Lækkun raforkukostnaðar í gróðurhúsum
Föstudaginn 05. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Þeirri þál. sem hv. 4. þm. Suðurl. vísaði til í fsp. var vísað til iðnrn. eftir að hún hafði verið samþykkt hér á Alþingi í maí í fyrra. Ráðuneytið fól svo með bréfi, dags. 1. júlí 1988, Rafmagnsveitum ríkisins að taka upp viðræður við forustumenn garðyrkjubænda til þess að leita leiða til hagkvæmari kaupa á raforku en nú er til lýsingar í gróðurhúsum. Samrit af þessum bréfum var sent Bjarna Helgasyni, formanni Sambands garðyrkjubænda, Laugalandi í Borgarfirði.
    Aðilar þessa máls hafa átt með sér nokkra fundi og sl. haust voru menn sammála um að skoða eina ákveðna leið til að lækka þennan kostnað og til þess að gera vissar mælingar á orkunotkun, en forsenda aðgerða á þessu sviði er að menn viti nákvæmlega hversu mikil notkunin er á og utan álagstíma.
    Rafmagnsveiturnar gerðu ráðstafanir til að útvega mælitæki til þessarar gagnasöfnunar. Ýmis gögn voru dregin saman af Rafmagnsveitunum og send gróðurhúsabændum í lok janúar sl. Síðan hafa Rafmagnsveiturnar beðið eftir viðbrögðum gróðurhúsabænda og tillögum um tilraunamælingastaði.
    Það gefur auga leið að gróðurhúsalýsing er mest á veturna, mesta álagstíma raforkukerfisins. Þó er hugsanlegt með skynsamlegri nýtingu og með því að beita næturtaxta að eitthvað megi lækka verðið. Það er nauðsynlegt að gera tilraunamælingar í samstarfi við gróðurhúsabændur áður en hægt er að slá nokkru föstu um hvort unnt sé að lækka verð til lýsingar í gróðurhúsum með bættri nýtingu á raforkunni. Að öðru leyti er auðvitað ekki hægt að lækka þennan taxta nema hann komi niður á öðrum viðskiptavinum Rafmagnsveitna ríkisins.
    Ég tek það fram að ráðuneytið og Rafmagnsveiturnar eru að sjálfsögðu tilbúin til þess að hafa áfram samstarf við gróðurhúsabændur um þessar athuganir, en málið er sem sagt enn á athugunarstigi.