Hlutafélag um Sementsverksmiðju ríkisins
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegur forseti. Það kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. að það frv. sem hann mælir hér fyrir er í reynd samið á vegum iðnrn. Það er ekkert launungarmál að þetta frv. ásamt frv. um að breyta ríkisprentsmiðjunni Gutenberg í hlutafélag var lagt fram af hálfu iðnrh., þ.e. þeim sem hér stendur, til þingflokka stjórnarflokkanna með beiðni um að athugað skyldi hvort flytja mætti sem stjfrv. Eins og þessari hv. þingdeild er kunnugt kom fram fyrir ekki löngu sem 410. mál þingsins frv. til l. um að breyta ríkisprentsmiðjunni Gutenberg í hlutafélag. Þegar það mál var rætt bar á góma nokkuð af því sem hv. 1. þm. Reykv. hreyfir hér enn með spurningum sínum.
    Það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykv. að þeir annmarkar sem voru á frv. sem áður hafa verið samin um þetta efni hafa að mestu verið sniðnir af því frv. sem hér er nú sýnt. Það var frumskilyrði fyrir því að ná samkomulagi um breytingar á rekstrarformi Sementsverksmiðjunnar að hið nýja fyrirtæki ætti lögheimili og varnarþing á Akranesi, að í upphafi ætti ríkið öll hlutabréfin í félaginu og í þriðja lagi að félaginu væri frjálst að taka þátt í annarri atvinnustarfsemi en sementsframleiðslu og loks að ekki mætti selja bréfin nema með samþykki þingsins.
    Þetta eru atriði sem þarf að virða og ég veit að hv. 1. þm. Reykv. veit af reynslunni að það er ekki auðhlaupið að því að ná samkomulagi um þetta mál, það fékk hann að reyna í fyrri stjórn þar sem honum tókst ekki að ná samkomulagi um frv. um þetta efni.
    Ég sé ekki á þessu stigi máls ástæðu til að lýsa neinu yfir um stuðning eða andstöðu við þetta mál. Ég hef lýst aðdraganda þess að frv. hefur ekki komið fram sem stjfrv. Það er ekki af því að Alþfl. hafi hafnað því sem stjfrv. heldur hafa það verið aðrir flokkar sem að stjórninni standa. Það má vera að það verði ekki auðhlaupið að því nú fremur en fyrr að ná um þetta samkomulagi. Ég tek það fram að ég tel fyrst og fremst vera hagkvæmnismál hvernig best sé að haga þessum rekstri.
    Eins og kom fram í máli hv. 1. þm. Reykv. gegnir hér nokkuð öðru máli en um ríkisprentsmiðjuna. Ríkisprentsmiðjan er að sínu leyti í samkeppni við margar aðrar prentsmiðjur á þeim markaði sem hér er fyrir prentverk. Hins vegar er Sementsverksmiðjan með mikla sérstöðu. Hún nýtur sem næst einkasöluaðstöðu vegna fjarlægðarverndar og aðgangs að hráefni og í skjóli sérstakra laga starfar hún hér ein að þessari framleiðslu. Þess vegna orkar breyting á rekstrarformi hennar fremur tvímælis, og þess vegna mikil ástæða til að gaumgæfa málið vandlega. Ég held að það sé affarasælast að þetta mál fái þingmeðferð, því verði vísað til nefndar og sent til umsagnar allra þeirra sem málið varðar og fái þar eftir eðlilega þingmeðferð.
    Út af því sem kom fram í lok ræðu hv. 1. þm. Reykv. um þörfina fyrir að efla hér á landi hlutabréfamarkað og að sala á hlutabréfum í ríkiseign gæti stuðlað að því að slíkur markaður myndaðist, þá vil ég taka fram að ég tel það framfaramál að efla hér

hlutabréfaviðskipti. Það er unnið að þeim málum m.a. í framhaldi af þeirri skýrslu sem hv. 1. þm. Reykv. nefndi að samin hefði verið af enska fyrirtækinu Enskilda Securities á vegum Seðlabankans og Iðnþróunarsjóðs. Það er ljóst að það sem mestu ræður um það hvort hér kemst á fót hlutabréfamarkaður og hér eflast viðskipti með hlutabréf er skattmeðferð hlutabréfa og arðs af hlutabréfum í samanburði við önnur form sparnaðar. Þær reglur þarf að samræma, en það er einmitt á verkefnaskrá þessarar stjórnar að samræma skattlagningu af hvers konar eignatekjum. Það er mikilvægur liður í málinu, en að því er lýtur að öðrum þáttum málsins, um skipulag viðskiptanna, má líka segja að frv. sem nýlega varð að lögum um verðbréfasjóði og verðbréfaviðskipti leggi á vissan hátt grundvöll að hlutabréfaviðskiptum einnig, þar á meðal starfsemi hlutabréfasjóða. Hér er í gangi þróun sem þessi ríkisstjórn hefur sannarlega lagt sitt af mörkum til að megi halda áfram jafnt og þétt landinu til farsældar.