Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Snjallar stökur hafa löngum yljað Íslendingum og ein slík á vel við á þessum degi. Hún er sótt í sjóð Kristjáns frá Djúpalæk og hljóðar svo:
Þó að andi Kári kalt
og krýni landið fönnum
þér mun standa þúsundfalt
þyngri vandi af mönnum.
    Ekki veit ég hvenær skáldið orti svo, en nú hitta þessi orð í mark þegar landið okkar er í greipum kuldans og mannlífið í fjötrum stjórnvaldsaðgerða.
    En þótt vor náttúrunnar láti á sér standa lætur almanakið ekki að sér hæða, og nú er runninn upp eldhúsdagur á Alþingi, tími tiltektar á heimili stjórnmálanna.
    Hugmyndir margra um störf Alþingis mótast vissulega af þeirri mynd sem þeim berst gegnum fjölmiðlana. Sú mynd sýnir því miður fyrst og fremst naggandi rifrildisseggi, en minna fer fyrir fréttum af málefnalegum umræðum sem oft eiga sér þó stað sem betur fer.
    Þingmenn stjórnarandstöðu sæta iðulega því ámæli að hafa helst ekkert til málanna að leggja annað en vammir og skammir um ríkisstjórnina. Minna heyrist um virðingarleysi hennar, þ.e. ríkisstjórnarinnar, gagnvart málflutningi þingmanna í stjórnarandstöðu sem oft er með endemum.
    Þingmenn í stjórnarandstöðu flytja fjölda góðra mála sem stjórnarflokkarnir nenna ekki að kynna sér né ræða og ýta til hliðar í nefndum þar sem frumvörp ríkisstjórnarinnar hafa allan forgang. Ég þori að fullyrða að ráðherrar hafa ekki hugmynd um efni flestra okkar tillagna, enda þarf mikla eftirgangsmuni til að fá þá til að vera við umræður um annað en eigin mál. Og eftir höfðinu dansa limirnir.
    Við leggjum mikla vinnu í undirbúning þingmála sem okkur finnst miklu varða en fáum ekki umræður né afgreiðslu svo sem eðlilegt væri. Áherslumál framkvæmdarvaldsins eru látin sitja fyrir.
    Nýlega áttum við nokkrir þingmenn ekki annarra kosta völ til að koma málum okkar til nefnda en að mæla fyrir þeim á næturfundi þar sem ekki voru aðrir viðstaddir en við sjálf sem áttum þar erindi að rækja. Ráðherrar viðkomandi málaflokka fengu sinn nætursvefn ómældan.
    Við kvennalistakonur áttum þrjú mál á þeirri dagskrá. Eitt þeirra varðaði réttindi og hag þeirra einstaklinga sem annast aldraða eða öryrkja í heimahúsum. Annað var um afnám takmörkunar á kosningarrétti íslenskra ríkisborgara sem dveljast erlendis. Hið þriðja var um afnám ,,ekknaskattsins`` svokallaða, svo og um heimild til einstæðra foreldra til að nýta ónotaðan persónuafslátt barna sinna.
    Þessi mál og mörg fleiri höfum við unnið af kostgæfni og hefðum viljað ræða þau við ráðherra viðkomandi málaflokka. Sérstaklega hefði ég viljað eiga orðastað við hæstv. fjmrh. um þá fáránlegu afleiðingu nýlegra breytinga á lögum um eignarskatt að við fráfall annars hjóna getur eftirlifandi maki

orðið að greiða meira en tvöfalt hærri skatta af sömu eign. Það eru kaldranalegar kveðjur frá ríkisvaldinu til þeirra sem um sárt eiga að binda vegna ástvinamissis.
    Ég hefði líka viljað heyra það af vörum hæstv. fjmrh. hvort það sé að hans mati í anda jafnréttis og félagshyggju að einstætt foreldri getur ekki nýtt ónotaðan persónuafslátt afkomanda sem hjá því býr og greiðir þar með hærri skatt en maður með sömu tekjur og aðrar aðstæður sambærilegar en getur hins vegar nýtt ónotaðan persónuafslátt maka síns. En þetta mál komst ekki til umræðu fyrr en klukkan var tekin að halla í þrjú að nóttu og allir ráðherrar löngu farnir að sofa, áhugalausir um tillögur einhverra þingmanna sem þar að auki eru í stjórnarandstöðu.
    Þannig er nú lýðræðið á höfuðbóli stjórnmálanna.
    Freistandi er að nota þessar örfáu mínútur til að tíunda fleiri ósagðar fréttir af störfum Alþingis og rekja ýmis mál okkar kvennalistakvenna sem flest varða bætt kjör, menntun, umönnun og uppeldi og úrbætur í umhverfismálum.
    Gaman væri að segja ykkur, hlustendur góðir, frá hugmyndum okkar um eflingu grunnskólans, tillögum um aukinn þátt listmenningar í skólum landsins, um heimilisrekstrarbrautir í framhaldsskólum, um leyfi frá störfum vegna umönnunar barna, um valddreifingu og virkara lýðræði, að ekki sé minnst á þann málaflokk sem er lífsspursmál allra heimsins barna, umhverfismálin, sem við kvennalistakonur höfum mjög látið okkur varða.
