Greiðslur úr ríkissjóði umfram heimildir
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Flm. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. 7. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Austurl. fyrir góðar undirtektir við það frv. sem hér er til umræðu. En ég vil líka þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir hans framlag til þessarar umræðu þó að það hafi verið svolítið á öðrum nótum en þetta frv. gaf tilefni til að mínum dómi. Ræða hv. 2. þm. Vestf. var ein samfelld fordæming á því hvernig framkvæmd þessara mála hefur verið --- ekki undanfarnar vikur eða mánuði, missiri eða ár, heldur áratugi. Og ég er þeirrar skoðunar að færi hann í það dómsmál, sem hann talaði um að þyrfti að fara í til þess að fá úr því skorið hvort aukafjárveitingar stæðust stjórnarskrá, hvort sem það væri fyrir almennum dómstóli eða fyrir landsdómi, þá mundi hann tapa því máli.
    Ég hygg að sú venja sem hann gat um sjálfur í ræðu sinni í sambandi við framkvæmd þessara mála sé orðin það rík að það sé rétt, sem hann las upp úr Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf heitinn Jóhannesson, að hún jafnist á við lagaheimild, enda hefur þingið sjálft hvað eftir annað samþykkt þessa framkvæmd meira og minna athugasemdalaust með því að samþykkja fjáraukalögin eftir á. Það sem þetta frv. hins vegar gengur út á er að takmarka þessa framkvæmd, setja um hana reglur og sporna við, setja hömlur við framkvæmd sem hefur verið hömlulaus. Ég hygg að þegar grannt er skoðað, þá stefni þetta frv. í þá átt sem hv. 2. þm. Vesturl. segir að framkvæmdin eigi að vera. Það stefnir að því að girða fyrir misnotkun á valdi sem stjórnarskráin felur Alþingi, að takmarka fjáraustur úr ríkissjóði umfram fjárlagaheimildir og að tryggja atbeina fyrst fjvn. en síðan auðvitað Alþingis sjálfs svo skjótt sem verða má að slíkum afgreiðslum.
    Ég reyndar gat þess í framsöguræðu minni að ég teldi eðlilegt að koma þeirri framtíðarskipan á, þegar þingið verður í stakk búið til þess, að fjárlög verði hér tekin upp tvívegis á hverju ári þannig að á vorþingi áður en þingi er slitið komi allar nýjar fjárbeiðnir sem borist hafa frá því að fjárlög voru afgreidd um áramót til meðferðar þingsins sjálfs og hljóti þar afgreiðslu. Það er raunar í samræmi við það sem hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir gat um og er í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast víða um lönd.
    Hins vegar lít ég svo á að það sé nauðsynlegt eins og sakir standa að setja nú í lög reglur um þessa framkvæmd, ekki vegna einhverra einstakra ráðstafana sem einhverjir fjármálaráðherrar fyrr eða síðar kunna að hafa gripið til heldur vegna þess að það er í samræmi við almenna þróun og umbætur í þessum málum og það ber almenna nauðsyn til þess að um þessi mál séu skýrar og alhliða reglur í lögum.
    Ég las reyndar sjálfur upp þá stjórnarskrárgrein sem hv. 2. þm. Vestf. gerði að umtalsefni sem er á þá lund að ekki megi greiða af hendi fé úr ríkissjóði nema til þess sé heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum. Vissulega er ekki með þessu frv. gert ráð fyrir því að Alþingi tapi eða missi eitthvert vald sem það hefur áður haft samkvæmt stjórnarskrá.

Einmitt þvert á móti er verið að sporna við framkvæmd sem að mörgu leyti hefur verið óeðlileg og ámælisverð þó hún hafi verið látin óátalin, m.a. af Alþingi sjálfu.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þetta. Á dagskrá þessa fundar er annað frv. þessu nátengt sem við sömu flm. höfum flutt og ég mun fjalla nánar um þetta þegar það kemst til umræðu. Ég sakna þess hins vegar að fjmrh. skuli ekki hafa haft aðstöðu til þess að tjá sig um þetta mál þó hann hafi verið hér í þingsalnum áðan, en það er orðið áliðið. Þessi fundur hefur staðið í rúmar fimm klukkustundir og hann er þar að auki á aukaþingdegi, á föstudegi, þannig að það er skiljanlegt að menn geti ekki dvalið hér mjög lengi fram eftir.
    En ég vænti þess að þessari umræðu megi halda áfram þegar 323. mál, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, með síðari breytingum, kemst til umræðu.