Starfslaunasjóður leikhúslistafólks
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um starfslaunasjóð leikhúslistafólks. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Málmfríður Sigurðardóttir.
    Í 1. gr. frv. er kveðið á um að stofnaður skuli sjóður er nefnist Starfslaunasjóður leikhúslistafólks. Hlutur sjóðsins er að stuðla að nýsköpun og eflingu íslenskrar leiklistar með því að gera leikhúslistafólki kleift að helga sig eingöngu rannsóknum, skriftum og öðru sem lýtur að undirbúningi leiksýninga áður en til uppsetningar kemur, hvort heldur er einum sér eða í samvinnu við aðra. Stofnfé sjóðsins skal vera 15 meðalárslaun rektors við Háskóla Íslands og greiðast úr ríkissjóði.
    Það er vert að taka fram að sjóður af þessu tagi á sér þegar fordæmi því að í hálfan annanáratug hefur verið við lýði launasjóður rithöfunda sem var samþykktur með lögum árið 1975 og árið 1987 var stofnaður vísir að starfslaunasjóði myndlistamanna og frv. um starfslaunasjóð tónskálda hefur einu sinni verið lagt fyrir Alþingi.
    Þetta er einfalt frv. og þarfnast ekki mikilla útskýringa umfram þann þátt í leikhússtarfsemi sem útskýrður er í greinargerð, þ.e. sú undirbúningsvinna sem í rauninni er nauðsynleg fyrir hverja leiksýningu, að fleiri en nú er fái aðstöðu til þess að vinna þessa vinnu og ekki endilega alltaf í tengslum við sýningar sem setja á upp í beinu framhaldi. Það er mjög líklegt að íslensk leiklist súpi nú þegar seyðið af því hve fáir geta í rauninni sinnt þessu starfi eins og nauðsyn krefur. Það kemur t.d. fram í greinargerð hversu margir félagar eru í Félagi ísl. leikara og Félagi leikstjóra og hversu fáir það eru sem njóta einhvers konar starfsöryggis eða launa. Það má t.d. nefna að úr Félagi leikstjóra eru það einungis tveir sem í raun er gefinn kostur á að vinna við þessa starfsgrein. Allir aðrir, þ.e. um það bil 66 félagar, eru að þessu í mjög stopulu starfi og eftir því hvað til fellur hverju sinni og þá sjaldnast að eigin frumkvæði vegna þess að í þeim stofnunum þar sem fjármumir eru fyrir hendi til að setja upp leiksýningar eru mjög fáir sem halda um valdataumana og úthluta verkefnum oftar en ekki að fólki óspurðu og útdeila peningum til verkefna þannig að listamennirnir sjálfir geta afskaplega lítið haft um það að segja hvað þeir vinna, fyrir hverja og hvenær. Vanalega er það þá þannig að þegar þeir taka til starfa hefur verkefnið þegar verið ákveðið og þá verður að ýta því úr vör sem fyrst og lítill tími gefst til raunverulegs undirbúnings.
    Miðstýring er orð sem við kvennalistakonur höfum ekki lýst miklum stuðningi við og viljum raunar valddreifingu þar sem henni verður með nokkru móti við komið. Kannski er miðstýring hvergi eins óæskileg og í allri listastarfsemi. En svo háttar því miður til hér á landi að leiklistarmálum er afskaplega miðstýrt og fáir sem þar hafa nokkuð um að segja.
    Það skiptir oft sköpum fyrir hverja sýningu fyrir sig hvernig staðið er að undirbúningi hennar og hversu mikill tími hefur þar gefist til alls konar

undirbúnings og forvinnu og sá undirbúningur getur verið mjög margháttaður. Það þarf iðulega að kynna sér sögulegan bakgrunn, menningarlegan og trúarbrögð, sögu, lífsháttu fólks, jafnvel feril eldri leikrita innan lands og utan. Þannig eru verkefnin óþrjótandi sem í rauninni þarf að huga að áður en ýtt er úr vör, en jafnnauðsynlegt er líka að aðstaða geti skapast til leitar og nýsköpunar sem er ekki endilega ætlað að nýtast beint í einni ákveðinni sýningu en til þess gefst ákaflega lítill kostur hér á landi. Eins og ég sagði áðan held ég að íslensk leiklist sé þegar að súpa seyðið af því ástandi og er því miður að fá á sig æ meira mark framleiðslu og afþreyingar fremur en skapandi, leitandi listar.
    Það hefur samt verið tekin sú ákvörðun, m.a. hér á Alþingi, að hér á landi skuli einhvers konar leiklist viðhöfð, en kannski ekki fylgt eftir að sama skapi hvernig því skuli framfylgt og litlir fjármunir til umráða nema innan stofnana sem eru ákaflega bundnar í lagaviðjar og lítið svigrúm þar eins og ég sagði nema fyrir þá sem eru á valdastólum hverju sinni.
