Úttekt á byggingum
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans. Að vísu kom þar ekki margt fram umfram það sem ég vissi sjálf en ekki er reyndar víst að sé öllum kunnugt.
    Þær áætlanir sem er ætlað að verkfræðiskrifstofa Háskólans geri þyrftu að ná víðar. Hann minntist ekki á Norðurland í þessu sambandi. Menn voru þó áþreifanlega minntir á það 1976 að þar getur ýmislegt skeð. Nú er orðið æðilangt síðan jörð hefur skolfið á Dalvík og á því svæði. Jarðfræðingar segja mér að þar muni innan tíðar mega búast við umtalsverðum jarðskjálftum. Og 11 ár eru nú liðin síðan þessi áætlun almannavarnaráðs var gerð og lítið hefur verið gert með hana enn þá. Mér finnst mjög mikil nauðsyn á því að tekið sé á þessum málum sem fyrst. Það er ekkert talað um ,,ef`` í sambandi við jarðskjálfta á Suðurlandi. Það er bara sagt ,,þegar``. Það má reikna með að þar verði tilfinnanlegt tjón á mannvirkjum og húsum af öllu tagi, bæði opinberu húsnæði og einkahúsnæði, íbúðarhúsum, peningshúsum og gróðurhúsum sem eru mörg á þessu svæði.
    Mér finnst þurfa að liggja fyrir áætlanir um hvernig þessu skuli mætt. Við skulum ekki tala um það að almannavarnaráð hefur vafalaust áætlanir um hvernig skuli mæta slysum á fólki og atburðum af því tagi. En mér finnst það vera mjög brýnt verkefni sem þarna er bent á og annað það að það er ekki verjandi að almannavarnaráð skuli ár eftir ár hafa beðið um fjárveitingar til þessara úttekta án þess að fá áheyrn. Við því þarf að bregðast.