Lögreglurannsókn hjá búfjáreigendum
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegur forseti. Þegar það barst á öldum ljósvakans að landbrn. ætlaði að hlutast til um að það yrði talið búfé hjá bændum með lögregluvaldi trúðu bændur eða búalið ekki sínum eigin eyrum og trúðu því heldur ekki að dómsmrn. mundi verða við þeirri beiðni þó að hún yrði fram borin. En bréf barst til hreppstjóra sem er á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Að fyrirlagi dómsmálaráðuneytis í bréfi mótteknu í gær er yður hér með falið ásamt forðagæslumanni eða öðrum fulltrúa sveitarstjórnar að framkvæma talningu búfjár í yðar sveitarfélagi. Um nánari tilhögun vísast til áðurnefnds ráðuneytisbréfs er hér með fylgir í ljósriti.``
    Þá vil ég lesa þetta bréf. Það er frá dómsmrn. og byrjar svo: ,,Allir lögreglustjórar. 20. mars 1989. Afrit til Búnaðarfélags Íslands:
    ,,Landbúnaðarráðuneytið hefur farið þess á leit að dómsmálaráðuneytið veiti fulltingi við fyrirhugaða talningu búfjár á öllu landinu sem fram á að fara í mars og apríl 1989. Tekur talningin til sauðfjár, nautgripa, geita, hrossa, svína, alifugla og loðdýra, þar með taldar kanínur`` --- ekki samt hunda og ketti.
    ,,Þess er hér með óskað, lögreglustjóri, að þér felið hreppstjórum og lögreglumönnum eftir því sem henta þykir að framkvæma talningu ásamt forðagæslumanni eða öðrum fulltrúum viðkomandi sveitarstjórna. Yfirstjórn talningar verður í höndum Búnaðarfélags Íslands að höfðu samráði við hlutaðeigandi lögreglustjóra. Nauðsynlegt er að talningin verði hvarvetna sem nákvæmust og niðurstöður verði skráðar á sérstök eyðublöð forðagæslunnar. Þær skulu staðfestar af talningamönnum og sendar til Búnaðarfélagsins til frekari úrvinnslu. Talning þessi er gerð í því skyni að fá fram sem allra gleggstar upplýsingar um búfjártalningu landsmanna. Upplýsingar af þessu tagi eru grundvöllur margháttaðrar áætlunargerðar í landbúnaði, stjórntæki fyrir búvöruframleiðslu, framlög ríkisins byggð á þeim`` o.s.frv.
    Virðulegi forseti. Ég verð að fá að lesa upp samt sem áður fsp. þó að tími sé liðinn:
,,1. Hvaða ástæður lágu til þess að landbrn. fékk dómsmrn. til þess að láta gera lögreglurannsókn á fjölda búfjár í landinu?
    2. Ef búfjáreigandi neitar löggæslumanni um aðgang að húsum sínum verður þá óskað eftir úrskurði um húsleit?
    3. Verður þessi lögreglurannsókn framkvæmd í þéttbýli eins og í strjálbýli?
    4. Ef rökstudd ástæða er fyrir hendi um að láta fara fram búfjártalningu um allt land hefði þá ekki verið viðkunnanlegra að landbrn. skrifaði öllum sveitarstjórnum bréf þess efnis að þær tilnefndu mann sem framkvæmdi slíka talningu með forðagæslumanni eða forðagæslumönnum heldur en að framkvæma slíka talningu með löggæslumönnum?
    5. Er ekki hætt við að forðagæslumenn og bændur telji að þessi lögreglurannsókn feli í sér vantraust á þá?``