Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er alveg sjálfsagt að endurtaka enn einu sinni það sem ég hef oft sagt um þetta efni á undanförnum vikum og mánuðuðum þó að ég telji það kannski ekki mjög gagnlegt að verja tímanum með þeim hætti, en ég skal gera það fyrst þess hefur verið óskað. ( GHG: Það er þingræðið.) Já, já. En þingræðið þarf nú ekki endilega að felast í því að menn séu alltaf að bera sömu spurninguna upp aftur og aftur, mánuð eftir mánuð og fá alltaf sömu svörin, heldur felst þingræðið í því að menn móti sameiginlega stefnu og skiptist á skoðunum í þeim efnum og síðan að þingmenn greiði atkvæði eftir samvisku sinni, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. ( GHG: Það gera þeir alltaf.) Það er nú ekki að heyra á ýmsum þingmönnum Sjálfstfl. að þeir hafi gert það hér á sínum tíma. En það er önnur saga.
    Það var alltaf ljóst þegar þessi ríkisstjórn var mynduð að það var af þeim flokkum sem að henni stóðu ekki talinn grundvöllur til þess að breyta í veigamiklum atriðum ákvæðum um söluskatt og það voru ýmis rök fyrir því sem ég flutti hér í þinginu á sínum tíma. Jafnframt var því lýst yfir að þegar virðisaukaskattur yrði tekinn upp, þá yrði rætt um það með hvaða hætti hann yrði. Þar kemur til greina að hafa hann í einu þrepi og líka að hafa hann í fleirum. Það eru á þessu skiptar skoðanir eins og hv. þm. vita.
    Ég hef sagt það hér áður og segi það enn að þó að ýmsir þingmenn telji sjálfsagt að hafa virðisaukaskatt í fleiri þrepum, þá hefur mér þótt skorta á --- virðulegi forseti, er hægt að fá þingmanninn Guðrúnu Agnarsdóttur hér inn í salinn? Hún hefur kannski ekki áhuga á þessum svörum? --- Það er ánægjulegt að enska sjónvarpsstöðin hefur pakkað saman græjunum þannig að við getum haldið umræðunni áfram. En ég vænti þess að hv. þm. hafi áhuga á að heyra svarið við þeirri spurningu. ( GA: Mikinn.) Já, fyrst búið er að skila græjunum sem farið var með upp í ræðustólinn hérna áðan.
    Eins og ég sagði hér áðan, þá hef ég sagt það hér áður og get sagt það hér enn einu sinni að mér hefur fundist nokkuð skorta á að þeir þingmenn, sem leggja ríka áherslu á að virðisaukaskatturinn sé í fleiri en einu þrepi, séu þá reiðubúnir að horfast í augu við það að við það verði framkvæmdin dýrari. Þá þarf að ráða fleira fólk í skattkerfið og Alþingi þarf þá að vera reiðubúið til þess að fjölga um allmarga tugi þeim starfsmönnum sem þarf í skattkerfið til þess að tryggja rétta framkvæmd skattsins í þeirri mynd. Ég hef hins vegar tekið eftir því að það hefur verið mikil gagnrýni á fjölda starfsmanna hjá hinu opinbera, bæði á þessu sviði og öðrum. Nú er það t.d. þannig að eins og þingið hefur gengið frá fjárlögunum er ekki nægilegur fjöldi starfsmanna til þess að undirbúa virðisaukaskattinn svo að vel sé, þannig að það er eitt af því sem við stöndum sameiginlega frammi fyrir að þurfa að ráða bót á. ( SalÞ: Það var óforsjálni af hálfu hæstv. ráðherra.) Nei, það var nú ekki óforsjálni af hálfu hæstv. ráðherra heldur var einfaldlega ekki nægilega skýr og eindreginn vilji þeirra sem stóðu að

samþykkt frv. á sínum tíma að gera þær ráðstafanir sem þurfti og þess vegna m.a. varð að seinka gildistöku skattsins. Hins vegar hefur verið ákveðið að setja á laggirnar nefnd með fulltrúum allra þingflokka til þess að fylgjast með þessum undirbúningi og ræða þau efnisatriði sem hér eru til umræðu. Ég held að allir þingflokkar hafi nú skipað sinn fulltrúa. Mér er að vísu ekki kunnugt um fulltrúa Kvennalistans en ég reikna með að það sé búið að velja hann einnig. En aðrir þingflokkar eru búnir að skipa sinn fulltrúa og nefndin kemur saman til síns fyrsta fundar á morgun.
    Það er rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur að í tengslum við langtímakjarasamning var nefnt að verðlagning og skattlagning matvæla væri einn af þeim þáttum sem þar kæmu til greina að ræða. Ástæðan fyrir því að það mál hefur ekki verið ofarlega á dagskrá undanfarnar vikur er ekki eitthvert áhugaleysi eða slæmur vilji, heldur einfaldlega sú staðreynd, sem ég vænti að þingmanninum sé kunnug, að það voru gerðir skammtímasamningar og þeir renna út áður en árið er á enda. Þess vegna var ekki eðlilegt að taka upp þennan þátt í gerð þeirra samninga. Hins vegar eins og kemur fram í yfirlýsingu sem fylgdi kjarasamningnum sem gerður var við BSRB, þessum tímamótasamningi í þágu kvenna á Íslandi, er skýrt tekið fram að skattamálin eru eitt af þeim fjölmörgu atriðum sem verða rædd í sumar og haust í viðræðum milli ríkisstjórnarinnar og samtaka launafólks og ég vænti þess að fulltrúar þingflokka muni hafa góðar aðstæður til þess að fylgjast með þeirri umræðu.
    Þetta hefur nú svo sem allt verið sagt áður, að vísu ekki þetta með BSRB-samninginn sem tímamótasamning í þágu kvenna, en rétt að árétta það enn á ný að svo sé. ( Gripið fram í: Það hefur verið sagt áður.) Já. Það er rétt. Það hefur verið sagt áður. Ég bið forláts á því að það hefur verið sagt áður, en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Það er mjög merk grein í Þjóðviljanum í dag eftir formann Sjúkraliðafélagsins sem svarar þar hv. þm. Kvennalistans, Þórhildi Þorleifsdóttur, og rekur mjög rækilega hvernig þessir kjarasamningar eru í þágu kvenna. Þar er sett fram sú ósk til forustu Kvennalistans að þær taki nú upp stuðning við þennan kjarasamning í þágu hagsmunabaráttu kvenna.
    Ég vænti þess að málin séu þá enn á ný nokkru ljósari, en er auðvitað reiðubúinn að halda þessum umræðum áfram ef óskað verður. Ég vil að lokum segja það að þetta hagsmunamál garðyrkjubænda sem hér er til umræðu er auðvitað þannig vaxið, eins og ég hef sagt áður og tek undir þau sjónarmið sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson var hér með, að það er eðlilegt að það sé sambærileg skattlagning hjá atvinnugreinum. Það sjónarmið sem ég hef að leiðarljósi varðandi þetta frv. er að ég tel garðyrkjubændur, eins og aðra bændur, eiga að búa við hliðstæð kjör og gilda varðandi landbúnaðarstarfsemi almennt.