Umhverfismengun af völdum einnota umbúða
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. á þskj. 999 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur eins og frv. kemur frá hv. Ed. Frv. í sinni upphaflegu mynd, eins og sýnt var á þskj. 573, var samið í iðnrn. og byggir m.a. á tillögum svonefndrar endurvinnslunefndar sem hæstv. fyrrv. iðnrh. Friðrik Sophusson skipaði 18. nóv. 1987 til að huga að endurvinnslu úrgangs á Íslandi.
    Endurvinnslunefndin sem svo er kölluð hefur á starfstíma sínum hugað að þessu máli í heild. Hún tók fyrst ákvörðun um að taka til athugunar meðferð á brotamálmum og skilagjald af ökutækjum sem eru nátengd viðfangsefni. Þessum þætti í starfi nefndarinnar lauk með tillögum að frv. til l. um meðferð brotamálma og skilagjald af ökutækjum sem nefndin sendi frá sér sl. haust. Þessi tillaga hefur verið til nánari athugunar og á hennar grunni hefur verið samið frv. um þetta efni og sent þingmönnum prentað sem handrit, og kemur vonandi til kasta þingsins á næsta hausti.
    Ég taldi hins vegar mest aðkallandi að taka fyrst fyrir tillögur um söfnun og endurvinnslu á einnota umbúðum utan um drykkjarvörur. Samhliða því sem endurvinnslunefnd hugaði að þessu máli þótti mér rétt að þau mál, sem tengdust söfnun og endurvinnslu á einnota umbúðum úr áli og plasti, yrðu tekin alveg sérstaklega fyrir. Þetta er auðvitað sérlega brýnt vegna þeirrar miklu aukningar sem orðið hefur á notkun þess háttar umbúða og þeirri viðbót sem varð þegar leyfð var sala á sterku öli 1. mars sl. en sú vara er aðallega í áldósum eins og kunnugt er.
    Hinn 10. febr. sl. boðaði ég til fundar og kynnti hugmyndir þær um söfnunar- og endurvinnslukerfi sem þetta frv. byggir á fyrir fulltrúum öl- og gosdrykkjaframleiðenda, kaupmanna, iðnrekenda og ýmissa samtaka sem láta sig varða náttúruvernd. Á þeim fundi var samþykkt að skipa undirbúningsnefnd vegna stofnunar væntanlegs hlutafélags er tæki að sér að safna einnota drykkjarvöruumbúðum og endurvinna þær eða koma til endurvinnslu eða eyðingar. Þann 15. febr. sl. skilaði svo endurvinnslunefndin áliti í formi tillögu að frv. til l. um notkun og endurvinnslu einnota umbúða ásamt greinargerð og ég læt álit nefndarinnar fylgja frv. þessu í þeirri grg. sem fylgdi þskj. 573.
    Í frv. sem hér liggur fyrir og ég mæli nú fyrir er sú leið valin að leggja til almenna heimild til að leggja skilagjald á einnota umbúðir úr málmi, plasti og gleri. Það er jafnframt lagt til að í reglugerð verði kveðið á um nánari framkvæmd þessa máls. Í meðförum málsins í Ed. var þessi takmörkun ákveðin í lögunum, þ.e. að binda þetta við málm-, gler- og plastumbúðir. Það má auðvitað vera ljóst að pappírsumbúðir koma hér líka við sögu, en með frv. í þeirri mynd sem það liggur nú fyrir er því máli skotið á frest og ekki tekin afstaða til þess.
    Það mál öllum vera ljóst núna þegar snjóa tekur að leysa að einnota umbúðirnar koma sannarlega í ljós og mikil þörf er á því að grípa til aðgerða í málinu. Þetta

frv. er vænlegur farvegur til þess og mun gefa kost á því að efna til myndarlegrar hreinsunarherferðar þegar í sumar. Til að tryggja skilvirka framkvæmd þessara laga og þeirra verkefna á sviði umhverfisverndar og endurvinnslu sem frv. stefnir að er sú skylda lögð á iðnrh. að hann hafi frumkvæðið að stofnun hlutafélags sem annist söfnun og endurvinnslu umbúðanna sem lagt er á skilagjald og annast umsýslu þessa gjalds.
