tekin eru út úr reikningsdæminu þau frystihús og þau sjávarútvegsfyrirtæki sem verst eru stödd, fyrirtæki sem verið er að bjarga með skuldbreytingum eða með auknu hlutafé til að styrkja eiginfjárstöðuna, kemur rekstrargrundvöllurinn í heild allt öðruvísi út.
    Um þetta mætti hafa mörg fleiri orð. En ég endurtek: Það er fullkomlega út í hött að ætla sér að sækja einhverjar gengisfellingarröksemdir í þann kjarasamning sem gerður var við opinbera starfsmenn. Og ég endurtek líka að ég tel að ef borinn er saman

sá kjarasamningur sem Vinnuveitendasambandið og Vinnumálasamband samvinnufélaganna hafa sjálf gert við iðnaðarmenn og hafa lýst því yfir við okkur að þau telji sig siðferðilega skuldbundin til þess að fylgja við fiskvinnslufólk, þá er ekki hér um stóran mun að ræða.
    Í þriðja lagi: Ef forsvarsmenn fiskvinnslunnar eru reiðubúnir að aðlaga eðli launaútreikninganna í fiskvinnslunni þeim krónutölubreytingum sem þessi láglaunasamningur við opinbera starfsmenn felur í sér, þá er heldur ekki hægt að sækja neinn rökstuðning fyrir gengisbreytingar í þennan kjarasamning. Og ég spyr: Er ekki skynsamlegra að reyna að laga eðli launakerfisins að slíkum láglaunaleiðréttingum en byrja bara að syngja gengisfellingarkórinn áður en menn hafa einu sinni varið nokkrum dögum í að skoða möguleikana á þeim breytingum?
    Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir og enn fremur hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir gerðu nokkuð að umtalsefni þau orð mín að stefna og efnisatriði þessa kjarasamnings bæru sérstakt svipmót réttindabaráttu kvenna. Það orð hefur verið notað við mig að þessi kjarasamningur væri sérstaklega kvennavinsamlegur í hugsun sinni og uppbyggingu. Ég skal fara aðeins um það fleiri orðum því að ég tel það vera mjög mikilvægt atriði. Hvers vegna? Vegna þess að á undanförnum árum hefur því oft verið haldið fram að það væri ekki hægt að gera kjarasamninga sem væru launastéttum kvenna sérstaklega í hag. Ástæðan væri sú að áherslan og þrýstingurinn á prósentuhækkanirnar hjá hinum sem efra væru í stiganum væri ætíð það mikill að hagsmunir kvennastéttanna sem
væru í lægri þrepunum væru fyrir borð bornir. En það gerðist ekki nú. Þetta er fyrsti kjarasamningurinn í langan tíma þar sem grundvallarreglan er í þágu þeirra stétta þar sem konur eru hlutfallslega flestar, hjá opinberum starfsmönnum. Og með því að velja krónutöluregluna, þá láglaunaleiðréttingarstefnu sem í kjarasamningnum felst, er verið að setja þær starfsstéttir þar sem konur eru fjölmennastar í forgangsröð, númer eitt. Það hefur ekki verið gert í öðrum kjarasamningum hér í langan tíma. Það er sérstaklega athyglisvert að um það náðist mjög breið samstaða innan BSRB. Það var líka í samræmi við þá stefnu sem við mörkuðum upphaflega af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar við lýstum því yfir að í komandi kjarasamningum ætti sérstaklega að leiðrétta laun þeirra sem lægstir væru í launastiganum. Það er, eins og hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir benti á, önnur aðferð við að segja að það eigi sérstaklega að leiðrétta hag kvenna í kjarasamningunum.
    Í öðru lagi var tekin sú ákvörðun að viðurkenna lífaldur sem grundvöll að launaflokkauppstokkunum í neðri hluta launastigans. Það vita allir sem til þekkja að miðað við samsetningu vinnumarkaðarins hjá okkur er slík lífaldursregla konum sérstaklega í hag. Þannig fékkst inn í þennan kjarasamning grundvallarviðurkenning á reglu sem því miður hefur átt mjög erfitt uppdráttar í kjarasamningum fram til þessa. Og hvers vegna hefur hún átt erfitt uppdráttar?

