Staða og rekstur fiskvinnslufyrirtækja
Mánudaginn 08. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. sem hér hafa talað að staða fiskvinnslunnar og sjávarútvegsins í landinu er mjög alvarleg og það er mikilvægt að það sé skilningur bæði hér á Alþingi, í ríkisstjórn og í þjóðfélaginu öllu á þessari stöðu. Hitt er svo annað mál að þessi skilningur kemur ekki alls staðar jafnskýrt fram. M.a. hafa menn á undanförnum mánuðum verið að ganga frá kjarasamningum sem leiða til verulegra kostnaðarhækkana innan lands og með því virðist ekki koma fram mikill skilningur á því að þessi atvinnugrein er á engan hátt í stakk búin að taka á sig meiri kostnaðarhækkanir. Til þess að hún geti gert það þarf hún að fá meiri tekjur og til að gera henni það kleift þurfa tekjur greinarinnar að sjálfsögðu að hækka.
    Það kemur fram í þeim orðsendingum sem fóru á milli ríkisstjórnar og Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna þar sem segir: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að samkeppnisstaða útflutningsgreina verði viðunandi á samningstímanum.`` Nú má hafa ýmsar skoðanir á því hvað sé viðunandi samkeppnisstaða útflutningsgreina. Ég held að allir geti þó verið sammála um að það er ekki viðunandi staða að þessi atvinnugrein haldi áfram að tapa. Það hefur verið mjög mikið tap í sjávarútveginum seinni hluta árs 1987 og allt árið 1988 og kjör okkar bötnuðu mjög mikið á þessum tíma án þess að grundvöllur væri fyrir því. Þetta kom ekki síst fram í versnandi stöðu útflutningsgreinanna. Það er vissulega alveg rétt að fjármagnskostnaður hefur hækkað mjög mikið og hefur verið þessum greinum ofviða, en það er þó ekki svo einfalt að það sé eina skýringin á stöðunni.
    Nú standa menn frammi fyrir því eins og undanfarna mánuði að tryggja það í fyrsta lagi að fiskvinnslan og sjávarútvegurinn haldi áfram með eðlilegum hætti. Ég minni á þá staðreynd að þrátt fyrir allt er atvinnugreinin víðast hvar í gangi þótt undantekningar séu þar á og hefur verið allgóð veiði að undanförnu. T.d. hefur vetrarvertíðin verið betri en oft áður. Þannig á sér stað mikil framleiðsla í landinu, en hins vegar er ljóst að atvinnugreinin má ekki halda áfram að tapa.
    Þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið og verið er að vinna að byggja á því í fyrsta lagi að skuldbreytingar eigi sér stað og það hefur mikið verið unnið hjá Atvinnutryggingarsjóði. Hlutafjársjóður hefur nýlega hafið sína starfsemi og hefur enn þá ekki afgreitt neitt mál, en það liggur fyrir að hann mun koma til aðstoðar allmörgum fyrirtækjum. Hins vegar er slík aðstoð til lítils ef fyrirtækin halda áfram að tapa. Þau verða að skila hagnaði til að greiða sínar skuldir til baka og að því þarf að vinna.
    Ég get tekið undir að það er ekki hægt að reikna með verulegum verðhækkunum á næstunni þótt vonandi muni þar eitthvað batna. Það mun t.d. skipta verulegu máli að birgðatími styttist því það hefur verið veruleg byrði á greininni að hún hefur þurft að liggja með verulegar birgðir langtímum saman og það

er að sjálfsögðu afar kostnaðarsamt þegar vextirnir eru jafnháir og raun ber vitni. Þótt annað gerðist ekki en birgðahaldstími styttist, sem ég held að sé ástæða til að ætla að sé að gerast, er það nokkur bót, en verðhækkanir ef einhverjar verða, sem vonandi verður, munu væntanlega koma fram í því að greiðslur Verðjöfnunarsjóðs muni þá lækka samsvarandi. Eitt af því sem nú liggur fyrir þinginu er frv. til l. um ráðstafanir vegna kjarasamninga, en í 1. gr. þess frv. er farið fram á heimild til að viðhalda greiðslum úr Verðjöfnunarsjóði út árið 1989, en þó þannig að þær lækki og falli niður um nk. áramót.
    Auðvitað liggur í þessum yfirlýsingum sú staðreynd að það skiptir miklu máli hvað atvinnugreinin fær fyrir tekjur sínar, þ.e. hvernig íslenska krónan er skráð, og auðvitað vita allir sem til þekkja að þegar efnt er til kostnaðarhækkana innan lands án þess að tekjur komi á móti mun það koma fram á gjaldmiðlinum. Þetta ættu Íslendingar að kunna og ættu að vera búnir að læra, en það virðist nú vera að menn læri aldrei þessa lexíu því að alltaf er verið að efna til kostnaðarhækkana með einum eða öðrum hætti. Þar á ríkið sína sök með sinni starfsemi, ekki aðeins nú heldur áður og í framtíðinni, og þeir sem semja um kaup og kjör á vinnumarkaði svo eitthvað sé nefnt þannig að fram hjá þessari staðreynd verður ekki gengið á næstu mánuðum.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fara ítarlega út í þessi mál nú vegna þess að ég vænti þess að einhver umræða verði um þetta mál þegar ráðstafanir vegna kjarasamninga verða teknar til umræðu. Ég tek undir það með hv. þm. að það er óheppilegt að vera að slíta umræðu sem þessa sundur sitt á hvað og taka hana upp óreglulega. Ég hafði ekki hugsað mér að fara nánar út í stöðu sjávarútvegsins að svo stöddu, enda skildi ég virðulegan forseta þannig að það ættu að hefjast aðrar umræður kl. 3 og því vart tími til að fara ítarlega út í þessi mál. En ég vildi þó að lokum taka fram vegna orða hv. þm. Pálma Jónssonar að ég hef aldrei lýst því yfir að ég hefði hugsað mér að ganga út og hengja mig og ég vænti þess að mér muni aldrei detta það í hug eða nokkrum öðrum því það er ekki til þess að ráða neina bót á málum að gera slíka hluti.