Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Hæstv. viðskrh. sté hér í stólinn og brá sér í sinn gamla kjól, sem hann að vísu hefur ekki varpað frá sér alfarið enn, kjól forstjóra Þjóðhagsstofnunar. Hann lagði hér fram fyrir alþingismenn þrenns konar mat á gerðum kjarasamningum, deildi svo í með þremur og sagði: Meðaltalið sýnist nú vera harla gott. Það er ekki von að vel takist til ef þetta er hugsunin á bak við allt sem hæstv. ríkisstjórn gerir, og minnir á það þegar Framsfl. var á sínum tíma í dómsmrn. að kaupa trésmiðju í Kópavoginum fyrir Rannsóknarlögreglu ríkisins. Upphófust miklar umræður um það hvort hún væri skynsamlega staðsett og þá fundu þeir einhvern mann í flokksapparatinu sem setti sirkil á kort, dró stóran hring í kringum hina nýju lögreglustöð og benti mönnum svo á að sannarlega væri hún í miðjum hringnum. Þetta eru aðferðir sem greinilega eru gengnar aftur með því að hæstv. viðskrh. bregður sér hér í sinn gamla og að vísu enn verandi kjól.
    En hvað segir svo hæstv. viðskrh.? Hann segir: Aðilarnir á vinnumarkaðnum eiga að gera kjarasamninga með sama hugarfari og ríkissjóður. Og hvert var nú þetta hugarfar ríkissjóðs? Þetta hugarfar ríkissjóðs kom fram í því að leggja 7 milljarða kr. í nýja skatta á fólkið og atvinnufyrirtækin í landinu. Þetta hugarfar var fólgið í því að byrja árið með því að rýra kaupmáttinn vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar um a.m.k. 7%. Ríkissjóður, sem byrjar kjarasamninga á því að leggja 7 milljarða á atvinnufyrirtækin og launafólkið sem vinnur á almennum vinnumarkaði, getur auðvitað komið og barið sér á brjóst og sagt: Svona geri ég, þetta er nú mitt hugarfar og nú skulu aðrir hafa það sama. En ég spyr hæstv. sjútvrh.: Geta fiskvinnslufyrirtækin gert þetta sama? Hafa þau sömu aðstöðu í þessu þjóðfélagi og hæstv. fjmrh. að auka tekjur sínar um 7 milljarða kr.? Það stóð ekki á stjórnarliðinu að leggja nýja skatta á atvinnufyrirtækin. En hafa þeir rétt hér upp hendurnar til þess að auka tekjur frystihúsanna? Nei. Svo kemur hæstv. viðskrh. og segir: Þeir eiga að gera þetta með sama hugarfari. ( Viðskrh.: Fyrirgefðu, þeir hafa gert það. Það var gert í fyrra.) Ég er ansi hræddur um það, hæstv. viðskrh., að það mundi lítið þýða fyrir hæstv. sjútvrh. að ræða við fólkið í sjávarplássunum á þessum nótum og ég veit að hann gerir sér grein fyrir því. Ræða hans í dag og ræða hans hér áðan bar vitni um það að hann hefur skilning á þeirri aðstöðu sem fyrir hendi er.
    Það hefur komið fram að það eru tvenns konar skoðanir uppi í hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. fjmrh. segir: Þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið gefa ekkert tilefni til að breyta gengi krónunnar, jafnvel þó þeir fari óbreyttir yfir vinnumarkaðinn. Undir þetta sjónarmið tekur hæstv. viðskrh. En hæstv. sjútvrh. og starfandi forsrh. viðurkennir að ekki hafi verið gert nóg til að bæta stöðu sjávarútvegsins og það þurfi að breyta gengi krónunnar. Og um leið og hann hefur sagt það kemur hæstv. fjmrh., sem hefur fengið vald til þess að stýra þessari ríkisstjórn, og segir: svona má ekki tala, og endurtekur hinar fyrri yfirlýsingar.

    Ég veit að hæstv. sjútvrh. hefur góðan hug og hann skilur þann vanda sem fyrir hendi er sem hvorki hæstv. fjmrh. né hæstv. viðskrh. virðast hins vegar skilja eða a.m.k. vilja ekki skilja. En vandi hæstv. sjútvrh. er sá að flokkur hans hefur fórnað sér á altari Alþb. og er reiðubúinn að fórna skilningi sínum fyrir forustu hæstv. fjmrh. Það er vandi Framsfl. og hæstv. sjútvrh. í þessari umræðu.
