Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það var nú óskað eftir því af málshefjanda hér, hv. 3. þm. Reykv., að það yrði upplýst af forsetum þingsins hvað ylli því að hæstv. ráðherra væri fjarverandi þessa umræðu. Ég var ekkert hissa á því þó beðið væri um slíkar upplýsingar, en þær hafa ekki verið veittar. Það hefur hins vegar komið fram í kvöld, það hefur flogið fyrir að hæstv. ráðherra hafi verið mjög vant við látinn og búinn að binda sig við önnur skyldustörf. Það er auðvitað mjög illa til fundið að þannig standi á þegar hann mælir hér fyrir skýrslu og síðan er samið hér um starfstíma. En mér er tjáð að hæstv. ráðherra hafi verið að gegna brýnum skyldustörfum sem mundu flokkast undir tengsl við vestræna samvinnu. Samtök um vestræna samvinnu voru að kveðja einhvern af ágætum yfirmönnum svokallaðs varnarliðs á Íslandi eða mönnum honum tengdum. Og það er auðvitað orðið dálítið sérkennilegt hlutskipti Alþingis Íslendinga að vera að ræða utanríkismál að hæstv. ráðherranum fjarstöddum við skyldustörf af því tagi. En hver og einn verður að meta það hvað sé brýnt í þeim efnum.
    Mér fannst þetta vera orðið hálfgert feimnismál hér í þessari þingskapaumræðu, en ég hef þetta fyrir satt. En hæstv. ráðherra er nú kominn og ég ætla ekki að tefja hér með því að ræða þetta frekar.
    Vegna ummæla hæstv. forseta um það að ég hafi verið annar tveggja þingmanna sem hafi sérstaklega óskað eftir því að þessi umræða færi ekki fram í gærkvöldi heldur á fundi í dag, þá er það nú málum blandið. Ég ætla ekki að fara að orðlengja það mikið meira, en ég óskaði eftir því hér á dögunum, þegar þessari umræðu var frestað öðru sinni að hún færi fram á eðlilegum starfstíma þingsins eftir ítrekaðar frestanir og ég tók því undir það að mér fyndist eðlilegt að þessi umræða héldi áfram í dag og yrði kvöldfundur í kvöld til þess að ljúka henni og hafði þá ekki hugmynd um það að hæstv. utanrrh. væri vant við látinn. Það lá ekki fyrir þegar þau mál voru rædd.