Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Strax við 1. umr. þessa máls og æ síðan hef ég verið mótfallin því að minnka afskipti menntmrn. eins og þau voru tilgreind í 60. gr. þegar frv. var lagt fram. Það er vegna þess að ég tel nauðsynlegt að tryggja lágmarksstaðal í rekstri dagvistarheimila en ekki vegna þess að ég vantreysti sveitarfélögum. Ég tel mjög mikilvægt að ríkisvaldið hafi afskipti af og ábyrgð á því að tryggja lágmarksstaðal, einkum hvað varðar þau sveitarfélög sem eru minnst og fátækust og þá styðja þau til þess. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að halda þessari grein eins og hún er í frv. og greiði ekki atkvæði um þessar breytingar.