    Þetta er ekki eingöngu umhverfisverndarmál heldur er þetta líka endurvinnslumál. Það er mikilvægt verkefni í iðnþróun í þessu landi eins og öllum löndum og mun verða framtíðariðngrein að vinna að nýju úr þeim dýrmætu jarðefnum sem notuð hafa verið í margvíslegar neysluvörur sem jafnóðum er hent. Hér er því ekki bara um brýnt umhverfisverndarverkefni að ræða heldur nýja iðngrein --- mikilvæga grein í iðnþróun ef maður horfir langt fram á veginn.
    Margar aðrar þjóðir hafa þegar látið þessi mál til sín taka í stórum stíl. Evrópubandalagið gerði t.d. sérstaka samþykkt 27. júní 1985 um umbúðir fyrir fljótandi matvæli eins og það er kallað þar. Tilgangurinn með þeirri samþykkt var að draga úr umbúðanotkun og magni umbúða í sorpi með því að auka á notkun margnota eða endurvinnanlegra umbúða um slíkan varning. Í samræmi við þessa stefnu var samþykkt að aðildarríkin settu fram áætlun um það hvernig draga mætti úr þessari umbúðanotkun.
    Menn hafa valið ýmsar leiðir í þessu efni, t.d. hafa Danir bannað notkun áldósa, fyrst og fremst vegna umhverfisspjalla sem þær valda. Þeir hafa líka lagt gjald á allar aðrar einnota umbúðir, t.d. á allar umbúðir utan um mjólk. Í Noregi er lagt gjald á allar umbúðir utan um drykkjarvörur aðrar en mjólkurvörur og hreinan ávaxtasafa. Þetta var gert áður en áldósir fóru að streyma á markaðinn og samkvæmt upplýsingum frá Noregi finnast þar varla slíkar umbúðir. Í Svíþjóð var farin enn önnur leið. Þar voru áldósir algengar á markaði og þar var sett í gang svipað kerfi og hér er gerð tillaga um. Þetta kerfi hefur verið starfrækt í nokkur ár og hefur gengið vel þar og reyndar orðið fyrirmynd að slíkri söfnun og endurvinnslu víða um lönd.
    Sú tillaga sem hér er flutt er sniðin að íslenskum aðstæðum og ég er þess fullviss að þetta getur gefið góða raun hér, enda hafa bæði þeir sem hafa viðskipta- og atvinnuhagsmuna að gæta af málinu og þeir sem áhuga hafa á því vegna umhverfisverndar komið að því og eru einhuga um að styðja það.
    Svo að ég snúi mér að einstökum greinum frv. þá er í 1. gr. þess lagt til að heimilt verði að ákveða að þetta skilagjald nemi allt að 10 kr. Í meðförum málsins í Ed. varð að samkomulagi að veita heimild til að hækka þessa fjárhæð í samræmi við breytingar á verði drykkjarvara eins og fram kemur í greininni eins og hún er prentuð á þskj. 999. Skilagjaldið ásamt umsýsluþóknun, sem á að nema 1--5% af skilagjaldinu, skal lagt á innfluttar drykkjarvörur í einnota umbúðum við tollafgreiðslu þeirra og samhliða vörugjaldi á innlenda drykkjarvöruframleiðslu.

Innheimt skilagjald verður síðan afhent hlutafélaginu sem svo skipuleggur söfnun umbúðanna um allt land og kemur þeim til endurvinnslu. Skilagjald af umbúðunum verður svo endurgreitt neytendum við móttöku. Þannig á álagning skilagjaldsins ekki að hafa í för með sér verðhækkun því hér er í raun og veru um það að ræða að neytandinn fær gjaldið til baka þegar hann skilar umbúðunum.
