Erfðalög
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Deildinni hefur borist aftur frv. til l. um breyt. á erfðalögum, nr. 8/1962, með síðari breytingum, frá hv. Nd. eftir að gerðar hafa verið á frv. þrjár breytingar í meðferð þeirrar deildar:
    Í fyrsta lagi við 3. gr. frv. þar sem um orðalagsbreytingu er að ræða, þ.e. það er annað tilvísunarform, ,,þess`` komi í stað ,,hans``.
    Í öðru lagi við 15. gr. frv. um að í stað þess að lögin öðlist þegar gildi þá komi að lögin öðlist gildi frá 1. júní 1989, þannig að það liggi ljóst fyrir hver sú dagsetning er. Miklu máli skiptir að það sé skýrt m.a. vegna efnis 16. gr. þar sem gert er ráð fyrir að hin eldri lög gildi um þá sem látnir verða fyrir 1. júní nk. en ákvæði þessara laga, eins og gildistökutíminn ber með sér, gildi fyrir þá sem látast kunna eftir 1. júní nk.
    En við breytingu hjá hv. Nd. við 16. gr. þá kom ekki nægilega skýrt fram að ákvæði hinna eldri laga gilda áfram um þá sem látnir eru fyrir 1. júní 1989. Þess vegna hefur allshn. þessarar deildar lagt fram brtt. á þskj. 988 um að fyrri efnismgr. 16. gr. orðist eins og þar segir og það er eingöngu til þess að gera alveg ótvírætt hvaða lög eiga að gilda um hverja.
    Með þessari brtt. leggur nefndin til að frv. verði samþykkt.