Jú, vegna þess að mikill þrýstingur hefur verið á að ýmiss konar próf, ýmiss konar önnur áunnin réttindi þeirra sem fyrr voru komnir inn á vinnumarkaðinn, sem eru aðallega karlar vegna þess tímaskeiðs sem vinnumarkaðsþróunin hjá okkur hefur farið í gegnum, hefur staðið gegn þessu markmiði. Með því að viðurkenna lífaldurinn sem grundvöll að þessari uppstokkun er verið að innleiða aðferð sem í öðrum kjarasamningum á kannski eftir að fela í sér meiri réttindi fyrir konur, ekki bara hjá hinu opinbera heldur annars staðar á vinnumarkaðnum ef aðrir fara að þessu fordæmi.
    Þriðja atriðið snertir það að kveða fastar á um framkvæmd laganna sem varða réttindi barnshafandi kvenna og kvenna og foreldra í fæðingarorlofi. Það eru bæði réttindi sem auðvelda að færa barnshafandi konur til í starfi þegar ljóst er að það starf sem þær gegna öllu jöfnu kunni að vera þeim hættulegt hvað heilsu snertir eða fóstrinu hættulegt og þess vegna sé eðlilegt að bjóða upp á þann möguleika að færa konur til í starfi án þess að þær missi nokkurs í launum. En ef beita ætti því að þær mundu við það missa einhvers í launum væru óeðlilegar hindranir í slíkri tilfærslu. Þessu til viðbótar er kveðið á um nýjar viðmiðanir varðandi launagrundvöll barnshafandi kvenna og ýmiss konar önnur réttindi sem fylgja samningnum í sérstökum bókunum.
    Ég er alveg sammála því að margt af þessu eru sjálfsögð atriði í okkar þjóðfélagi. Engu að síður hefur ekki tekist fyrr en nú að fá þessi atriði jafnskýrt mörkuð í samningnum. Ég segi hér hiklaust og með allri virðingu fyrir þeim karlmönnum, sem í samninganefndum ríkisins og BSRB voru, að ég veit að þessi ákvæði hefðu ekki sett jafnríkt svipmót á þennan kjarasamning ef konur hefðu ekki verið jafnfjölmennar í samninganefnd ríkisins og í samninganefnd BSRB. Það er staðreynd að hin ríka þátttaka kvenna í samninganefnd ríkisins og í samninganefnd BSRB hefur sett sterkt svipmót á þennan kjarasamning. Ég hélt satt að segja í einfeldni minni að Kvennalistinn mundi þá nota þetta kærkomna tækifæri til að sýna fram á að þess sæi þá stað að konur kynnu kannski að hafa einhver önnur viðhorf og einhverjar aðrar áherslur í þessari vinnu en karlar. Það væri visst tilefni til þess að undirstrika það að með því að fjölga konum í ábyrgðarstöðum hjá samtökum launafólks og hjá ríkisvaldinu væri fyrr hægt að ná fram þjóðfélagslegum réttindabótum, betra mannlífi, fegurra mannlífi og alls konar réttindamálum sem við í sameiningu viljum leggja áherslu á. En í stað þess rísa fulltrúar Kvennalistans hér upp og þessi samningur er meira og minna fordæmdur. Það er auðvitað hægt að hafa alls konar skoðanir á launatölunum sem í samningnum eru. En að horfa fram hjá þessum atriðum finnst mér vera það sama og að vísa frá sér mjög veigamiklum rökum um aukin áhrif, aukna ábyrgð og aukna þátttöku kvenna í mótun okkar þjóðfélags.
