Fiskeldisfyrirtæki
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Spurt er í fyrsta lagi: ,,Hversu mörg fiskeldisfyrirtæki eru starfandi í landinu?``
    Því er til að svara að skráðar fiskeldisstöðvar í landinu um síðustu áramót voru 125 talsins. Skráð fyrirtæki á sama tíma, þ.e. um sl. áramót, voru hins vegar 117. Þessi mismunur kemur til af því að nokkur fyrirtækjanna reka fleiri en eina fiskeldisstöð. Rétt er að taka fram að allmörg þessara fyrirtækja eru ekki starfandi og mörg þeirra eru einnig smá og þá gjarnan tengd öðrum rekstri, t.d. nokkur þeirra tengd búrekstri. Landssamband fiskeldis- og hafbeitarstöðva áætlar að þau fyrirtæki sem eingöngu eru fiskeldisfyrirtæki muni vera um 70--80 um sl. áramót. Þess má geta að þegar endurgreiddur var uppsafnaður söluskattur af rekstraraðföngum fyrr á þessu ári var endurgreitt til 56 starfandi fyrirtækja fyrir árin 1986--1987.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Njóta öll þessi fyrirtæki viðskipta í bönkum að því er varðar afurða- eða rekstrarlán?``
    Því get ég helst svarað með þeim upplýsingum sem Tryggingasjóður fiskeldislána lét taka saman fyrir sig í febrúar sl. Þá gáfu eftirtaldir bankar og sparisjóðir svofelld svör: Landsbanki Íslands hafði í viðskiptum 17 fyrirtæki, Búnaðarbanki Íslands átta fyrirtæki, Samvinnubankinn eitt, Alþýðubankinn eitt, Verslunarbankinn eitt, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis eitt, Iðnaðarbankinn tvö og Sparisjóður Svarfdæla eitt. Þetta gera samtals 32 fyrirtæki eða rúman helming þeirra sem fengu til að mynda endurgreiddan uppsafnaðan söluskatt fyrir árin 1986--1987 og tæpan helming þeirra fyrirtækja sem Landssamband fiskeldis- og hafbeitarstöðva áætlar að séu hrein fiskeldisfyrirtæki.
    Í þriðja lagi: ,,Ef svo er ekki [þ.e. ef ekki njóta öll þessi fyrirtæki þegar þessarar fyrirgreiðslu] hvernig hyggst ríkisstjórnin leysa rekstrarvanda þeirra fiskeldisfyrirtækja sem ekki njóta slíkra viðskipta?``
    Ekki hefur komið til þess að ríkisstjórnin hlutist til um það að einstök fyrirtæki á þessu sviði fái bankaviðskipti og ekki er kunnugt um að eftir því hafi verið sérstaklega leitað. Það var von manna og er enn að með tilkomu Tryggingasjóðs fiskeldislána mundu bankar að athuguðu máli sjá sér fremur fært að taka ný fyrirtæki í viðskipti þar sem ljóst er að tilkoma sjóðsins afmarkar betur en áður var þann hluta af fjármögnun á þessu sviði sem bönkum er ætlað að bera. Sérstaklega á þetta við um að með tilkomu tryggingasjóðsins er ljóst að sú hætta er tekin frá viðskiptabönkunum að þeir sitji einir eftir uppi með ábyrgðina af því að fjármagna rekstur fyrirtækjanna allt til lokastigs eldis þannig að unnt sé að gera verðmæti úr þeim birgðum sem í stöðvunum eru. Mikil vinna hefur einmitt farið í það hjá stjórn Tryggingasjóðs fiskeldislána að ræða þessi mál við bankana þó að segja megi að hlutverk þeirrar sjóðsstjórnar sé fyrst og fremst að tryggja samskipti sjóðsins og bankanna hvað viðkemur þeim fyrirtækjum sem þegar hafa sjálf aflað sér bankaviðskipta, en það

er hin almenna venja í viðskiptaheiminum að fyrirtækin komi sér sjálf í viðskipti hjá bönkum og æskilegast væri að það gæti gerst með þeim hætti í þessu tilviki einnig.