    En hversu mjög sem mig langar að beina tiltekt eldhúsdagsins að eigin skúffum verður ekki hjá því komist að skurka lítillega í skápum ríkisstjórnarinnar, óvinsælustu ríkisstjórnar í ómunatíð. Þær óvinsældir á hún skilið fyrir að hlaða óréttlátum sköttum á herðar launafólks í fjötrum, fyrir að deila og drottna yfir atvinnurekstri í öngstræti vaxtakreppunnar, fyrir tréhestaviðhorf í hvalamálum og herveldasamskiptum og ekki síst fyrir að eiga stærstan þátt í óvissu og erfiðleikum þeirra sem nú líða fyrir klúður í
samningaþófi ríkis og ríkisstarfsmanna.
    Reyndar er einfaldast að taka undir með ritstjóra Alþýðublaðsins sem segir í leiðara sínum 31. mars sl.:
    ,,Það þarf að jafna lífskjörin í landinu. Stuðningsfólk þessarar ríkisstjórnar kærir sig ekkert um að heilsugæsla sé dregin saman og sjúku fólki vísað út í buskann. Það vill líka að það sé hlúð að börnunum með margfalt betri aðbúnaði á uppeldisstofnunum og að heimili séu ekki leyst upp vegna óhóflegrar vinnu. Atvinnan í dreifbýlinu og byggðaröskunin ættu sömuleiðis að vera á dagskrá vinstri stjórnar.``
    Þetta eru ekki orð þingmanns í stjórnarandstöðu heldur leiðarahöfundar Alþýðublaðsins. Og hann endar pistil sinn á þessa leið:
    ,,Ráðherrar góðir. Dragið ykkur út úr ráðuneytunum og bankið upp á hjá fólkinu í landinu.``
    Mál málanna í dag er þó líklega húsbréfamálið. Afstaða Kvennalistans í því máli hefur mjög verið til umfjöllunar síðustu klukkustundir og er reyndar óljóst enn til hvers hún muni leiða.

    Ekki er ólíklegt að einhver hugsi sem svo, hvers vegna í ósköpunum kvennalistakonur hafi nú ekki notað þetta tækifæri til að klekkja á ómögulegri ríkisstjórn, leyft henni að engjast í eigin snöru og jafnvel enda þar sína ævidaga.
    En þannig horfir málið einfaldlega ekki við okkur kvennalistakonum. Við höfum frá upphafi verið jákvæðar gagnvart hugmyndinni um húsbréfakerfi með ákveðnum fyrirvörum við ýmsa þætti þess. Fullyrðingar sérfræðinga um áhrif slíks kerfis á íbúðaverð, lánamarkað og efnahagskerfið í heild stangast algjörlega á og er lítið á þeim að græða. Á því verður tæpast breyting á næstu vikum. Eitt er þó deginum ljósara, og þarf ekki álit sérfræðinga til, að eftir sem áður verður stór hópur fólks sem ekki ræður við þau kjör sem bjóðast til húsnæðiskaupa. Það er hagur þessa fólks sem við berum fyrir brjósti.
    Við höfum frá upphafi lagt áherslu á nauðsyn þess að taka á húsnæðiskerfinu í heild sinni og þá fyrst og fremst að efla og bæta félagslega íbúðakerfið, bæði fyrir þá sem vilja leigja og kaupa, jafnframt því sem ráðist yrði í fyrirhugaða breytingu á almenna kerfinu. Við höfum því gert kröfur til þess að tekið verði á þessum þætti húsnæðiskerfisins nú þegar og sérstök áhersla lögð á aukningu leiguhúsnæðis og stuðning við leigjendur.
    Í öðru lagi viljum við tryggingu fyrir auknu fjármagni til félagslegra íbúða á næstu árum og sem fyrsta skref að ríkisstjórnin tryggi a.m.k. 600 millj. kr. aukningu úr ríkissjóði á næsta ári.
    Í þriðja lagi viljum við fá yfirlýsingu um það að hækkun á vöxtum lána frá Byggingarsjóði ríkisins verði ekki afturvirk svo að ekki verði enn einu sinni komið aftan að þeim sem þegar hafa fengið lán og gert sínar áætlanir fram í tímann.
    Fréttamaður spurði mig í morgun: Var þetta það lengsta sem þið gátuð teygt ykkur til liðs við ríkisstjórnina? Í spurningu hans fólst reginmisskilningur. Við erum ekki að teygja okkur til liðs við ríkisstjórnina. Við erum að teygja okkur til liðs við fólkið sem mest er út undan í húsnæðiskerfinu. Ef valið stendur um það að kippa fótum undan einni ríkisstjórn eða bæta möguleika fólks til öryggis í húsnæðismálum, þá hljótum við að velja það síðarnefnda. Málefnin skipta meiru en persónur, völd og eiginhagsmunir. Þannig höfum við unnið og þannig munum við vinna.
    Ég þakka þeim sem hlýddu og óska landsmönnum gleðilegs sumars að loknum löngum vetri.