Aðför
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá allshn. um frv. til laga um aðför.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. Hér er um viðamikinn lagabálk að ræða sem ætlað er að leysa af hólmi tvenn lög um aðfarargerðir, annars vegar lög um aðför, nr. 19/1887, og hins vegar lög um lögtak og fjárnám án undanfarins dóms eða sáttar, nr. 29/1885. Frv. er samið sem þáttur í heildarendurskoðun löggjafar um dómstólaskipan og réttarfar á héraðsdómsstigi og tengist þannig frv. til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, en nefndin hefur nýlega afgreitt það frv. frá sér.
    Markús Sigurbjörnsson, prófessor við lagadeild Háskólans, vann með nefndinni að athugun málsins, en auk þess komu lögfræðingarnir Viðar Már Matthíasson og Sigurður G. Guðjónsson til viðræðna við nefndina um ákveðna þætti frv. Þá bárust nefndinni umsagnir um frv. frá Dómarafélagi Íslands, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Lögmannafélagi Íslands, Sýslumannafélagi Íslands, Má Péturssyni bæjarfógeta og réttarfarsnefnd.
    Með hliðsjón af fyrirliggjandi umsögnum leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með tveimur brtt. sem fluttar eru á sérstöku þskj. Fyrri brtt. felur í sér að felldur er brott 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. Sú breyting felur í sér að héraðsdómari þurfi ekki að fjalla um aðfararkröfu sem styðst við skuldabréf, víxil eða tékka. Þar sem dómari athugar fyrst og fremst hvort öllum formsatriðum er fullnægt en leggur ekki mat á efni málsins verður ekki séð að sérstök þörf sé á því að dómari kanni gildi aðfararheimilda til þess að rita á þær hvort aðför megi fara fram eða ekki. Sýslumenn gætu eins kannað gildi aðfararheimildanna með sama hætti og dómurum er ætlað að gera samkvæmt frv. Ekki verður séð að réttaröryggi gerðarþola skerðist nokkuð þótt þessi háttur yrði hafður á, enda eru endurupptöku- og málskotsleiðir tiltölulega greiðar samkvæmt frv. Þá er líka rétt að hafa í huga að í þeim tilvikum, sem skuldari mótmælir og kærir aðför, er óeðlilegt að sami aðili (þ.e. héraðsdómari) hafi áritað aðfararheimildina og úrskurði jafnframt síðar um kæru skuldara.
    Síðari brtt. varðar gildistökuákvæði frv., en lagt er til að gildistöku laganna verði frestað um tvö ár, til 1. júlí 1992. Þessi breyting er til samræmis við frestun á gildistökuákvæði frv. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
    Guðrún Agnarsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk þessu áliti.``
    Undir nál. rita síðan allir nefndarmenn en þau Salome Þorkelsdóttir og Eyjólfur Konráð Jónsson með fyrirvara.