Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Á eldhúsdegi er vani að stjórnarandstaðan ráðist á ríkisstjórnina og tali um hvað henni hafi mistekist hrapallega við stjórn landsmála, réttast væri að hún segði af sér og hleypti öðrum að sem hafa lausnir á aðkallandi vandamálum. Stjórnarliðar hins vegar hæla sjálfum sér í hástert og benda á hvað ytri aðstæður séu sérlega erfiðar og hvað þeir tóku við slæmu búi frá fyrri stjórn. Þetta hefur einkennt umræðuna á eldhúsdegi og þessi eldhúsdagur verður eflaust ekkert frábrugðinn.
    Borgfl. kom ekki inn í íslensk stjórnmál til þess eins að gagnrýna og þykjast hafa ráð undir rifi hverju. Hann hefur ekki starfað þannig og mun ekki tileinka sér þau vinnubrögð í framtíðinni heldur leitast við að vinna á málefnalegan hátt með hag landsmanna allra að leiðarljósi. Leggur Borgfl. áherslu á að brotist sé út úr þeim vítahring sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og byggst á skammtímalækningum og stundargróða. Vill Borgfl. þess í stað huga að framtíðarsýn með þarfir komandi kynslóða í huga og leita lausna í íslenskum veruleika sem hentar þessu litla eyríki langt úti í Atlantshafi.
    Það er ekki að tilefnislausu að ég minnist á Borgfl. hér í upphafi ræðu minnar á eldhúsdegi því umræðan um stjórn landsmála hefur hætt að snúast um hag fólksins og þann raunveruleika sem það býr við og tekið meira mið af þörfum einstakra stjórnmálaflokka og hvernig þeir geti komist að kjötkötlunum. Borgfl. var stofnaður til að koma í veg fyrir þessa þróun.
    Ég bið ykkur landsmenn að íhuga hvort ekki er kominn tími til að endurskoða um hvað stjórnmál eigi að snúast og hvernig stjórnmálaflokkar eigi að starfa, sérstaklega nú þegar kreppir að í þjóðfélaginu. Á það að vera frumskylda stjórnarandstöðuflokks að koma ríkisstjórn frá með öllum tiltækum ráðum eða á flokkur í stjórnarandstöðu að taka ábyrga og málefnalega afstöðu með hag fjöldans í huga? Þó svo að sú ákvörðun kunni að sýnast varhugaverð fyrir flokkinn sem heild. Eiga þingmenn að sinna kalli sannfæringarinnar eða vera undir járnhæl flokksforustunnar? Á stjórnmálaflokkur að starfa á þeim grunni að fyrirlíta aðra flokka og skoðanir þess fólks sem að þeim stendur? Eða vera tilbúinn til samstarfs sé vilji beggja aðila að vinna að uppbyggingu og framþróun.
    Að undanförnu hefur Borgfl. legið undir ámæli fyrir vinnubrögð sín og þá afstöðu að greiða fyrir ákveðnum málum hér á Alþingi. Það hefur svo sannarlega ekki verið sársaukalaust að móttaka þær aðdróttanir. Pólitíkin er svo sannarlega miskunnarlaus og er á villigötum þegar svo er komið að það telst brottrekstrarsök að fylgja skoðunum sínum eftir. Ég trúi því ekki að óreyndu að þessi þjóð vilji harðan flokksaga í stjórnmálum og að tekinn sé af þingmönnum sem hún hefur valið til ábyrgðarstarfa sá réttur að hlíta kalli samviskunnar á örlagastundu.
    Borgfl. vill ekki starfa á þeim grunni. Hann stendur þess í stað vörð um rétt einstaklingsins til orða og æðis enda stofnaður gegn ofríki fjórflokkanna sem

skipst hafa á um að fara með völd hér á landi og sem hafa keyrt þjóðfélagið í kaf skuldasöfnunar og óstjórnar.
    Fyrir réttu ári síðan stóð ég hér í þessum sama ræðustóli og talaði til ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Með litlum breytingum gæti ég flutt þá sömu ræðu hér þó svo að ný ríkisstjórn sé komin. Það eina sem er frábrugðið er að nú er kreppa en fyrir ári síðan var þensla og sú ríkisstjórn sem nú situr hefur sett á stóreignaskatt en ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar setti á matarskattinn illræmda. Að öðru leyti eru sömu vandamálin og ráðleysið það sama. Menn skulu ekki lifa í þeim blekkingarheimi að ástandið batni komi Sjálfstfl. til áhrifa. Skyldi einhver vera þeirrar skoðunar þá er hann fljótur að gleyma hvernig umhorfs var við fall fyrri stjórnar.
