Beitarþolsmat og beitarþolsrannsóknir
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Hér hafa verið fluttar tvær ákaflega mikilvægar ræður. Hæstv. landbrh. lýsir því yfir að aðferðir sem notaðar hafa verið við mat á beitarþoli landsins sé eðlilegt að þurfi að endurskoða eins og önnur vísindi og hér kemur svo upp annar hv. ræðumaður og talar um árás á Rannsóknastofnun landbúnaðarins sem felist í þessari fsp. Þetta er að vissu leyti nokkuð dæmigert fyrir þær umræður sem fram hafa farið um þessi mál að undanförnu.
    Þannig eru nefnilega mál með vexti að Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur verið yfir alla gagnrýni hafin eins og kom fram í ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar. Það er mjög mikilvægt að það sé dregið inn í þessa umræðu að þau vísindi, sem hæstv. landbrh. lýsir hér yfir að þurfi endurskoðunar við, hafa lagt grundvöll að hinni nöturlegu umræðu um þessi mál á þessum vetri og öllum árásunum á bændur landsins. Það er óyggjandi staðreynd. Það er ekki nema fullkomlega eðlilegt að það sé leitað að rótum þeirrar framsetningar og svara við þeim spurningum á hverju slíkur áróður gagnvart bændastéttinni byggist, hvort hann er vísindalegur eða hvort hann er tilkominn af einhverjum öðrum hvötum. En hann byggist að stærstum hluta á því hver framsetningin hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur verið í þeim efnum.