Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Valgerður Sverrisdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna og var nú satt að segja að vonast til þess að hún væri að verða búin. En ég vil vegna athugasemda hv. 2. þm. Norðurl. e. segja það að að mínum dómi hefur formaður fjh.- viðskn. þessarar hv. deildar stjórnað því starfi í vetur af miklum ágætum og mikilli sanngirni og sérstakri kunnáttu um fundarsköp og önnur þess háttar mál. Auk þess vil ég segja það að að mínu mati hefur stjórnarandstaðan í öllum aðalatriðum sýnt sanngirni og samstarfsvilja við að koma málum áfram hér í hv. deild.
    Varðandi það að hér endurtaki það sig ár eftir ár að það sé unnið í törnum tvisvar á ári, fyrir jól og síðan að vori, þá er það nú einu sinni svo með okkur Íslendinga að okkur fellur ekkert illa að vinna í törnum, enda höfum við stundum verið kennd við veiðimannaþjóðfélag. Þess vegna taldi ég sem nýgræðingur hér á hv. Alþingi að þetta væri bara eitthvað sem við réðum ekkert við og í raun vildum við vinna svona þó að það sé gagnrýnt hér á hverju ári. Nú hef ég verið stjórnarsinni í tveimur ríkisstjórnum, tvö ár í röð, og ekki þeim sömu, og ég get ekki séð að það sé stórkostlegur munur á vinnubrögðum. Það er rétt að hér eru mjög mörg frumvörp til umfjöllunar í þinginu, en mér dettur ekki í hug að það standi til að þau verði öll afgreidd. ( Gripið fram í: Jæja!) Mörg þeirra eru lögð fram til kynningar.