    Menn hafa núna áhyggjur af húsnæði Þjóðleikhússins og ekki ætla ég að draga úr því að þar þurfi mikilla viðgerða við, en hitt má ekki gleymast að það skiptir þó sköpum hvað fram fer innan veggja þessara stofnana og ef raða þarf í forgangsröð hygg ég að starfið innan veggjanna sé meira áríðandi en byggingin sjálf þó að það sé ljóst að ef byggingin hrynur verður lítið um starfsemina. Að sama skapi og menn hafa núna áhyggjur af útliti og ástandi Þjóðleikhúss held ég að það sé líka ástæða til að hafa áhyggjur af innra ástandi. Því hefur verið slegið upp í blöðum undanfarið hvernig aðsókn þar hefur minnkað, án þess að ég vilji gera aðsóknartölur að einhverjum endanlegum mælikvarða á árangur leikhúss. Þá er ljóst að það er ekki bara í Þjóðleikhúsi heldur víðar við vanda að glíma. Leiklistin er í aukinni samkeppni við aðra fjölmiðla og afþreyingu sem því miður, eins og ég sagði áðan, leikhús flokkast of oft undir. Sjálf hneigist ég til að halda að orsaka sé líka að leita í árangri og því hvernig staðið er að vinnu í þessum stofnunum, hversu mjög hún
gengur eftir venjubundnum og hefðbundnum leiðum þar sem listamennirnir eru oftar en ekki settir í nokkurs konar framleiðsluhlutverk.
    Annað er að í íslenskum menningararfi, í sögu okkar og bókmenntum af ýmsu tagi eigum við óþrjótandi sjóði og uppsprettu viðfangsefna sem því miður hefur allt of lítið verið sinnt. Þó hefur það oftar en ekki sýnt sig að þegar efniviður hefur verið sóttur í innlendan menningararf hafa áheyrendur kunnað vel að meta það og greinilegt að þjóðin sækir í slíkt efni. Það er ekki nokkur vafi á að ef nokkrum einstaklingum á ári gæfist kostur á að vinna að ýmiss konar undirbúningi og rannsóknum, skriftum, formleit, tilraunum, efnisleit í friði án þess að þurfa að gera það í stopulum frístundum mundi fljótlega sjást af því mikill árangur bæði í innra starfi stofnana og leiklistarstarfsemi utan stofnana og í getu listamanna

og í sýningum eða dagskrám sem af því starfi mundu spretta. Það eru allt of margar hugmyndir sem liggja óbættar hjá garði sem mundu líta dagsins ljós ef svo færi að einhverjir fengju þessa aðstöðu stuttan tíma hverju sinni.
    Af 285 félögum í Félagi ísl. leikara eru einungis 73 sem eru fastráðnir við leikhússtofnanir og þá eru innifaldir leikarar, söngvarar, dansarar, leikmynda- og búningahönnuðir. Það er e.t.v. álíka fjöldi sem starfar tímabundið eða verkefnabundið við þessar sömu stofnanir eða utan þeirra að verkefnum sem til falla hverju sinni, en stór hluti félagsmanna fær aldrei aðstöðu til nokkurra starfa án þess að í rauninni nokkurn tíma hafi fengist úr því skorið að það fólk sé óhæft til starfa heldur er eftirspurnin ekki eins mikil og framboð.
    Fyrir nokkrum árum var stofnaður Leiklistarskóli Íslands og nú stendur fyrir dyrum líklega listaháskóli af einhverju tagi án þess að það sé komið endanlega fram í dagsljósið hvernig þeim skóla verði háttað. En það er vert að geta þess að kostnaður hins opinbera við hvern nemanda í Leiklistarskóla Íslands mun vera einn sá hæsti sem um getur í íslensku menntakerfi svo að það er harla illa með þá peninga farið ef jafnvel helmingur úr hverjum árgangi dæmist utan garðs áður en hann fær nokkru sinni að sýna hvað í honum býr og svo er um fjöldamarga aðra úr öðrum stéttum innan leikhússins. Þar að auki má líka geta þess um það fólk sem hefur af leiklist fulla vinnu, hvort sem það er fastráðið eða er svo eftirsótt til starfa að það hefur fulla atvinnu af þessu þó lausráðið sé, að ég hygg að margt af því mundi kjósa að geta einstöku sinnum fengið þann frið sem til þarf til íhygli sem er undirstaða sköpunar því að hún gerist ekki í flýti eða óróa þeim sem einkennir störf allra þeirra sem þurfa ekki bara að sinna einu starfi heldur tveimur og e.t.v. fleiri á hverjum degi.
    Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri í þetta sinn. Eins og ég sagði er þetta frv. einfalt og skýrir sig að mestu leyti sjálft. Ég vek einungis athygli á því að þarna er samt gert ráð fyrir að fólk þurfi á einhvern hátt að hafa unnið til þess að fá starfslaun af því tagi sem um er rætt því að menn þurfa að vera fullgildir meðlimir í öðru hvoru félaganna, Félagi ísl. leikara eða Félagi leikstjóra á Íslandi, og hafa unnið við tiltekinn fjölda sýninga í svokölluðum viðurkenndum leikhúsum, en það er þegar hefð fyrir því hvað flokkast sem viðurkennd leikhús. Einnig er ákvæði um að sá sem hljóti starfslaun skuli ekki gegna föstu starfi á meðan hann nýtur þeirra. Það er einungis sanngirniskrafa að þeir sem, eins og sumir orða það, sitja þegar við kjötkatlana geti ekki bætt á sig án þess að þurfa að láta eitthvað í staðinn.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.