Sparisjóðir
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Nefndarfundir eru nú alltíðir og harðir þessa síðustu daga og vilja oft rekast á eins og við öll þekkjum og slíkt vinnulag kemur sérstaklega illa niður á fáliðuðum þingflokkum sem eiga aðeins einn fulltrúa í nefnd eða jafnvel engan. Því getur svo farið að ekki takist allt of vel að setja sig inn í allt sem til umfjöllunar er og afgreitt við slíkar aðstæður og þannig fór það nú svo að ég þurfti að skipta mér á milli nefnda hér einn daginn og þá var m.a. það frv., sem hér er til 2. umr., afgreitt að mér fjarstaddri. Þetta segi ég nú ekki til að álasa hv. formanni nefndarinnar né starfsmanni nefndarinnar sem höfðu ekki sérstaka ástæðu til þess að ætla að ég hefði neitt við þá meðferð eða afgreiðslu að athuga eða mundi þvælast fyrir afgreiðslu málsins enda er það nú hér í seinni deild. En ég hefði reyndar kosið meiri tíma til að kynna mér þetta mál.
    Ég reiknaði með að skila séráliti en hvarf frá því ráði, gafst ekki tími til þess í önnum þessara daga. Það þarf nú heldur ekki að valda neinu hugarangri því í rauninni er ég allsátt við þetta frv. eins og það liggur nú fyrir. Þegar það kom fyrst fram og var til meðferðar í Ed. voru á því augljósir gallar og fyrir séð að það vinnulag sem boðað var um ákvörðun vaxta var í reynd gjörsamlega óframkvæmanlegt á smærri stöðum og víða úti á landi vegna aðstæðna í samgöngum og öðru. Þetta kom skýrt fram í umsögn Sambands íslenskra sparisjóða og það hafa menn staðfest sem eru kunnugir starfsemi sparisjóða úti um landið.
    Sú breyting, sem gerð var í hv. Ed. hvað þetta atriði varðar og kemur fram í 6. gr. frv., staðfestir aðeins að því er ég best veit það vinnulag sem nú er ríkjandi í reynd og sem ég held að sé það eina raunhæfa og sem ég get ekki séð neitt athugavert við.
    Í frv. eru svo lagðar til breytingar á stjórnarkjöri sem eru nauðsynlegar vegna breytts fyrirkomulags í sveitarfélögum og veit ég ekki til þess að neinn ágreiningur sé um þau atriði, en sömuleiðis er þarna ákvæði að finna sem á að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra sem er sams konar ákvæði og í frv. um viðskiptabanka sem var hér næst á undan til umræðu. Á það hefur verið bent að það geti verið meiri vandkvæðum bundið í fámennum byggðarlögum að uppfylla þetta ákvæði og vissulega skal undir það tekið. Engu að síður er þetta nauðsynlegt markmið, þ.e. að reyna af fremsta megni að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, sem e.t.v. er einmitt enn frekari hætta á í fámennum byggðarlögum og þá jafnframt enn þá meiri hætta á slæmum afleiðingum slíkra árekstra. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að láta á þetta reyna og styð því þetta atriði frv.
    Að öðru leyti er ég vanbúin að fjalla frekar um einstakar greinar þessa frv. og þótt ég lýsi mig jákvæða gagnvart því og þeim greinum þess sem ég hef þegar lýst, þá finnst mér ég ekki hafa fengið nægilegt ráðrúm til að átta mig á öllum atriðum þess og afleiðingum þeirra í framkvæmd. Þá vil ég sérstaklega nefna 9. gr. sem mér fannst ekki vera

fullrædd áður en þetta frv. var afgreitt frá nefndinni. Og því held ég að rétt sé að sitja hjá við afgreiðslu frv. í heild.