Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Fyrir rúmum mánuði eða 22. mars var útbýtt á Alþingi fsp. til utanrrh. um útflutning á ísfiski í gámum frá undirrituðum. Í 31. gr. þingskapa segir til um með hvaða hætti alþingismenn fá svör frá ráðherrum við þeim fyrirspurnum sem fram eru bornar. Mér sýnist að hér sé komið nokkuð langt fram úr þeim tímasetningum sem þar eru tilgreindar og vildi mega mælast til þess við virðulegan forseta að gerð yrði gangskör að því að þessari fsp. yrði svarað.
    Í öðru lagi vildi ég víkja að því við virðulegan forseta hvort ekki yrði þá í leiðinni farið yfir þær aðrar fyrirspurnir sem hafa verið fluttar hér á þingi til þess að það gæfist tími til að fá þeim svarað áður en kemur að lokadögum þings sem oft og tíðum eru mjög erfiðir og þá gjarnan látið sitja á hakanum eitthvað slíkt, en ég teldi því miður farið ef þingmenn fengju ekki fyrirspurnum sínum svarað.