Íslenskt mál í sjónvarpi
Föstudaginn 05. maí 1989

     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. félmn. um till. til þál. um íslenskunámskeið fyrir almenning. Nál. er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur rætt málið á mörgum fundum og sent það til umsagnar. Svör bárust frá Íslenskri málnefnd og framkvæmdastjóra Fræðsluvarps. Auk þess lá fyrir í nefndinni umsögn frá Íslenskri málnefnd vegna sama máls á síðasta þingi.
    Til viðræðu um málið komu á fund nefndarinnar Guðmundur Kristmundsson, starfsmaður málræktarátaks menntmrn., dr. Kristján Árnason, formaður Íslenskrar málnefndar, og Sigrún Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðsluvarps.
    Fram kom hjá þessum aðilum að víða gerir vart við sig áhugi á ræktun íslensks máls og hlutur fjölmiðla skiptir miklu um verndun og þróun tungunnar. Mikilsvert er að sem best tengsl verði milli þeirra sem vinna að því að auka áhuga á málrækt. Fyrrgreindir viðmælendur nefndarinnar lýstu sig reiðubúna til samráðs við sjónvarpsstöðvar ef eftir yrði leitað vegna þáttagerðar um íslenskt mál.
    Nefndin telur að reynslan af þáttum um íslenskt mál í hljóðvarpi hvetji til þess að upp verði teknir stuttir þættir um íslenskt mál í sjónvarpi á góðum stað í dagskrá. Eðlilegt er að menntmrh. leiti eftir slíku við sjónvarpsstöðvarnar með hliðsjón af því málræktarátaki sem hann hefur beitt sér fyrir. Hins vegar er það undir áhuga og ákvörðunum sjónvarpsstöðvanna komið hvort og hvernig að slíkum þáttum er staðið. Óbeinn stuðningur og fagleg ráðgjöf frá Íslenskri málnefnd og Fræðsluvarpi ætti hins vegar að auðvelda gerð slíkra þátta og vandaðan undirbúning.
    Með vísan til þessa leggur nefndin til að þáltill. verði samþykkt með breytingum sem fram koma á sérstöku þingskjali.``
    Þetta er gert 27. apríl sl. og undirritað af öllum fulltrúum í félmn.
    Á þskj. 965 er brtt. nefndarinnar við þáltill. Þar er lagt til að tillgr. orðist þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að leita eftir því við sjónvarpsstöðvarnar að þær flytji reglulega þætti um íslenskt mál og hafi um gerð þeirra samráð við Íslenska málnefnd og Fræðsluvarp.``
    Í öðru lagi er lagt til að fyrirsögn till. verði: Till. til þál. um þætti um íslenskt mál í sjónvarpi.