Grunnskóli
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir) (frh.) :
    Virðulegur forseti. Þetta á nú víst að heita framhald 1. umr. en svo háttaði til þegar þetta mál var tekið á dagskrá að kominn var þingflokksfundatími og höfðu allir yfirgefið þingsal.
    Flm. ásamt mér að þessu frv. sem ég mæli hér fyrir eru Ragnhildur Helgadóttir, Guðrún Helgadóttir, Guðmundur G. Þórarinsson, Óli Þ. Guðbjartsson og Árni Gunnarsson. Frv. þetta hljóðar upp á að bætt sé við 43. gr. laga um grunnskóla.
    Í 1. gr. birtist tilgangur greinarinnar sem er sá að gefa nemendum á grunnskólastigi kost á því að kynnast menningarstarfsemi af ýmsu tagi. Önnur meginatriði greinarinnar eru að skólayfirvöldum sé skylt að gangast fyrir því að listamenn og fræðimenn heimsæki skóla og að þessi starfsemi fari fram á skólatíma og verði að vera nemendum að kostnaðarlausu.
    Nú eru eflaust einhverjir þeirrar skoðunar að efni þessarar greinar eigi heldur heima í reglugerð en í lögum, en ég tel fulla ástæðu til að starfsemi af þessu tagi eigi sér stoð í lögum svo mjög sem þessum þætti uppeldis er ábótavant í skólakerfinu. Ekki er þó vilja- eða áhugaleysi skólayfirvalda eða skólafólks um að kenna, heldur einmitt því að hvergi er í lögum gert ráð fyrir skipulögðu starfi af þessu tagi.
    Vissulega eru margir kennarar með góða viðleitni og fara t.d. með börnin á söfn eða aðrar viðlíka stofnanir og einstöku sinnum er reynt að fá listamenn í heimsókn í skóla en allt er þetta frekar af vilja en mætti. Fjárveitingar til þessara hluta eru litlar sem engar og ekki einu sinni innan skólatíma, hvað þá ef verið er með einhverja slíka tilburði utan reglubundins skólatíma. Þá er það einungis áhugi eða fjárráð hvers nemanda eða foreldra sem ræður úrslitum. En áhuginn sprettur ekki af sjálfu sér. Hann þarf að vekja.
    Í I. kafla grunnskólalaga, sem ber heitið ,,Markmið og skólaskylda``, segir svo í 2. gr., með leyfi forseta:
    ,,Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á mannlegum kjörum, umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum, og skyldum einstaklingsins við samfélagið.``
    Þarna er nú svo sem ekki fast að orði kveðið um hvernig þessum tengslum skuli háttað og ekki eitt orð að finna um tengsl þeirra við íslenska menningu eða list. Nú látum svo vera. Markmiðslýsing er e.t.v. ekki það sem mestu veldur um hvernig á er haldið. En í V. kafla laganna, sem fjallar um starfstíma grunnskóla, námsefni og kennsluskipan, segir svo í í a-lið 42. gr., með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði skulu sett um þroskun fagurskyns, listhneigðar og hagleiks með kennslu í tónmennt, myndmennt og handíðum.``
    Þrátt fyrir þessa lagagrein er mikil brotalöm í framkvæmd.
    Í upphafi þings haustið 1987 bað ég ásamt fleirum um skýrslu um stöðu list- og verkmenntagreina sem ekki leit dagsins ljós á því þingi og var því beiðnin ítrekuð í haust og nú í gær birtist þessi skýrsla hér á borðum þingmanna. Eðlilega hef hvorki ég né aðrir

haft mikinn tíma enn þá til þess að kynna mér skýrsluna en af því að dæma sem ég hef kynnt mér í henni og eins sú vitneskja sem ég hef af tali við marga kennara og skólastjóra og ekki síst við námsstjóra í viðkomandi greinum, þá er í rauninni hraksmánarlegt ástand í kennslu þessara greina í skólum landsins. Því miður. Bæði er nú það að mikið vantar upp á að allir nemendur fái þá kennslu sem gert er ráð fyrir í lögum, mikið er um að aðstöðu til að kenna þessar námsgreinar vanti og fjöldi kennara í þessum námsgreinum, þar sem þær yfirleitt eru kenndar, eru réttindalausir. Allt þetta veldur því að það er ástæða til þess að hafa þungar áhyggjur af framgangi þessara greina í íslenska skólakerfinu og þarf vonandi ekki að lýsa því hér hversu mikilvægar þær eru fyrir íslenskt þjóðfélag.
