Framlagning stjórnarfrumvarpa fyrir eindaga
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að óskað sé eftir sem mestu og bestu samstarfi um þingstörfin, en mér kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir sú umræða sem hér verður af þeim sökum að menn hafa kostað kapps um að koma sínum málum fram fyrir þann frest sem settur var inn í þingskapalög núna fyrir fáeinum árum. Sá eindagi var einmitt settur inn til þess að forða því og afstýra, sem áður hafði viljað brenna mjög við, að jafnvel stórmál komu fram á síðustu dögum þingsins þegar ekki voru þó fimm eða sex vikur eftir af starfstíma Alþingis heldur jafnvel aðeins fáeinir sólarhringar. Ég hygg að hv. þm. megi hugleiða hvort ekki sé þó mun betra að hafa þennan eindaga og virða hann þannig að það sé tryggt að a.m.k. sé þó þessi tími til að fjalla hér um mál sem að sjálfsögðu eru ævinlega og í öllum tilvikum rædd af fullri alvöru. Um það þarf ekki að ræða.