Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. fyrri flm. þess frumvarps sem er til umræðu. Það er harla sérkennilegt að taka þátt í þessari umræðu ásamt virðulegum forseta og fimm stjórnarandstöðuþingmönnum sem hafa eirð í sér til að sitja á þessum fundi sem hefur staðið yfir í alllangan tíma eða allt frá því kl. 2 í dag með stuttu matarhléi. Enn eru eftir á dagskránni átta mál. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm., að það er vítavert virðingarleysi við þingmenn stjórnarandstöðunnar að ætlast til þess að þeir mæli fyrir málum á þessum tíma, ekki síst þegar það er haft í huga, virðulegur forseti, að hæstv. ríkisstjórn hefur þurft á undanförnum dögum að reiða sig á atkvæði stjórnarandstöðuþingmanna til að koma stjórnarfrumvörpum til nefnda. Nú er það svo að rétt áður en sá frestur rann út sem samkvæmt þingsköpum er ætlaður til þess að hægt sé að leggja fram frumvörp og þau fái afgreiðslu lagði ríkisstjórnin fram á hv. Alþingi heilan bunka af frumvörpum sem flestallir vita að fá ekki afgreiðslu nema sum hver. Þessi frumvörp eru þess eðlis að hv. stjórnarþingmenn hafa haft nægan tíma til að kynna sér efni þeirra. Hins vegar hafa stjórnarandstöðuþingmenn ekki haft tækifæri til þess með sama hætti. Þess vegna verða oft langar umræður um stjórnarfrumvörpin, stundum eins og tveggja tíma umræður, jafnvel um frumvörp sem í raun eru aðeins lögð fram til sýningar á yfirstandandi þingi. Síðan mega stjórnarandstöðuþingmenn una því að standa í ræðustól í tómum þingsal. Hæstv. ráðherrar hafa ekki minnsta áhuga á að ræða við stjórnarandstöðuna um margvísleg málefni sem snerta þar á meðal skattamál eins og það frumvarp sem hér er til umræðu.
    Frumvarpið, 310. mál þingsins, er liður í þeirri viðleitni að hlífa fólki við óhóflegum eignarsköttum, einkum þó einstaklingum eins og skýrt og greinilega kom fram í málflutningi hv. fyrri flm. frumvarpsins. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa flutt ýmis önnur frumvörp sem líta má á sem sams konar viðleitni, viðleitni til að hlífa því fólki sem sýnt hefur ráðdeild, sparað sér fjármuni til þess að eignast þak yfir höfuðið.
    Það hlýtur að vera æðisérkennilegt nú, þegar í ljós hefur komið hve mikil eignarskattshækkunin varð sem hæstv. ríkisstjórn beitti sér fyrir um síðustu jól, að hæstv. fjmrh. sér ekki sóma sinn í því að vera viðstaddur umræður um þetta mál og nokkur önnur mál er varða eignar- og tekjuskatta og eru hér á dagskrá og hafa reyndar verið lögð fram sum hver fyrir mörgum vikum.
    Í grg. með þessu frumvarpi er nákvæmlega vikið að því hvert misræmi er á milli eignarskattsgreiðenda eftir því hvar á landinu þeir búa. Grg., sem er mjög vel unnin, á að sjálfsögðu fullt erindi í umræður á Alþingi þar sem hæstv. ríkisstjórn á a.m.k. einn fulltrúa, og þá eðlilega hæstv. fjmrh., viðstaddan við umræðurnar. En virðingarleysi hæstv. ríkisstjórnar við stjórnarandstöðuna er með þeim hætti að

stjórnarandstöðuþingmönnum er ætlað að standa í ræðustól að nóttu til og tala yfir örfáum öðrum stjórnarandstöðuþingmönnum auk hæstv. forseta sem hér situr sjálfsagt eingöngu vegna þess að hann getur ekki hlaupið úr forsetastólnum því þá væri ekki hægt að halda fundi áfram. (Forseti: Forseti tekur fram að hann hlýðir með athygli á mál ræðumanns.) Mér þykir vænt um það, virðulegur forseti, að hæstv. forseti skuli hlýða með athygli á þetta mál sem ég skil þá svo að hæstv. forseti muni koma þeim sjónarmiðum, sem komið hafa fram í þessari ræðu og ræðu hv. þm. sem nýverið lauk máli sínu, til þeirra aðila sem bera ábyrgð á störfum þingsins.
    Ég vil, virðulegur forseti, taka undir efnisatriði þessa frumvarps. Það er kannski ekki aðalatriðið hvernig breyta skuli lögum til að koma til móts við þau sjónarmið sem hér eru til umræðu. Aðalatriðið er að með lagabreytingum verði skattaáþján vikið af því fólki sem eftir síðustu skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar þarf að borga verulegar upphæðir, mjög ósanngjarnar upphæðir í eignarskatta. Þetta vildi ég, virðulegur forseti, láta koma fram við 1. umr. þessa máls. Í mínu máli felst ekki að ég taki afstöðu til þess hvort nota eigi þá aðferð sem hér er lögð til eða hvort finna megi aðrar aðferðir betri. Eitt er ljóst og það er að hæstv. ríkisstjórn verður að endurskoða lög um tekjuskatt og eignarskatt með tilliti til þeirra viðhorfa sem fram koma í þessu frumvarpi.