Sykurverksmiðja
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir hans svör þó að það séu mér viss vonbrigði að ekkert hafi verið unnið í iðnrn. í sambandi við þessi mál þau sjö ár síðan frv. var hér borið fram. Það kom fram í máli hæstv. iðnrh. að ekki mundi vera grundvöllur fyrir slíkum rekstri hér nema því fylgdi bann við innflutningi. Samkvæmt þeim útreikningum sem liggja fyrir frá Áhugafélagi um sykuriðnað mundi hér vera um hagkvæmt sykurverð að ræða, a.m.k. ef ekki nyti þess sem hæstv. iðnrh. nefndi, hinnar miklu niðurgreiðslu á sykurframleiðslunni í Evrópu. Nú höfum við heyrt að áform eru uppi hjá Evrópubandalaginu að draga eitthvað úr gífurlegum stuðningi við landbúnað í aðildarríkjunum og það hlyti þá að breyta þeirri stöðu sem hér var áður. Jafnframt munu nú fara minnkandi birgðir af sykri og hefur gert síðustu árin og eru horfur á að þær verði litlu meiri en það sem talið er nauðsynlegt vegna markaðarins þannig að þar virðast einnig vera á döfinni einhverjar breytingar á markaðsaðstæðum. Ég vildi því vænta þess að iðnrn. fylgist með þessum málum og geri það sem í þess valdi stendur til að styðja þetta ef því sýnist að tök sé á því.