Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég verð að biðjast afsökunar á því að ég gleymdi hér fsp. frá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur og hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur ( KP: Og fleirum.) varðandi söluskatt á bókum. Hv. þm. Karvel Pálmason segist hafa borið fram einhverjar fsp. sem ég hef greinilega misst af. Þær voru varðandi? ( KP: Varðandi ósk í ráðuneytinu um niðurfellingu á söluskatti á nudd- og baðvörum.) Já. Enn fremur fsp. frá hv. þm. Karvel Pálmasyni varðandi ósk í ráðuneytinu um söluskatt á nudd- og baðstofum.
    Varðandi söluskatt á skólabókum þá tel ég, eins og ég hef sagt áður, að það sé flóknara og stærra mál en svo að ég sé reiðubúinn að lýsa yfir stuðningi við það frv. sem hér er til afgreiðslu og vona að það svar sé nægilega skýrt.
    Varðandi söluskatt af nudd- og baðstofum og erindi í ráðuneytinu er mér ekki nákvæmlega kunnugt um það. Ég veit þó að það hefur borist erindi varðandi íþróttastöðvar og líkamsræktarstöðvar þar sem bent er á það að ekki sé greiddur söluskattur af starfsemi íþróttafélaga og ýmissi annarri líkamsrækt af því tagi og þar er líka á ferðinni samræmingaratriði, kannski líkt og það sem er hér til umræðu og snertir tiltekna búgrein. Ég hef lýst því yfir við hæstv. heilbrrh. að ég sé reiðubúinn að skoða það hvort æskilegt sé að annar háttur sé hafður á varðandi söluskatt af líkamsræktarstarfsemi almennt séð, svo að tryggt sé að það sé ákveðin samræming þar á milli og að það fari ekki eftir því í hvaða íþróttahús menn fara sér til heilsubótar, hvort menn greiði af því söluskatt eða ekki, en því máli hefur hins vegar ekki verið lokið.