Lækkun raforkukostnaðar í gróðurhúsum
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 840 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. um ráðstafanir til að lækka raforkukostnað í gróðurhúsum.
    Á sl. vori, nánar tiltekið 11. maí 1988, var samþykkt hér á hv. Alþingi þáltill. sem ég flutti þar sem Alþingi ályktaði að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því við stjórnir Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins að garðyrkjubændum yrði gefinn kostur á hagkvæmari kaupum á raforku til lýsingar í gróðurhúsum í því skyni að breyta samkeppnisaðstöðu innlendrar ylræktar gagnvart innflutningi.
    Í grg. með till. rakti ég hversu hröð þróun hefur átt sér stað hvað varðar notkun lýsingar við uppeldi plantna í gróðurhúsum hér á landi.
    Á því ári sem liðið er frá því að till. var samþykkt hefur notkun lýsingar stóraukist, m.a. í trausti þess að samþykkt þessarar þáltill. þýddi í reynd verulega lækkun raforkukostnaðar í þessari atvinnugrein. Aukin raforkunotkun til lýsingar í gróðurhúsum lengir markaðstíma innlends grænmetis og blóma og eykur verulega möguleika okkar á að vera sjálfum okkur nóg hvað varðar þessa framleiðslu.
    Því spyr ég hæstv. iðnrh.: ,,Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að lækka raforkukostnað í gróðurhúsum í samræmi við þál. sem samþykkt var á Alþingi 11. maí 1988?``