    Það segja mér fjölmargir sem hafa tekið þátt í kjarasamningavinnunni í áraraðir að í þessum samningi

sjáist skýrar og betur áhrif kvenna sem tóku þátt í að móta hann heldur en í öðrum kjarasamningum. Ég ætla ekki að kveða upp þann dóm vegna þess að ég er ekki nægilega kunnugur á þessu verksviði á fyrri tíð til þess að úrskurða í því efni. Ég hafði þess vegna í einfeldni minni búist við því að Kvennalistinn mundi fagna sérstaklega þeim áföngum sem þarna hafa náðst í langvarandi réttindabaráttu kvenna, bæði á sviði launastefnunnar, á sviði uppbyggingar launastigans og á sviði þeirra réttinda sem snúa sérstaklega að barnshafandi konum, að fæðingarorlofi og öðrum slíkum réttindamálum. En maður verður alltaf reynslunni ríkari og umræðan hér í dag hefur sýnt mér það að þessi veigamiklu atriði eru af hálfu Kvennalistans talin svo léttvæg að það taki því varla að nefna þau, og það sem meira er, reynt er að sýna kjarasamninginn í allt öðru ljósi með því að halda því fram að þetta sé sama launastefnan og áður hefur ríkt.
    Það að beita krónutölureglunni á þann veg að lægst launuðu hóparnir fá hlutfallslega mest er ekki sama launastefna og hér hefur ríkt. Það að taka upp lífaldursregluna sem gagnast sérstaklega lægri launaflokkunum þar sem konur eru fjölmennastar er ekki sama launastefna og hér hefur ríkt. Það að skipa í forgangsröð fjölmörgum réttindamálum kvenna, sérstaklega fæðingarorlofsmálum og barnshafandi kvenna, er ekki sama launastefna og hér hefur ríkt. Öll þessi þrjú grundvallaratriði mynda burðarásinn í þeirri nýju launastefnu sem þessi kjarasamningur tekur mið af. Þessi atriði öll eru sjálfstæð og skýr í samningnum hvað sem krónutölunum í honum líður. Á þeim geta menn haft ýmsar skoðanir, bæði þær sem Sjálfstfl. hefur hér lagt fram þar sem hann fordæmir þær fyrir að vera allt of háar, eða atvinnurekendasamtökin eða Morgunblaðið sem fordæma þær fyrir að vera allt of háar, og jafnvel Vinnumálasamband samvinnufélaganna sem líka fordæmir þær fyrir að vera allt of háar, eða Kvennalistinn eða aðrir sem fordæma þær fyrir að vera of lágar. Ég tel hins vegar að þegar deilunni um þessar krónutölur verður lokið og hún gleymd, þá muni standa eftir þessi þrjú grundvallaratriði sem ég hef hér rakið: krónutöluregla í þágu láglaunafólks, sérstaklega kvenna, breytingar á launastigum á grundvelli lífaldurs, sem er líka veigamikið réttindamál í þágu kvenna, og þau atriði sem kveðið er á um í sérstökum bókunum og snerta fæðingarorlof og stöðu barnshafandi kvenna.
    Ég vona, virðulegur forseti, að ég hafi varpað nokkru ljósi á það sem óskað var eftir að skýrara ljósi væri varpað á og jafnframt svarað ýmsum af þeim spurningum sem til mín hefur verið beint í þessari umræðu. En ég mun svo taka þátt í því með þingmönnum Sjálfstfl. og öðrum að bíða eftir hæstv. sjútvrh. og taka honum fagnandi þegar hann kemur hér í salinn þó að ég verði nú að segja eins og er að mér er ekki alveg ljóst hvers vegna Sjálfstfl. leggur svona mikið kapp á þetta atriði nema hann vilji gera það til þess að reyna að breiða yfir þær miklu þverstæður sem eru í málflutningi forustumanna

Sjálfstfl. um þennan kjarasamning, þær miklu þverstæður sem eru í málflutningi stjórnarandstöðunnar hér á Alþingi um þennan kjarasamning og þær miklu þverstæður sem eru í málflutningi samtaka atvinnurekenda um þennan kjarasamning.