Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans svör og sömuleiðis forseta fyrir að hafa leyft honum að ljúka svörunum. Eins og fram kom í máli hans er þetta mál alls ekki nógu langt komið til þess að hægt sé að taka á því eins og þyrfti. Það kom fram í máli hans að það er aðeins um undirbúning að ræða í tveimur skólum: á Suðurnesjum og á Selfossi. En stærsti hópur nemenda er að sjálfsögðu hér á höfuðborgarsvæðinu og væntanlega margir hér sem þyrftu að komast á styttri námsbrautir sem ég er honum alveg sammála um að þurfi að koma á. En ég vil líka benda á að ég hef orðið vör við það að margir kennarar í efstu bekkjum grunnskólans hafa áhyggjur af nemendum sínum sem eru að koma að því stigi að fara í framhaldsskólann vegna þess að í efstu bekkjum grunnskólans hefur alls ekki verið hægt að bjóða upp á þá sérkennslu sem þyrfti til þess að undirbúa þá undir frekara nám.
    Varðandi fornámið þá kom einnig fram í máli hæstv. menntmrh. að það er ekki við alla skóla í Reykjavík, það er við flesta fjölbrautaskólana. Þetta hefur hingað til gefið skólum tækifæri til að velja nemendur með ákveðnar lágmarkseinkunnir. Eins og ég sagði hér áður í máli mínu eru þessir fornámsáfangar upprifjun á námsefni grunnskólans, kjarnagreinunum eingöngu, og það eru ekki til nógu góðar heimildir um hversu stórum hluta nemendahópsins þeir gagnast. Það vantar væntanlega námsefnið líka.
    Námsefnisgerð, sérstaklega á framhaldsskólastiginu, hefur hingað til mikið til verið unnin af kennurum í sjálfboðavinnu, og ég veit ekki hversu fúsir þeir verða til að leggja slíkt á sig enn einu sinni þetta árið, og sömuleiðis skipulagning námsbrauta. Þá vil ég líka benda á að ef við ætlum að taka þetta skref, sem ég tel að við eigum að gera, þá verður það að vera yfirvegað. Það er margt fleira sem þarf að bæta í skólunum heldur en innra starfið og námsefnið, kennslan og því um líkt, t.d. líka húsnæðið sem nemendum er þar boðið upp á. Það eru mjög fáir skólar sem hafa t.d. aðstöðu til þess að taka á móti fötluðum nemendum, þeim sem eru hreyfihamlaðir. Ég bendi á að t.d. við Fjölbrautaskóla Vesturlands er eitt heimavistarherbergi skólans sérstaklega hannað fyrir nemanda í hjólastól, en sá nemandi kemst aldrei út yfir skólalóðina og kemst ekkert innan húss í skólanum. Þannig að það þarf líka að gera stórátak til að þessum nemendum geti liðið vel í skólanum eins og vera ber.
    Að lokum vil ég aðeins segja það að blöndun í skóla og samfélagi er bæði hugsjón og aðferð og það skiptir mjög miklu máli að vel takist til. Og vona ég að ekki verði flanað að neinu í þessu máli.