Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Þegar ríkisstjórnin tók við völdum á sl. hausti biðu hennar vissulega erfið verkefni. Það lá fyrir og kom engum á óvart. En þau vandamál sem við er að glíma hafa að vísu að ýmsu leyti reynst stærri og úrlausnarefnin erfiðari en menn höfðu reiknað með. Skýrt dæmi um þetta er sú staða fyrirtækja í útflutningsgreinum sem ársreikningar eru að leiða í ljós um þessar mundir. Eins og rauður þráður gengur í gegnum þá reikninga hinn óheyrilegi fjármagnskostnaður og hin miklu umskipti til hins verra sem í þeim efnum urðu á árunum 1986--1988 í kjölfar frjálshyggjunnar, vaxtabrjálæðisins sem þá hafði verið innleitt. En einnig tala niðurstöðutölur ársins 1988, eins og þær birtast í reikningum fyrirtækjanna, í afkomu heimilanna, skýru máli um það stjórnleysi og aðgerðarleysi sem einkenndi ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og var að sigla öllu í strand á haustmánuðum sl. Niðurstaðan sýnir að efnahags- og atvinnulíf landsmanna, sérstaklega útflutningsatvinnuvegirnir, voru komnir nær bjargbrúninni, komnir nær hruni en nokkurn gat órað fyrir. Það verður að takast að snúa af þeirri óheillabraut sem frjálshyggjan hafði leitt inn á. Það verður að takast að byggja upp að nýju og styrkja stöðu fyrirtækjanna, bæta afkomu almennings og tryggja atvinnu.
    Þessarar ríkisstjórnar bíða einnig mikilvæg verkefni á sviði félags- og menningarmála sem íhaldsblandaðar ríkisstjórnir síðustu ára hafa vanrækt. Breyttar áherslur í utanríkis- og friðarmálum þar sem afvopnun á höfunum og barátta fyrir því að bægja frá íslenskri lögsögu kjarnorkuvopnum og kjarnorkuknúnum farartækjum eru stórmál sem gefa þarf forgang á næstunni.
    Á sviði íslensks landbúnaðar hafa skipst á skin og skúrir eins og víða annars staðar. Hið sama má segja um horfurnar fram undan. Þar er sums staðar bjart en annars staðar dekkra. Þær nýju búgreinar sem horft hefur verið til undanfarin ár og vonir stóðu til að skapað gætu störf í stað þeirra sem tapast mundu við samdrátt í hefðbundnum búgreinum hafa mætt miklum erfiðleikum, einkum loðdýraræktin. Segja má að sú grein berjist fyrir lífi sínu þessa mánuðina. Óhagstæð gengisskráning og svimandi hár fjármagnskostnaður leiddu til mikilla erfiðleika þegar við uppbyggingu greinarinnar. Og þegar svo við bættist mikið verðfall framleiðslunnar þarf engan að undra þó að erfiðleikarnir séu miklir. Vonandi duga þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til og eru nú að koma til framkvæmda þessar vikurnar til að afstýra hruni greinarinnar.
    Í hinum hefðbundna búskap eru það einkum erfiðleikar sauðfjárræktarinnar, fallandi gengi kindakjötsins á innanlandsmarkaði og þeir miklu aðlögunarerfiðleikar sem fylgja samdrætti í framleiðslu sem upp úr standa. Haldi sú þróun áfram sem staðið hefur nær óslitið frá árinu 1982, að innanlandsneysla

kindakjöts dragist saman og útflutningsmarkaðir séu jafnóhagstæðir og verið hefur, munu áframhaldandi og miklir erfiðleikar steðja að, ekki aðeins að bændum sem í þessari búgrein starfa, heldur einnig að úrvinnslu- og þjónustuaðilum, þéttbýliskjörnum og heilu landshlutunum. Að mínu mati er því eitthvert albrýnasta hagsmunamál landbúnaðarins og um leið eitt stærsta byggaðmálið að snúa þessari öfugþróun við. Því verkefni verður gefinn forgangur á næstunni.
    Í mjólkurframleiðslunni er staðan betri. Þar hafa markmið búvörusamningsins um aðlögun framleiðslunnar að innanlandsmarkaði í raun þegar tekist og jafnvel horfir það nú til nokkurrar aukningar frekar en hitt. Í landbrn. er hafin margþætt vinna sem miðar að endurskoðun framleiðslustefnunnar, nýjum áherslum við framleiðslustjórn og undirbúningi viðræðna ríkisvaldsins og bændasamtakanna um framhaldið. Þar eru á ferðinni viðamikil verkefni og ætlunin er að tengja þar saman eftir því sem kostur er í eina heildarstefnu markaðsmál og framleiðslustjórnun, landnýtingarsjónarmið, byggðaþáttinn, hagræðingu í greininni og síðast en ekki síst verður þar að horfa til lífskjara bænda, hinna félagslegu aðstæðna í sveitum og strjálbýli og reyna eins og kostur er að fella þessa þætti saman í eina samstiga heild. Tímans vegna rek ég þessa vinnu ekki nánar en segi það að lokum að miklu varðar að þar fáist farsæl niðurstaða.
    Íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir miklum breytingum og er á miklu umrótsskeiði. Slíkar breytingar verða að sjálfsögðu ekki stöðvaðar með valdi. Hitt skiptir miklu máli að þeim sé stýrt með farsælum hætti, að höfð sé stjórn á hraða þeirra og það gleymist ekki að á bak við tölur og prósentur í þessum efnum er lifandi fólk, lífskjör þess og örlög byggðarlaga og heilla landshluta. Kyrrstaða, stöðnun og algjör andstaða við allar breytingar er þó versti kosturinn fyrir íslenskan landbúnað. En það var einmitt boðskapurinn í ræðu Pálma Jónssonar hér áðan. Enginn stöðvar tímans hjól, ekki heldur Pálmi Jónsson, þótt hann sé atgervismaður.
    Ótalmörg önnur viðfangsefni væri fróðlegt að ræða hér en flest verður það að bíða betri tíma. Það sem er mörgum bændum líklega efst í huga þessa stundina er erfiður vetur og kalt vor það sem af er og því er ekki að neita að margir bera kvíðboga fyrir komandi sumri hvað grassprettu og heyfeng snertir. Í
landbrn. er nú til athugunar hvort unnt sé að grípa til ráðstafana til að auka möguleikana á fóðuröflun í sumar með aukinni framleiðslu grasköggla og e.t.v. á fleiri vegu.
    Í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er vikið að því sérstaklega að gera skuli átak til að efla landgræðslu og skógrækt. Í samræmi við þetta tók ríkisstjórnin á dögunum ákvörðun um það að verja nokkurri fjárhæð til þess á sumri komanda að skapa störf fyrir ungt fólk við vinnu á þessu sviði. Ég vil geta þessarar ákvörðunar sérstaklega, ekki vegna þess að hún sé það stór í sniðum að hún skipti sköpum, hvorki í raun um hið stóra átak sem bíður okkar á sviði landgræðslu og