    Færri og færri velja sér kennslu í þessum greinum að starfi og lagðar hafa verið niður kennaradeildir innan listaskólanna. Þetta á sér auðvitað m.a. skýringu í launum kennara, og því deila þeir náttúrlega með öðrum kennurum, en að auki búa þær greinar sem viðkomandi kennurum er ætlað að kenna við talsvert virðingarleysi innan skólakerfisins. Þetta eru greinar sem ævinlega eru í jaðri stundataflna, nemendur þurfa iðulega að koma aftur í skóla til þess að sækja tíma í þessum greinum, þetta eru aukagreinar sem skipta ekki miklu máli og virðing nemenda fer eftir því. Auk þess eru þetta þegar kemur í efri bekki grunnskóla valgreinar þannig að skilaboðin eru augljós til nemenda að þetta sé eitthvað sem þeir þurfi ekki að leggja mikla stund á.
    Þó eru nú kennarar í þessum greinum oft að reyna að berjast fyrir viðgangi þeirra og sérstaklega verður að geta tónlistarkennara sem margir hverjir halda uppi kóra- og hljómsveitarstarfsemi af miklum myndarbrag. En þeir eiga við ramman reip að draga og er einungis undir þeirra eigin áhuga og þreki komið hvernig til tekst.
    Reglubundnar heimsóknir listamanna hafa verið aflagðar að mestu og um skólasýningar í leikhúsum gildir það sama. Því er ekki furða þó maður álíti að þörf sé á lagasetningu um starfsemi eins og þá sem umrætt frv. gerir ráð fyrir
því þó að ekki sé gott ástand í áðurnefndum greinum, lista- og verkmennt, er þó erfiðara að víkjast undan að bæta um betur þegar lagastoð er fyrir hendi.
    En eins og ég sagði áðan: Áhugi sprettur ekki af engu, hann þarf að vekja og það þarf að byrja strax á því starfi. Það uppeldi á að byrja strax á unga aldri og starfið þarf að vera markvisst.
    Í drögum að aðalnámsskrá grunnskóla segir svo, með leyfi forseta, í kafla um hlutverk og meginmarkmið:
    ,,Kjölfesta hverrar þjóðar er menning hennar. Í menningararfi íslensku þjóðarinnar frá landnámi til samtímans teljast tengsl við landið og hafið umhverfis það, náttúru þess og auðlindir, sögu lands og þjóðar, þjóðtunguna, bókmenntir, verkmenningu, listir, vísindi, lýðræði, kristinn sið, trú og þjóðhætti. Grunnskóli þarf að efla vitund um menningararfleifð þessa og standa

traustan vörð um menningu þjóðarinnar. Mikilvægt er að í skólastarfi sé stuðlað að þátttöku nemenda í framvindu og mótun menningar.``
    Í sama kafla segir líka:
    ,,Til þess að nemendur finni tilgang með námi sínu þurfa að vera skýr tengsl milli þess náms sem fram fer í skólanum og þeirrar reynslu sem þeir fá utan skóla.``
    Nokkuð víða er í þessum drögum að aðalnámsskrá minnst á list- og verkmenningu og skapandi starf og það gildi sem það hefur fyrir einstaklinginn. Allt er þetta góðra gjalda vert ef framkvæmd væri eftir því.
