Kafbátsslys við Bjarnarey
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Þetta óhapp hefur enn minnt okkur Íslendinga á það hversu mikið við eigum í húfi þar sem eru auðlindir hafsins. Það minnir okkur líka á það eða dregur athyglina að því hvernig við stöndum að þeim málum og hvernig við erum í stakk búin til þess að fylgjast með og grípa til ráðstafana ef þessari mikilvægustu auðlind okkar er á einhvern hátt ógnað.
    Sú stofnun íslensk sem fer með þau mál er tengjast mengun hafsins og varnir gegn því er mengunarvarnadeild Siglingamálastofnunar og hún heyrir enn sem komið er, samkvæmt núgildandi stjórnskipun landsins hvað sem verður nú á næstunni, undir Siglingamálastofnun og samgrn. Þar hefur að sjálfsögðu verið fylgst með þessu máli og eins og hér kom reyndar fram í máli hæstv. heilbrrh. er starfandi á vegum samgrn. samstarfsnefnd þeirra aðila sem sérstaklega tengjast mælingum og rannsóknum á mengun hafsins. Þar er fyrst og fremst um að ræða mengunarvarnadeild Siglingamálastofnunar, Geislavarnir ríkisins og sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar.
    Ég gerði ráðstafanir til þess að þessi nefnd kæmi saman svo fljótt sem verða mætti eftir að þetta óhapp varð og óskaði eftir því að sérstaklega yrði farið yfir það á fundi nefndarinnar hvort unnt væri og hvað til þyrfti að unnt væri að flýta þeirri ákvörðun, sem reyndar hafði þegar verið tekin, um að hefja reglubundnar mælingar á mengun hafsvæðanna hér í kringum landið. Það er einfaldast að segja það eins og er að um reglubundnar mælingar sem standa undir því nafni hefur í raun ekki verið að ræða og þetta minnir okkur enn einu sinni á þá þörf að við sjálfir komum okkur upp tækjabúnaði, mannafla og þekkingu til þess að geta fylgst með ástandi hafsvæðanna hér, mælt mengun og brugðið við ef atvik af þessu tagi koma upp. Ég hygg að það muni skýrast þegar í næstu viku og hér hafa reyndar þegar komið fram upplýsingar hvað snertir þann búnað sem Geislavarnir þurfa til þess að geta sinnt þeim hluta málsins, þ.e. mælingum á geislavirkni. Einnig eru í athugun möguleikar okkar á samstarfi við aðrar þjóðir á þessu sviði, bæði varðandi mælingar á geislavirkni og reyndar á fleiri mengunarvöldum. Það er alveg ljóst að það er áhugi á því hjá ýmsum öðrum þjóðum að styðja við bakið á okkur Íslendingum um að annast reglubundnar mælingar á þessu hafsvæði. Þar á meðal munu frændur vorir Svíar vera tilbúnir til þess að taka þátt í kostnaði af því tagi með okkur.
    Að lokum, virðulegur forseti, vil ég leyfa mér að bera fram þá frómu ósk að þetta atvik verði til þess að við tökum á okkur nokkra rögg, Íslendingar, og breytum því sem lengst af hafa verið orð í athafnir, þ.e. því sem við höfum oft og tíðum fjallað um og haldið um ræður, að við viljum mikið á okkur leggja til að berjast gegn mengun hafsins og afstýra óhöppum af þessu tagi og öðrum sem ógnað geta vistkerfinu á okkar hafsvæðum. Ég vil leyfa mér að

vona að þetta hvetji okkur til að fara að breyta þeim orðum, svo fróm og ágæt sem þau eru, í athafnir og tökum frumkvæði í að berjast gegn mengun hafsins af hvaða toga sem er.
    Því hefur stundum verið fleygt undanfarna daga að hin nýju landhelgismál okkar Íslendinga snúist um hvalveiðar. Ég hef ekki tekið undir það sjónarmið, en ég er tilbúinn til að taka undir það að hin nýju landhelgismál og hið nýja landhelgisstríð okkar Íslendinga gætu á næstu árum og áratugum snúist um baráttuna gegn mengun hafsins. Auðvitað er það til lítils fyrir okkur að hafa náð að færa út landhelgina og náð fullveldi okkar og þjóðarrétti viðurkenndum, hvað snertir efnahags- og auðlindalögsögu okkar, ef við náum ekki að verja hana og halda henni þannig að hún skili okkur þeim verðmætum sem við lifum af.
    Því tel ég að þetta eigi ekki síst að vera okkur áminning og hvatning um að við þurfum að gera meira en tala um þessa hluti og ég veit ekki hvaðan frumkvæðis ætti að vera að vænta í þeim málum sem snúa að baráttu gegn mengun hafs ef ekki frá Íslandi.