Frsm. allshn. (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir nál. á þskj. 855 um till. til þál. um aðgerðir til að koma í veg fyrir innflutning á vörum á fölsuðum upprunaskírteinum, en þessi tillaga var jafnframt flutt á síðasta þingi. Hana flytur Ingi Björn Albertsson.
    Nefndin hefur rætt tillöguna á fundum sínum. Umsögn barst frá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Nefndin er sammála um að afgreiða tillöguna með eftirfarandi breytingu:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er hafi það hlutverk að leita leiða til þess að koma í veg fyrir innflutning á vörum á fölsuðum upprunaskírteinum. Nefndin skili tillögum eigi síðar en 15. okt. 1989.``
    Karl Steinar Guðnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Aðrir nefndarmenn skrifa nafn sitt undir þetta nál.