    Flest annað en íslensk saga og menning á greiðan aðgang að íslenskum börnum. Ég hef oft gert hér að umtalsefni barnaefni t.d. í sjónvarpi, en hlutur þess í mótun íslenskra barna er ákaflega mikill. M.a. hef ég borið fram fsp. hér á Alþingi um barnaefni í íslensku sjónvarpi og svör við þeirri fsp. voru ekki beint til þess að vekja manni bjartsýni um framgang íslenskrar menningar. Erlent efni var yfirgnæfandi, teiknimyndir á teiknimyndir ofan, poppþættir með erlendu efni. En sjónvarpið er auðvitað ekki eitt um hituna. Það má nefna blöð, myndabækur og myndablöð með erlendum fígúrum, erlend myndbönd. Eina íslenska myndefnið fyrir börn, sem mér er kunnugt um að sé til á íslensku, er Strumpamyndir með íslensku tali. Er það nú von að börnin hafi áhuga á þessu öllu. Hann er jú vakinn. Efninu er haldið að þeim og svo draga vitgrannir og skammsýnir menn þá ályktun að börnin vilji þetta eitt, á þessu hafi þau áhuga. Það verður að spyrna við fótum og vekja áhuga barna á öðru. Ekki að útiloka hitt, það væri álíka heimskulegt og þröngsýnt og sú einhliða áhersla sem nú er t.d. í sjónvarpi.
    Ég tel mig tala af töluverðri reynslu þegar ég fullyrði að hrifnæmi og skilningur barna á list og menningu eru lítil takmörk sett. Þau hafa mikla innlifunarhæfileika og það er mikill misskilningur að börn þurfi alltaf einhverja sérstaka barnalist eða barnamenningu. Fegurðarskyn og innsæi er þeim ekkert framandi og þau njóta þess að hrífast, tilfinningar dýpka og um leið skilningur á sjálfum sér og öðrum. Þau skilja kannski ekki allt en þau skynja þeim mun frekar. Skilningurinn kemur seinna svo framarlega sem skilyrði eru fyrir hendi.
    Þá sjaldan að listamenn eru fengnir til að koma í skóla til að lesa upp, en meira held ég að það sé ekki nú til dags, eru þakklæti nemenda og hrifningu lítil takmörk sett. Þau mæta sum hver brynjuð, ákveðin í að láta sér leiðast yfir þessu hallæri, t.d. ljóðalestri, en fyrr en varir breytist stemmningin. Og þegar skólastjórar og kennarar kveðja þessa listamenn fylgja oftar en ekki óskir um að þeir gætu komið sem oftast, en ævinlega bera þeir auðvitað við því sama, sömu hindrununum: það vantar peninga, það þarf að taka af því litla fé sem þeir fá til félagsstarfsemi og þar eru margir um hituna.
    Sjálf hef ég líka talsverða reynslu af því að ferðast um landið með leiksýningar. Við fórum yfirleitt í skóla með smákynningu á verkinu, sýndum nemendum

búninga, lékum smáatriði og sungum, ef þannig háttaði til, og töluðum um verkið og höfundinn. Undantekningarlaust mættu svo til allir nemendur á sýningu um kvöldið þó þeir þyrftu því miður að borga. Það var búið að vekja áhugann. Þessar ferðir lögðust því miður af vegna fjárskorts því úthaldi hvers einstaklings er takmörk sett.
    Nemendur hafa stundum fengið að fylgjast með undirbúningi og æfingum á sýningum og það sama gerist, áhuginn vex með hverri æfingu. Og umræður eftir sýningar eru líka vinsælar. Ég hef líka kennt leiklist og framsögn í skólum og sett upp skólasýningar og tugir nemenda taka þátt í slíkri starfsemi að eigin frumkvæði í sínum frítíma og áhuginn er mikill. Og þá láta einmitt skólayfirvöld gjarnan í ljósi þá skoðun að þau vildu að starfsemi af þessu tagi ætti sér fastan sess í skólastarfi og væri ekki undir því komin að nemendur þyrftu að gera það af eigin áhuga utan hefðbundins skólatíma.
