Manneldis-og neyslustefna
Laugardaginn 06. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég verð að minna á það að ég stend hér í sporum heilbr.- og trmrh. og verða því svör mín við þeim spurningum sem hér hafa komið fram eflaust ekki eins markviss eins og þyrfti að vera. Ég vil hins vegar þakka þeim sem hér hafa talað fyrir góðar undirtektir undir þessa tillögu. Það er hárrétt hjá hv. síðasta ræðumanni að ég met mikils líkamsrækt en raunar ekki síður gott mataræði og ég hef í ríkisstjórnum alllengi mælt eindregið með því að stjórnvöld mótuðu stefnu í þessu sambandi. Ég fagna því að síðasta ríkisstjórn tók ákvörðun um að gera svo og fagna því að núv. heilbr.- og trmrh. hefur fylgt því eftir og lagt fram þá þáltill. sem hér er.
    Það er hárrétt hjá síðasta ræðumanni að ég, eins og eflaust fleiri, vil gjarnan borða það sem mér sjálfum sýnist hverju sinni og ég fæ mér feitan dilkakjötsbita annað slagið, en engu að síður held ég að leiðbeiningar í þessu sambandi séu afar gagnlegar, m.a. með tilliti til þess að mjög mikil breyting hefur orðið á lifnaðarháttum okkar Íslendinga, hreyfing er langtum minni og ég hygg að það sé óumdeilt að fyrir þá sem t.d. hreyfa sig minna, sumir hafa ekki aðstöðu til þess o.s.frv., sé nauðsynlegt að gæta þess hvað þeir neyta mikils feitmetis.
    Hv. þm. nefndi sykurneyslu. Ég vek athygli á því að tannskemmdir munu vera meiri hér á landi en víðast hvar annars staðar og má eflaust rekja það til mikillar sykurneyslu.
    Ég tek undir það með hv. þm. að að sjálfsögðu eiga stjórnvöld ekki að vera með boð og bönn í þessu sambandi. Það er hárrétt. Hins vegar hygg ég að stjórnvöldum beri skylda til í raun að leiðbeina í þessu sambandi og ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur að að sjálfsögðu ætti skattlagning matvæla að vera með tilliti til hollustu þeirra. Þetta gera fjölmargar aðrar þjóðir. Það er lagður aukaskattur á sykurvörur t.d. á Norðurlöndunum og víða annars staðar. Ég lít svo á að samþykkt þáltill. sem þessarar sé fyrsta skrefið sem geri stjórnvöldum í raun kleift að haga skattlagningu með tilliti til hollustu.
    Ég vil taka það fram að ég hef í mörg ár mælt með því, og mælti eindregið með athugun á ýmsum skattabreytingum um sl. áramót, að slík skattlagning yrði tekin upp og var það gert að hluta í sambandi við sykurvarning. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir spurði hvort fjárveiting væri veitt til verkefnisins. Nokkur fjárveiting var veitt á þessu ári, nægilega mikil til að halda því starfi áfram sem hófst fyrir tveimur árum og nægilega mikil til að framkvæma þá könnun sem ég gerði grein fyrir að er þegar hafin. Jafnframt hefur heilbr.- og trn. í sínum tillögum til fjmrn. nú gert ráð fyrir fjárveitingu til að framkvæma það sem lagt er til með þessari þáltill. svo ég lít á það sem afar mikilvægt í þessu sambandi að tillagan verði samþykkt og Alþingi sýni þannig vilja sinn til að taka á þessum málum.
    Ég tek undir það með hv. þm. að það er illt að hafa ekki meiri tíma til að ræða þetta mál eða skoða

það í nefnd. Hins vegar, ef í ljós kemur í störfum nefndarinnar að menn eru í meginatriðum inni á því að svona starf sé unnið, vil ég leyfa mér að leggja til að nefndin hraði sínu starfi þannig að þessi tillaga megi hljóta afgreiðslu á þessu þingi. Það mun fyrst og fremst stuðla mjög að því að unnt verði að halda áfram þessu starfi eins og heilbr.- og trmrh. hefur gert ráð fyrir.