Félagsmálaskóli alþýðu
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Herra forseti. Ég kem hér upp í stól til að lýsa stuðningi við þetta mál. Það var svo að hv. 17. þm. Reykv. hafði ýmsar efasemdir um réttmæti þess að slíkur skóli yrði stofnaður. Ég er honum ekki sammála. Hann bar þetta t.d. saman við Stjórnunarskólann. Ég held að það sé á vissan hátt ekkert sambærilegt. Í Stjórnunarskólanum veit ég ekki betur en fólk þurfi að borga svimháar upphæðir fyrir námskeið og það nám sem það hlýtur. Þarna er verið að koma til móts við það fólk sem e.t.v. hefur minna fé milli handanna og þarf kannski enn frekar á almennri fræðslu að halda en þeir sem sækja Stjórnunarskólann.
    Mér finnst mikilvægt í þessu frv. að við skipulag námsefnisins verði tekið tillit til þeirra sem á unga aldri áttu ekki kost á námi eða gátu af einhverjum orsökum ekki stundað nám. Oft er það líka svo að tímabundið áhugaleysi og/eða örðugleikar við að tileinka sér nám verða til þess að fólk dettur út úr námi eða hverfur frá námi. Þessir örðugleikar kunna einnig að vera tímabundnir en þegar fólk hverfur frá námi á ungum aldri er það oft svo að það treystir sér ekki vel að byrja aftur á ný. Ég vil einnig benda á að ungar stúlkur hverfa oft frá námi vegna barneigna. Síðan tekur lífsbaráttan við og þær verða að vinna fyrir sér og heimili og langur tími líður þangað til ráðrúm gefst á ný til náms þó að löngunin sé fyrir hendi.
    Ég tel mjög nauðsynlegt að námsefni slíks skóla eins og þarna er verið að tala um sé þannig að það gagnist sem almenn menntun, auk þess sem það sé á þann veg að efla félagsþroska fólks og veita því tækifæri til þeirrar fræðslu sem nauðsynleg er til að geta rækt félagslegt hlutverk sitt og tækifæri til þeirrar menntunar sem þarf til þess að berjast fyrir kjörum sínum. Þar á ég ekki síst við trúnaðarmenn verkalýðsfélaga sem þarna er líka ætlað að hljóti fræðslu. Ég tel mjög mikilsvert að auka fjölbreytni í framboði á fræðslu, ekki síst til þeirra sem hafa lent út af hefðbundnum námsleiðum. Þeir þurfa að eiga meira val um leiðir. Í verkalýðsstétt held ég að sé óumdeilanlega það fólk sem yfirleitt hefur skemmsta menntun hlotið í okkar þjóðfélagi og mér finnst að þessi skóli sé tilraun til að koma til móts við þarfir þess og möguleika þess til að halda á sínum málum. Ekki síst þess vegna finnst mér að þessi skóli sé nauðsynlegur. Það má vitanlega lengi deila um uppbyggingu hans og hvernig eigi að standa að henni, en ég trúi að um það verði þá fjallað í félmn. og fáist niðurstaða þar. En að svo komnu máli vil ég lýsa stuðningi við þetta mál.