    Ég geri mína persónulegu reynslu hér að umtalsefni en þessari reynslu deili ég með mörgum öðrum. Við sem staðið höfum í þessu vitum að enginn vandi er að vekja áhuga og viðhalda honum ef aðstæður leyfa. List og menning er ekki eitthvert leiðindafyrirbæri fyrir fáa útvalda. En oft eru það að lokum einhverjir útvaldir sem njóta, þ.e. þeir sem hafa vegna aðstæðna fengið að
kynnast og njóta og þroska með sér áhuga. En það er hart barist um tíma barna og unglinga og margt sem glepur. Því þarf skólinn að koma miklu sterkar inn, ekki bara til að einstaklingarnir læri fyrir sjálfa sig að njóta hluta heldur ef við ætlum að lifa hér í landi sem sjálfstæð þjóð því eins og sagði í kaflinum sem ég las upp áðan úr námsskránni: Kjölfesta hverrar þjóðar er menning hennar --- menning í víðasta skilningi þess orðs.
    Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa svolítinn kafla úr grg. þar sem ég held að komi gleggst fram þörfin fyrir starfsemi af þessu tagi í skólakerfinu:
    ,,Íslenskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum á nokkrum áratugum, vonandi til hins betra, en er enn í örri breytingu og svo mun verða áfram. En þessar breytingar hafa jafnframt haft ýmislegt það í för með sér sem veikir stoðir sjálfstæðis okkar. Áður erfðist reynsla, menning og tunga frá einni kynslóð til annarrar með ,,eðlilegum`` hætti í starfi og leik. Nú hafa þessi tengsl rofnað vegna breyttra samfélagshátta. Staða heimilis og fjölskyldu hefur veikst og aðrir þættir í uppeldi nýrra kynslóða orðið að sama skapi mikilvægari.``
    Þarna held ég að sé í rauninni að finna kjarna málsins, eins og ég sagði áðan, og sýnir fram á nauðsyn þess að á þessu máli sé tekið.
    Framkvæmd þessa frv. er að sönnu ekki að öllu leyti auðveld. Það skal vel viðurkennt og ekki verður það gert án einhvers tilkostnaðar. En það má ná langt með útsjónarsemi og hagræðingu og samvinnu við stofnanir, einstaklinga og stéttarfélög.
    Hér í grg. lét ég fylgja með nokkur dæmi um hvernig standa mætti að framkvæmd frv., en ítreka

eins og sagt er þar að þetta eru einungis nokkrar hugmyndir til þess að menn geti betur glöggvað sig á því hvað hér er átt við. T.d. er þar í fyrsta lagi talað um að nemendur fari í leikhús og þá flokka ég undir það allt sem þar fer fram, hvort sem leikið er, sungið eða dansað. Það háttar nú þannig til að það eru alltaf nokkrar æfingar undir lok æfingatíma þar sem allt á að vera með eðlilegum hætti, þ.e. eins og ætlast er til að það verði þegar áhorfendur koma, tækniatriði hafa verið útfærð svo sem eins og ljós, búningar, gervi og annað slíkt. Á þessar æfingar er enginn vandi að koma með nemendur og mundi meira að segja vera listamönnunum í sýningunni til góða því að eins og oft er kvartað yfir, þá er einn þáttur sýningarinnar og ekki minnstur sem aldrei er hægt að æfa fyrr en á frumsýningu, þ.e. samskipti listamannanna við áhorfendur. Sama gildir auðvitað um tónleika. Þar eru lokaæfingar þar sem lokaárangur á að hafa náðst. En það þarf ekki endilega að vera alltaf með þeim hætti að það sé einungis lokaárangur sem börn eða unglingar sjá. Þau hafa líka gagn og gaman af því að koma á æfingar og sjá að mikil vinna liggur að baki árangurs hverju sinni.