    Hæstv. sjútvrh. viðurkennir að það þarf viðbótaraðgerðir til þess að bæta stöðu sjávarútvegsins. Hann segir: Við getum ekki svarað hvernig á að bæta þar úr. Hæstv. sjútvrh. viðurkennir að millifærslurnar í gegnum ríkissjóð eru senn á þrotum. Og hann segir: Við höfum engin ráð og vitum ekkert hvað við á að taka. Hann segir að vísu: ,,þarf`` að fella gengið vegna kjarasamninganna. Hann vísar á hæstv. fjmrh. sem neitar því. Svo segir hann: Við þurfum nú ekki að gera Alþingi reikningsskap gerða okkar. Aðilar vinnumarkaðarins ætla að koma á okkar fund og bera fram fyrirspurnir. En ég spyr: Hvaða tilgangi þjónar það fyrir forustumenn Alþýðusambandsins og forustumenn Vinnuveitendasambandsins að ganga á fund ríkisstjórnarinnar ef svörin verða þessi: Við vitum ekki hvað við ætlum að gera, við vitum ekki hvernig við ætlum að bregðast við. Að vísu er það rétt að gengið þarf að lækka en hæstv. fjmrh. neitar því og þess vegna getum við ekki gert það. Hvaða erindi eiga þá aðilar vinnumarkaðarins á fund hæstv. ríkisstjórnar? Í hvaða tilgangi eiga þeir að labba upp í Stjórnarráð, ef svörin eru þessu?
    Kjarni málsins er sá að eftir að ríkið tók frumkvæðið í þessum málum úr höndum aðila vinnumarkaðarins og bjó til þá niðurstöðu sem nú er fengin verður það ekki dregið að gefa við þessu skýr svör. Mér er ljóst að hæstv. ríkisstjórn getur virt hið háa Alþingi að vettugi af því að hún ber ekki meiri virðingu fyrir því en raun ber vitni. En hún kemst ekki hjá því að það verður að gera kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og það er sú staðreynd sem gerir það að verkum að það verður ekki lengur dregið að gefa þessi svör. Það verður ekki lengur unnt að ýta þeim á undan sér og segja: Við ætlum að bíða og sjá
hvort ekki komi betri tíð með blóm í haga. Það eru einu svörin sem hæstv. ríkisstjórn hefur gefið í heilan vetur. Nú er það ekki lengur unnt vegna þess að fólkið í landinu lítur á það sem réttlætiskröfu að fiskvinnslufólkið og fólkið í verksmiðjunum fái sambærilega launahækkun við það sem opinberir starfsmenn hafa fengið. Hæstv. starfandi forsrh. hefur viðurkennt að það sé réttlætiskrafa. Á þá að draga að búa til forsendur fyrir þeirri ákvörðun þangað til einhverjir draumar um betri tíð rætast? Ætlar hæstv. ríkisstjórn að mæta eftir tvo daga á fund með aðilum vinnumarkaðarins og gefa sömu svör og gefin voru í dag og gefin eru hér í nótt? Við vitum ekki hvernig á að bregðast við. Er það uppgjafaryfirlýsingin sem aðilar vinnumarkaðarins eiga að fá? Ég er ansi hræddur um að ef það á að vera svarið á hinum væntanlega fundi séu alvarleg tíðindi í vændum í þessu þjóðfélagi og alvarlegri atburðir en hæstv.

ríkisstjórn gerir sér grein fyrir.
    Frú forseti. Það er ástæðulaust að lengja þessa umræðu mikið meira. Hún hefur þó dregið það fram í dagsljósið að hæstv. fjmrh. hefur gefið um það ótvíræðar yfirlýsingar, sem fulltrúar opinberra starfsmanna hafa vitnað til, að þessir kjarasamningar gefi ekki tilefni til gengisbreytinga. Hæstv. ríkisstjórn stendur frammi fyrir því að þurfa annaðhvort að standa við þau fyrirheit sem hæstv. fjmrh. hefur gefið opinberum starfsmönnum og svíkja atvinnulífið í landinu og launafólkið eða svíkja þau fyrirheit sem gefin hafa verið opinberum starfsmönnum og koma til móts við atvinnuvegina og fólkið sem þar starfar. Það er hæstv. ríkisstjórn sem hefur komið sér í þessar ógöngur sjálf. Hún hlýtur að verða að brjóta trúnað við annan hvorn aðilann. Það er útilokað fyrir hæstv. ríkisstjórn að komast út úr þessari stöðu á annan veg. Það er niðurstaða sem er því miður ekki skemmtileg fyrir hæstv. ríkisstjórn og því síður fyrir þjóðina.