Tekjustofnar sveitarfélaga
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga sem hér liggur fyrir til umræðu hefur þegar fengið mjög ítarlega meðhöndlun í efri deild og á síðasta þingi. Það er auðvitað ekki hægt að ræða þetta frumvarp án þess að komið sé inn á efni þess frumvarps sem hér var rætt áðan. Ég kaus að ræða það ekki sérstaklega og tel ekki ástæðu til að hafa þessa ræðu mjög langa.
    Ég tel að það sem hér er til umræðu sé auðvitað grundvöllurinn fyrir því að verkaskiptingin, sem nú er ákveðin, nái fram að ganga og takist. Að vísu hefðu þurft að vera skýrari ákvæði um skuldaskil í fyrra frumvarpinu og hvernig á að fara með uppgjör á einstökum hlutum. Eins og allir vita er fjárhagur misjafn hjá sveitarfélögum og stærðir þeirra misjafnar og ég held að í þessu frumvarpi sé tekið tillit til þess á margan hátt. Í fljótu bragði virðist það nokkuð vel gert, þó að það hljóti að koma í ljós síðar hvort þetta hefur heppnast vel eða ekki.
    Ég vil vekja athygli á mjög athyglisverðri nýjung um fasteignagjöld í 3. gr. frv. Hækka á fasteignagjöld á landsbyggðinni og virðist það vera með samþykki sveitarstjórnarmanna um allt land. Ég vil ekkert segja um það að öðru leyti en því að það er náttúrlega ekki á gjöld fólksins í landinu bætandi. Ég vil sérstaklega benda á þetta ákvæði sem verður til þess að fasteignagjöld munu hækka á landsbyggðinni. Ég hef heyrt það áður að sveitarstjórnarmenn leggi áherslu á að þeir fái sambærileg fasteignagjöld miðað við sambærilegar eignir og að því leyti til held ég að þetta ákvæði jafni þann aðstöðumun sem hefur verið milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar. Ég vil einnig benda á það í þessu sambandi að væntanlega verður tekið tillit til sömu breytinga í sambandi við eignarskatta, þ.e. að sömu eignarskattar verði greiddir fyrir sambærilegar eignir hér og greiddir eru úti á landi. Þá er ákvæði hér í 4. gr. sem ég hef verið að athuga. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Eigandi greiðir skattinn nema um leigujarðir og leigulóðir sé að ræða.`` Þetta skarast að vísu á við fyrri liðina og er spurning hvort þeir sem eru með leigulóðir, t.d. frá bæjum, eru undanþegnir sköttum af því.
    Ég vil sérstaklega koma að 5. gr. sem er um það hverjir eru undanþegnir fasteignaskatti. Í gömlum lögunum var gert ráð fyrir því að frjáls félög sem rækju félagsheimili til ýmiss konar félagsstarfsemi væri undanþegin þessum sköttum og þá sérstaklega tekið fram að þau sem væru styrkt samkvæmt reglum Félagsheimilasjóðs væru undanþegin fasteignasköttum. Það er ekki í þessum ákvæðum hér og ég tel mikilsvert að það sé lagt til í þessari hv. deild að það verði tekin af öll tvímæli um að frjáls félög sem eiga sín félagsheimili verði áfram undanþegin fasteignagjöldum. Ég veit það að mörg þeirra bera ekki þau miklu gjöld þó að þau geti rekið sín félagsheimili með sæmilegum hætti og því tel ég brýnt að tekin verði af öll tvímæli um þetta. Ég vil nefna sem dæmi að ýmiss konar félög hafa byggt yfir sína starfsemi og reka hana með myndarskap. Þau

hafa verið undanþegin þessum gjöldum en munu greiða mjög há fasteignagjöld í framtíðinni. Það hefur að vísu verið komið til móts við þau í nokkrum atriðum í hv. Ed. en ég held að það væri nokkuð til bóta að taka af tvímæli um þetta. Í 5. gr. stendur: ,,... og húsum sem einvörðungu eru notuð til tómstundaiðju sem viðurkennd eru af hlutaðeigandi sveitarstjórn.`` Þetta er auðvitað mjög teygjanlegt ákvæði og gæti skapað nokkra óvissu. Ég held að það væri betra að taka af öll tvímæli og nota þau gömlu og góðu lagaákvæði sem voru fyrir til þess að þau félög sem hafa ekki þurft að greiða fasteignagjöld af sínum félagsheimilum njóti þess áfram.
    Ég vil líka gagnrýna 7. gr. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Fasteignaskattinum fylgir lögveð í fasteign þeirri, sem hann er lagður á, og skal ásamt dráttarvöxtum í tvö ár frá gjalddaga ganga fyrir öllum öðrum veðkröfum sem á eigninni hvíla.`` Ég held að menn verði að geta treyst því að hafi þeir veðkröfur á 1. veðrétti, 2. o.s.frv., þá standi þær veðkröfur fyrir framan skattakröfur, en nú virðist vera tilhneiging til að láta þær ganga fram fyrir allar aðrar kröfur. Ég tel að fella eigi út þessa 7. gr. og það verði að fylgja venjulegum reglum um veðkröfur í fasteignum.
    Í III. kaflanum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga eru margvísleg ákvæði um tekjur Jöfnunarsjóðsins og ýmiss konar fyrirmæli um það með hvaða hætti þeirra er aflað. Ég vil ekki gera það að umræðuefni sérstaklega en held að það hljóti að koma í ljós við framkvæmd þessara laga hvort um fullnægjandi tekjuöflun er að ræða og með hvaða hætti.
    Í 26. gr. IV. kafla hljóðar 5. mgr. svo, með leyfi forseta:
    ,,Nú kemur í ljós að tekjur sveitarsjóðs hrökkva ekki fyrir útgjöldum og er þá sveitarstjórn heimilt að hækka útsvar frá því sem ákveðið var skv. 1. mgr. um allt að 10%. Á sama hátt getur sveitarstjórn lækkað útsvar um allt að 10%.``
    Ég verð að segja eins og er það væri nú betra að sveitarstjórnir gætu ekki hækkað útgjöldin með þessum hætti. Ég tel að það ætti að binda hámark á útsvar þannig að sveitarstjórnir geti ekki hækkað það en geti hins vegar lækkað það. Þeim verður þar með skylt að reka sín sveitarfélög með þeim hætti sem hagkvæmast gæti orðið og gætu ekki hækkað sínar álögur.
    Ég ætla ekki að ræða þetta nánar en tel að í heild sé þetta frv. til bóta og það verði ábyggilega meiri friður í framtíðinni um skýrari verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Með frv., ef að lögum verður, verður skipan mála ljósari og hver eigi að borga ákveðna þætti í rekstri sveitarfélaga. Það er miklu heilbrigðara og skynsamlegra að sveitarfélögin ráði sínum framkvæmdum sjálf og geti farið út í þær samkvæmt þeim tekjustofnum sem þau hafa. Ég vil því lýsa ánægju minni í heild með þetta frv.