    Í öðru lagi nefni ég sams konar starfsemi um landið allt, þ.e. að nemendur séu sóttir heim víðs vegar um landið. Það hefur mikið dregið úr slíkum ferðum og stofnanir jafnvel eins og Þjóðleikhús rækja ekki einu sinni lögboðnar skyldur. Vissulega fylgir mikill kostnaður þessum ferðum og er það höfuðástæðan fyrir því að þær hafa lagst af. Einstaklingsframtakið dugir ekki til. Það er auðvitað ódýrara að fara með tónleika af ýmsu tagi eða dagskrár, en með ýmsum ráðum er hægt að draga úr kostnaði, t.d. með því að jafnframt því að troða upp í skólum sé líka leikið, sungið eða spilað eða hvað það nú er fyrir aðra íbúa sveitarfélagsins en nemendur um kvöldið. Þá slærðu tvær flugur í einu höggi og minnkar tilkostnað við hverja sýningu og vantar ekki nema herslumun á að svona ferðir beri sig. Ferðalög, húsaleiga og ekki síst auglýsingar eru mjög dýrar og ef þessi kostnaður dreifist á fleiri sýningar, þá minnkar hann að sama skapi á hverja.
    Eftir þessum sömu nótum er síðan hægt að feta sig niður þennan lista og ég ætla sannarlega ekki að fara að staldra þar við hvert atriði, en ég ætla m.a. að nefna hér atriði nr. 9, vinnustofur úti á landi, þar sem myndlistarmenn og listamenn gætu dvalist um tíma, nemendur fengið að heimsækja þá á vinnustofur og þeir gætu komið í skóla og kynnt sína starfsemi. Það sama gildir auðvitað um fræðimenn sem vinna á ýmsum stofnunum. Það á að vera hægt að undirbúa sýningar sem sérstaklega geta vakið áhuga eða starfsmenn safnsins eiga að vera tilbúnir að taka á móti unglingum og börnum og leiðbeina þeim um safnið hverju sinni. Eins gætu þeir ferðast um og kynnt ýmislegt sem þeir eru að fást við og það er oft mjög auðvelt að tengja það verkefnum eða einhverju því sem börnin eru að fást við í sínu námi. Það er ljóst að það er ódýrara að standa að þessari starfsemi, hvort sem það er með heimsóknum í söfn og aðrar

slíkar stofnanir eða að fá aðra fræðimenn inn í skólana, því að það er auðvitað um miklu færri einstaklinga að ræða sem þurfa að ferðast til og frá og miklu minni kostnaður sem fylgir ferðum þeirra.
    Ég vil líka nefna að það er mjög áríðandi ef af svona yrði að þetta yrðu samþættuð verkefni, t.d. að fræðimaður sé með fyrirlestur um eitthvert ákveðið efni og listamaður lesi úr verkum sem tengjast fyrirlestrinum, t.d. úr þjóðsögum, kvæðum eða fornbókmenntum og tónlist sem tengist viðfangsefninu og fleira í þeim dúr. Það er líka áríðandi að unnið sé í skólanum áfram að þeim
verkefum sem börnum eru kynnt með þessum hætti og það er hægt að gera með alls konar úrvinnslu í verkefnum. Það getur gerst í íslenskukennslu, sögu, líffræði og samfélagsfræði, tungumálakennslu og einnig í list- og verkmenntagreinum. Af nógu er að taka.
    Góð samvinna við lista- og fræðimenn og stofnanir og stéttarfélög annars vegar og skólayfirvalda og hins opinbera hins vegar er nauðsynleg til að vel til takist því að eins og segir í lok grg., með leyfi forseta, að skírskota verður ,,til ábyrgðar allra, einstaklinga, félaga og stofnana á uppeldi nýrrar kynslóðar og varðveislu menningar okkar, tungu og arfleifðar, menningarstarfsemi allri til styrktar, sjálfstæði okkar til varnar og þjóðinni til heilla.``
    Ég óska eftir því að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. menntmn.