    Við umræður í hv. Ed., eins og ég nefndi áðan, var tekin sú ákvörðun að binda þessa tilhögun við umbúðir úr málmi, gleri og plasti. Ég geri ráð fyrir því að reglubundin söfnun umbúða verði fyrst og fremst í höndum söluaðila, en ég er sannfærður um það að í sambandi við þessa umbúðasöfnun mun takast samstarf við ýmis áhugafélög sem þegar hafa sýnt málinu mikinn áhuga. Ég nefni t.d. skátahreyfinguna, Hjálparstofnun kirkjunnar og ýmis íþróttafélög sem hafa þegar haft samband við iðnrn. og þingnefndina sem fjallaði um málið í hv. Ed. Með þátttöku í hreinsunar- og söfnunarstarfi geta slík samtök stuðlað að því að halda landinu hreinu, en jafnframt haft af því nokkurn fjárhagslegan ávinning.
    Þá er ekki síður mikilvægt að góð samvinna takist við sveitarfélög um þetta mál og hefur við meðferð málsins, bæði í ráðuneyti og í Ed., verið haft samráð t.d. við sorphirðuna hér á Reykjavíkursvæðinu. Ég tel rétt, eins og tillaga er gerð um og fram kemur á þskj. 999, að bæta sveitarfélögunum beinlínis inn í upptalningu yfir þá aðila sem hlutafélagið eigi að leita eftir samstarfi við. Reyndar geri ég ráð fyrir að sveitarfélög muni eiga aðild að félaginu. Það hefur bæði komið fram áhugi hjá samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og reyndar Sambandi ísl. sveitarfélaga.
    Undirbúningsnefndin sem hefur unnið að því að stofna hlutafélag á grundvelli 2. gr. hefur á þessu stigi máls náð samkomulagi um nokkur atriði sem ég ætla hér að lýsa:
    1. Að tilgangur félagsins verði að safna og endurvinna eða eyða einnota umbúðum sem skilagjald er lagt á.
    2. Að hlutaféð verði um 30 millj. kr. en stjórn félagsins verði heimilt að hækka hlutaféð í 45 millj. kr. Í meðförum málsins í hv. Ed. er sett takmörkun á framlag ríkissjóðs til hlutafélagsins við 12 millj. kr. Það tel ég mjög vel viðunandi og vil fyrir mitt leyti stefna að því að hlutaféð verði takmarkað í upphafi, enda tel ég auðvelt að koma þessu í kring með því fé sem þar er gert ráð fyrir.
    3. Samkomulag er um það til bráðabirgða í þessari undirbúningsnefnd að skipting hlutafjárins við upphaf félagsins verði eitthvað á þessa leið: Iðnrekendur, þ.e. framleiðendur gosdrykkja og öls, málmbræðslufyrirtæki og fleiri iðnfyrirtæki eigi 40% af hlutafénu, innflytjendur á gosi og öli, kaupmenn og samtök þeirra, þar með talin samvinnuhreyfingin, samanlagt um 20%, ríkissjóður, þar með talin Áfengis- og tóbaksverslun, sveitarfélög og almannasamtök allt að 40%. Þessar tölur eru að sjálfsögðu eingöngu til leiðbeiningar og mun stofnfundur félagsins, ef heimild

til þess að stofna það fæst í þinginu, taka afstöðu til þess. Markmiðið er að virkja sem flesta þá sem hagsmuni og áhuga hafa á þessu mikla máli. Iðnrn. hefur þegar tekið frumkvæðið eins og hér hefur þegar komið fram. Ég vildi líka gera grein fyrir því að verði frv. um umhverfisráðuneyti að lögum, þá er gert ráð fyrir að forræði þessa félags færist frá iðnrn. til umhverfisráðuneytis.
    Ég tel ekki þörf á því, virðulegi forseti, að fara miklu fleiri orðum um það frv. sem hér er til umræðu, en ítreka nauðsyn þess að frv. fái skjóta meðferð, ekki síst vegna þess að þegar eru hafin umfangsmikil viðskipti með einnota áldósir og einnota plastdósir, ekki síst eftir að sterka ölið er komið hér i almenna sölu. Þetta mál er í orðsins fyllstu merkingu þjóðþrifamál, landþrifamál og ég treysti því að það fái hér skjóta meðferð og góðar undirtektir.
    Að svo mæltu legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnn. og 2. umr.