skógræktar, né heldur dugir hún ein og sér til að eyða öllum áhyggjum manna af ótryggum atvinnuhorfum skólafólks í sumar. En hún er hins vegar táknræn fyrir vilja ríkisstjórnarinnar á báðum þessum sviðum og verður vonandi metin sem slík.
    Á vegum samgrn. er nú hafið starf sem lýtur að því að samræma áætlanir á sviði samgöngumála og stærstu mannvirkjagerðar. Starfshópur undir heitinu ,,Samgöngur og fjarskipti á nýrri öld`` mun vinna að þessu mikilvæga verkefni á næstunni. Góðar samgöngur og samgöngubætur eru ekki síður mikilvægar nú og í raun forsenda þess að einstök landsvæði og landið sem heild verði samkeppnisfært hvað atvinnuhætti og lífskjör snertir í hinum tæknivæddu samfélögum framtíðarinnar. Þannig eru framfarir á sviði samgangna og fjarskipta ekki síður mikilvæg grunnforsenda nú, og verða það á næstu árum, heldur en áður var. Engir eiga þar meira undir en einmitt íbúar landsbyggðarinnar. Þess vegna eru og verða samgöngubæturnar hér eftir sem hingað til eitt allra brýnasta baráttuefni á sviði byggðamála.
    Ég lít svo á að eitt af stærstu verkefnum þessarar ríkisstjórnar hljóti óhjákvæmilega að vera að móta nýjar áherslur í byggðamálum. Auðvitað erum við alltaf að fást við byggðamál. Auðvitað eru aðgerðir til að bæta rekstrarstöðu útflutningsatvinnuveganna byggðamál. En það verður jafnframt að taka á hinum félagslegu aðstæðum í dreifbýlinu og skoða samfélög landsbyggðarinnar í heild sinni. Félagsleg þjónusta, verslun, menntunarmöguleikar, menningarlíf og aðrir slíkir þættir mega ekki verða út undan þegar nýjar áherslur í byggðamálum koma til. Það að auka snjómokstur eins og gert var á sl. vetri er vissulega byggðamál. Það að taka skref í átt til jöfnunar á símkostnaði landsmanna eins og gert verður á næstunni er líka byggðamál. Það að færa Skógrækt ríkisins austur á Fljótsdalshérað er byggðamál. En þetta dregur skammt hvert fyrir sig. Hin alvarlega byggðaröskun undanfarinna ára segir okkur að ekkert minna en stórátak, sem tekur á öllum helstu þáttum sem áhrif hafa á byggðajafnvægið, dugar til að snúa straumnum við.
    Sú glíma sem nú stendur yfir gegn byggðaröskuninni er örlagarík. Takist að vinna hana og verði það svo að í byrjun næstu aldar búi vaxandi fjöldi fólks, ekki síst ungs og vel menntaðs, á landsbyggðinni sem sé tilbúið til að grípa þá möguleika sem þar bjóðast þurfum við Íslendingar ekki að kvíða framtíðinni. Þar eru miklir möguleikar fólgnir, þar bíða auðlindir og þar eru aðstæður til mikillar verðmætasköpunar sem orðið getur undirstaða velmegunar og vaxtarbroddur framfara á nýrri öld. Lykilorðið í því sambandi eru bættar samgöngur, betri menntun, skilningur á því að byggðamálin snúast einnig um lífskjör og félagslegar aðstæður, og síðast en ekki síst þarf fólk að vera til staðar til að nýta þá miklu möguleika sem Ísland, landið sjálft, og auðlindirnar í hafinu umhverfis hafa upp á að bjóða. Órofin byggðakeðja hringinn í kringum landið er eina örugga tryggingin fyrir því að þeir miklu möguleikar

glatist ekki.
    Góðar stundir og gleðilegt sumar sem vonandi er á næsta leiti þó að lítið bóli á því enn þá. Ég þakka þeim sem hlýddu.