Ástandið í framhaldsskólunum
Föstudaginn 05. maí 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. 2. þm. Reykv., fyrir að hefja þessa umræðu því það er orðið fyllilega tímabært að stjórnvöld fari að svara þeim þúsundum ungmenna sem nú bíða þess að fá vitneskju um hvernig yfirvöld menntamála ætla að standa að lokum þessa skólaárs og það gildir ekki bara um framhaldsskólann heldur er líka mikið vandræðaástand víða í grunnskólum að ekki sé talað um skóla úti á landi þar sem hluti nemendanna hefur orðið að hverfa heim.
    Það öngþveiti og sú upplausn og það hættuástand sem hefur skapast hjá mörgum stofnunum ríkisins undanfarnar vikur er algerlega óviðunandi og það er algerlega á ábyrgð stjórnvalda og þau ein geta leyst úr því.
    En varðandi deilu kennara vil ég enn einu sinni minna á þær skýrslur sem unnar hafa verið frá 1985, þrjár að tölu. Allir sem að þeim hafa unnið, sem eru fulltrúar fjmrn., menntmrn. og kennara, eru sammála um niðurstöðurnar og því hlýtur það að vekja furðu og kannski tilefni til spurninga þar sem ég sé að hæstv. fjmrh. er hér í salnum: Hvernig í ósköpunum dettur honum í hug að bjóða enn eina nefnd samkvæmt því tilboði sem fram kom á samningafundi sl. nótt? Heldur hann virkilega að kennarar fari enn einu sinni inn í skólana á skriflegum loforðum á bréfsefni fjmrn.?
    Það er til lítils að tala um stórkostlega skólaþróun og þróun í skóla- og menntamálum án þess að um leið sé gert ráð fyrir að stórbæta kjör kennara. Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar og flestra fyrri standa mörg falleg orð um gildi menntunar fyrir framtíðarlífskjör þjóðarinnar. En hvergi birtist þó hin eiginlega menntastefna betur en í launastefnunni og það virðist gilda sama um þær ríkisstjórnir sem setið hafa hér undanfarin ár að störfin eru stórlega vanmetin og þess vegna er það ástand upp komið sem raun ber vitni.
    Þau 15 þúsund ungmenni sem eru á framhaldsskólastigi og öll hin sem eru á grunnskólastigi eiga kröfu á því að stjórnvöld svari hvernig þessu skólaári lýkur. Þetta ástand er hvorki hægt að bjóða nemendum, foreldrum þeirra eða kennurum. Mig langar til að koma inn á eitt atriði sem varðar nemendur úti á landsbyggðinni. Þannig háttar til að þeir halda sjálfir uppi launakostnaði í mötuneytum sínum, en hafa nú orðið að hverfa heim. Þeir hafa haldið uppi starfsfólki á launum núna í heilan mánuð. Vil ég í því sambandi beina spurningu til hæstv. fjmrh. hvort til standi að ríkissjóður hjálpi þeim eitthvað að bera þær byrðar og þann skaða sem þeir bera þess vegna.