Sundurliðun símareikninga
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Fsp. hv. 1. þm. Reykn. var send Pósti og síma og þaðan hafa borist upplýsingar sem eru grundvöllur þess svars sem nú verður flutt.
    Byrjað var á undirbúningi fyrir sundurliðun símreikninga í stafrænu símstöðvunum á árinu 1987 og voru nauðsynleg forrit fyrir símstöðvarnar pöntuð um mitt það ár.
    Samkvæmt kostnaðaráætlun ársins 1988 upp á 30 millj. kr. var þetta verkefni sett á tillögur Pósts og síma um fjárfestingar fyrir árið 1989. En nauðsynlegt reyndist því miður eins og kunnugt er að skera verulega niður fjárfestingaráætlun stofnunarinnar eins og hún var send fjárveitingavaldinu og leiddi það til þess að þessi fjárfestingarliður var verulega niður skorinn.
    Hugbúnaður fyrir stafrænu símstöðvarnar í Landssímahúsinu, í Borgarnesi, á Sauðárkróki, Dalvík, Húsavík, Egilsstöðum og Hvolsvelli komu nú í mars sl. og er þessi búnaður nú í um það bil tveggja mánaða prófunum í Landssímastöðinni. Hugbúnaður fyrir stafrænu símstöðvarnar í Múla og Keflavík er væntanlegur nú í maí/júnímánuði.
    Tölvubúnaður til söfnunar, geymslu og úrvinnslu gagna ásamt forriti fyrir úrvinnsluna hefur ekki verið pantaður enn þá, en það verður væntanlega gert fljótlega.
    Á höfuðborgarsvæðinu verður sundurliðun reikninga bundin við stafrænu símstöðvarnar, þ.e. númer sem byrja á 6, og þurfa því notendur sem tengdir eru öðrum símstöðvum að skipta um símanúmer til þess að fá kost á þessari þjónustu. Af tæknilegum ástæðum verður þessi möguleiki bundinn stafrænu símstöðvunum, a.m.k. um hríð.
    Að lokinni prófun hugbúnaðarpakkanna í haust væri mögulegt að hefja prófun á þessari þjónustu gagnvart t.d. nokkrum notendum í Reykjavík og setja það síðan á framkvæmdaáætlun ársins 1990.
    Sundurliðun reikninga fyrir hliðrænu símstöðvarnar er margfalt dýrara verkefni en fyrir þær stafrænu og hafa engar áætlanir verið gerðar um sundurliðun reikninga í þeim stöðvum enn þá, enda fer þeim fækkandi og spurning hvort hyggilegt er að reikna með því yfirleitt að ráðist verði í þann kostnað gagnvart þessari eldri gerð.
    Þannig standa þessi mál í grófum dráttum. Ég hygg að það megi segja að Póstur og sími sé á allgóðu skriði við að gera sig tæknilega í stakk búinn bæði hvað varðar símstöðvar, tölvubúnað og hugbúnað til að hefja þessa þjónustu og bjóða upp á sundurliðun símreikninga. Væntanlega verður seint á þessu ári eða í öllu falli á hinu næsta unnt að gera a.m.k. tilraunir með þessa þjónustu, hefja prófun á því. Þá þarf að móta í framhaldinu reglur um hversu víðtæk hún verður og hvort hún nær til fleiri þátta en langlínusímtala eða símtala til útlanda eins og reyndar væri eðlilegt að byrja á. Ég hygg að áhugi almennings beinist fyrst og fremst að því að geta fengið sundurliðuð á sínum símreikningum þau símtöl sem

dýrust eru.