Lagmetisiðnaður
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 14. þm. Reykv. undirtektir hans við þetta frv. Vegna beinnar spurningar hans um það hvort á döfinni sé þátttaka þessa sjóðs ef heimild fæst til þess að taka þátt í stofnun ákveðinna hlutafélaga eða fyrirtækja, þá svara ég því náttúrlega þannig að að sjálfsögðu hafa engar slíkar skuldbindingar verið stofnaðar en aðilar sem standa að endurskipulagningu fyrirtækis sem heitir HIK á Húsavík hafa leitað til iðnrn. um þátttöku í takmörkuðum mæli, með hlutafé eða víkjandi lánsfé í félagi sem á að taka við rekstri þess fyrirtækis sem hefur átt í miklum erfiðleikum. En ég tek það fram að það yrði þá sem þáttur í víðtækri fjárhagslegri endurskipulagningu og aukningu eigin fjár sem að mestu leyti kæmi frá heimamönnum. Það tel ég einmitt vera gott dæmi um það að þessi sjóður gæti orðið að liði, einmitt með því að leggja fram takmarkaða hlutdeild í eiginfjáraukningu í fyrirtækjum sem svo er ástatt um, en um það fyrirtæki má líka segja að hið nýja fyrirtæki mundi einbeita sér að nýrri framleiðslu, einkum niðurlagningu á lifur sem talið er að fyrirtækið geti átt mikla möguleika til þess að heyja sér markað fyrir.
    Þetta vildi ég segja vegna beinnar spurningar hv. þm. Að öðru leyti vegna spurningar hans um það hvort ráðgerð sé þátttaka í starfandi hlutafélögum þá er það ekki á döfinni umfram það sem ég lýsti hér. Þar er náttúrlega á mörkum hvort um starfandi félag er að ræða eða algjörlega nýja félagsstofnun.
    Í þriðja lagi spurði hv. þm. um það hver væri fjárhagsstaða sjóðsins. Það kemur fram í grg. frv. Ég hef það því miður ekki handbært en mig minnir að eignir sjóðsins séu núna um 75 millj. kr.