    Landsmenn góðir. Það virðist vera alveg sama hver hinna fjögurra kerfisflokka fer með völdin, þeir svamla allir í sömu súpunni og geta sig hvergi hreyft af ótta við afturhalds- og hagsmunahópa í þeirra eigin flokkum. Þær raddir gerast nú æ háværari að Borgfl. sé á leið í ríkisstjórn. Auðvitað fagnar Borgfl. því trausti sem þjóðin sýnir flokknum, með aðild hans megi vinna sig út úr aðsteðjandi vandamálum. En ríkisstjórn sem hefur þá stefnu í efnahags- og atvinnumálum að gera helst ekki neitt er ekki sú ríkisstjórn sem Borgfl. kýs að eiga aðild að.
    Það hefur ekki farið fram hjá neinum að við þjóðinni blasa mikil og brýn vandamál sem verður að takast á við og leysa. Að sjálfsögðu finnur Borgfl. til ábyrgðar sem stjórnmálaflokkur og horfir á með hryllingi. Það sem ber hæst eru þau verkföll sem staðið hafa frá aprílbyrjun og það ástand sem fyrirsjáanlegt er að muni skapast ef hagsmunasamtök verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði ákveða að grípa til hliðstæðra aðgerða í næsta mánuði. Hið aukna atvinnuleysi er mikið áhyggjuefni og innreið þess hefur ófyrirséðar afleiðingar. Nú strax er farið að bera á fólksflótta, ekki aðeins frá dreifbýli til þéttbýlis, heldur einnig úr landi. Landsbyggðin hefur orðið verst úti í þeim hremmingum sem dunið hafa yfir og enn meiri byggðaröskun er óhjákvæmileg. Gjaldþrot heimila og fyrirtækja hafa aldrei verið eins stór og eins tíð eins og
undanfarna mánuði og engar horfur eru á að þeim fækki að óbreyttri stjórnarstefnu. Við þetta bætist viðskiptahalli, erlend skuldasöfnun og óðaverðbólga og þrátt fyrir meiri skattheimtu en nokkru sinni fyrr er búist við stórhalla á ríkissjóði.
    Staðan fram undan er því miður afar dökk og kallar á ráðstafanir til stöðvunar þessarar óheillaþróunar. Miðað við það sem á undan hefur gengið er ólíklegt að ríkisstjórnin ranki við sér svo dæmalaus hafa störf hennar verið að undanförnu. Viljann virðist einnig vanta til að taka á málum með þeim hætti sem dugar. Þjóðin situr uppi með enn eina ríkisstjórnina sem er lifandi dauð og sem hefur ekki hugmynd um hvernig hún eigi að bregðast við aðsteðjandi vandamálum. Alvarlegust er staða fyrirtækja í grunnatvinnugreinunum, fiskveiðum og

vinnslu, og svo er komið að ekki þýðir lengur að fella gengið til að rétta stöðu greinanna við. Eigið fé þeirra fyrirtækja er uppurið.
    Í samkeppnisiðnaðinum er hvert fyrirtækið á fætur öðru að leggja upp laupana. Heimilin líða skort og vanskilaskuldir hrannast upp í bankakerfinu. Þjóðargjaldþrot liggur í loftinu.
    Það eina sem ríkisstjórnin hefur til málanna að leggja er nýtt húsnæðiskerfi og stóraukin seðlaprentun sem fylgir því í formi húsbréfa.
    Það er rétt að kosningar leysa ekki þann vanda sem við er að etja en ef ríkisstjórnin ætlar að keyra hér allt í strand þá er betra að fá kosningar strax og freista þess að fá nýja ríkisstjórn sem þorir að taka á málunum. Við það ástand sem nú ríkir verður ekki búið öllu lengur. Það er mikil synd fyrir launþega þessa lands að þær fórnir sem þeir færðu á tímum launafrystingar skyldu ekki vera nýttar af hálfu ríkisstjórnarinnar til viðreisnar efnahags- og atvinnulífinu. Þess í stað mátti fólkið þola tíðar gengisfellingar, stórauknar skattaálögur, óðaverðbólgu og sér sig nú knúið til þess að fara í verkfall til að fá leiðréttingu sinna mála. Ríkisstjórnin hefur brugðist trausti fólksins í landinu og verður að viðurkenna að hún hafi misst tökin á ástandinu og stjórnarstefnan beðið skipbrot.
    Góðir landsmenn. Borgfl. mun hér eftir sem hingað til reynast sverð og skjöldur þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu og brjóstvörn þeirra sem til hans leita. Í því ástandi sem nú hefur skapast í þjóðmálum er þörf á flokki sem rís ofar og er tilbúinn að leiða þá sem vilja berjast gegn matarskattsflokkunum og byggja hér upp heiðvirt þjóðfélag.