Reglur þingskapa um umræður um fyrirspurnir
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna þessarar umræðu um þingsköp vill forseti taka fram eftirfarandi:
    Á þeim fundi sem hér er nú að ljúka hefur verið svarað tíu fsp. þrátt fyrir óvenjulanga umræðu um fsp. hv. 6. þm. Reykv. Það verður að sjálfsögðu ævinlega að vera mat forseta hvort hann leyfir þingmanni að ljúka við setningu sem hann er byrjaður á eða rýfur mál þingmanns með bjöllunni.
    Ég hef reynt að sýna lipurð og skilning varðandi það að menn fái að ljúka hér máli sínu og tel þess vegna að ekkert hafi farið úr böndunum nema síður sé. Um margra ára bil hefur ekki verið um eins fáar fyrirliggjandi fsp. að ræða á þessum árstíma og nú er. Sannleikurinn er sá að það er sárafáum fyrirspurnum þessa þings ósvarað þannig að staðan í þinginu er betri varðandi þetta atriði en oft áður. Þess vegna tel ég að ekki hafi verið minnsta ástæða til að gera athugasemd við þá umræðu sem hér varð í morgun um verð á matvælum. Ég held að það geti enginn láð forseta þó að hann telji að það sé full ástæða til þess að sem flestir hv. þm. taki þátt í þeirri umræðu.
    Ég bið hv. þm. að gefa forseta hlé vegna þess að hér er þýðingarmikill fundur kl. 2 og það krefst undirbúnings. Ég gæti giskað á að þingflokkar vildu hittast. Ég bið því um að þessi umræða um þingsköp verði ekki löng.