Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Mánudaginn 08. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég vil fyrst gera aðeins að umtalsefni grein sem birtist í Dagblaðinu 9. ágúst sl. sem ber yfirskriftina ,,Ríkisstjórnarhlé. Það vantar verkstjórann, segir Steingrímur``. Það er fyrirsögn greinarinnar og síðan segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ég hef einnig frétt það að forsrh. muni ekki koma til landsins fyrr en eftir 21. ágúst. Ég vil sem minnst um það segja. Við framsóknarmenn munum ekkert slaka á,,, sagði Steingrímur Hermannsson utanrrh. ,,Þið metið stöðuna þannig að ekki sé hægt að fara í frí``, er spurt. ,,Ég held að það sé voðalega erfitt að fara í frí núna fyrir mitt leyti, en það verður hver að meta stöðuna fyrir sig``, svarar utanrrh. Spurt er: ,,Má búast við því að ríkisstjórnin hefji undirbúning að efnahagsstörfunum fyrr en Þorsteinn kemur úr fríinu?`` Utanrrh. svarar: ,,Nei, ég held að það sé alveg útilokað mál. Það vantar verkstjórann. Ég vil sem minnst láta eftir mér hafa um þá hluti. Við vinnum. Við erum með daglega fundi núna og höfum skipað nefnd til að vinna úr því sem fram hefur komið þannig að við ætlum ekkert að fara í frí``, sagði hæstv. utanrrh. í ágústmánuði, núv. hæstv. forsrh.
    Það er eðlilegt að þetta sé rifjað upp nú. Við fengum þær fréttir nú upp úr átta að slitnað hefði upp úr samningum við kennara og Bandalag háskólamanna. Það liggur fyrir að útflutningsatvinnuvegirnir eru reknir með miklu tapi og er ekki að sjá að ríkisstjórnin hafi gert upp við sig hvernig hún hugsi sér að ljúka þessu þinghaldi. Það vantar verkstjórann. Þegar formaður Framsfl. fann að því að formaður Sjálfstfl. og forsrh. skyldi hverfa úr landi var þáv. hæstv. forsrh. erlendis þeirra erinda að fara í opinbera heimsókn til forseta Bandaríkjanna og er athyglisvert að ummæli utanrrh. þá birtast sama daginn og hæstv. forsrh. gekk á fund forseta Bandaríkjanna. Ég vil jafnframt rifja upp að sú heimsókn hafði verið ákveðin í maímánuði, en vegna erfiðleika í ríkisstjórninni sá hann sig knúinn til að slá þeirri heimsókn á frest og var auðvitað algerlega útilokað að hann gæti enn á ný afboðað opinbera heimsókn til Bandaríkjanna sem þá hefði verið tekið sem hrein móðgun við Bandaríkin. En það er til gamans, hæstv. forseti, að þegar ég frétti af síðara boði Þorsteins Pálssonar meðan hann var forsrh. sagði ég við hann að ný kreppa mundi koma í stjórnarsamstarfið sama daginn og hann gengi fyrir forseta Bandaríkjanna og það reyndist svo sannarlega rétt.
    Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu nú við þessa umræðu til að rifja upp þann samanburð á þeirri ríkisstjórn sem nú situr og síðustu ríkisstjórn. Hæstv. forsrh. mun vera erlendis. Mér er ekki alveg ljóst hverra erinda ( Gripið fram í: Að fá sér gúllas.) en ég geri ráð fyrir því að hann muni koma fljótt til landsins þannig að það verði hægt að ræða þessi mál við hann við 2. umr. þessa máls því að ástandið er þannig nú að ég held að nauðsynlegt sé að ríkisstjórnin taki sig saman í andlitinu.
    Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að vera viðstaddur

þessa umræðu og aðeins vekja athygli á því að við umræðurnar á laugardaginn lýsti hæstv. iðnrh. því yfir að lántökugjald hefði verið fellt niður af lánveitingum til skipasmíða, þeim eyrnamerktu lánveitingum sem Byggðasjóður hefur haft með að gera. Nú vill að vísu svo til að Byggðasjóði er alveg ókunnugt um að þessi ákvörðun hafi verið tekin og hefur það sem af er þessu ári greitt 28 millj. kr. í lántökugjald og þar af hefur Byggðastofnun innheimt hjá útgerðarmönnum vegna skipasmíða 8 millj. kr. Nú væri fróðlegt að fá upplýst hjá hæstv. fjmrh. hvernig á þessu megi standa, en ég vona að ástæðan sé sú að hæstv. fjmrh. geri sér grein fyrir því að atbeina Alþingis þarf til svo að hægt sé að fella lántökugjaldið af skipasmíðapeningunum af þeirri einföldu ástæðu að ég lagði fram brtt. á sínum tíma við frv. til l. til breytinga á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum á árinu 1989 og þá felldi deildin tillögu mína um að 6% lántökugjald félli ekki á þá peninga sem hér um ræðir þannig að deildin hefur fellt það að undanþiggja skipasmíðapeningana þessu lántökugjaldi og ég er ekki í nokkrum vafa um að ef rétt eru lesnar þær skýrslur sem Ríkisendurskoðun hefur verið að senda frá sér m.a. um framkvæmd búvörulaga komi mjög glöggt fram að það er mat Ríkisendurskoðunar að ráðherrar verði að hafa heimildir til að fella niður gjöld eða stofna til útgjalda þegar fyrir liggur skýr vilji Alþingis um hið gagnstæða. Ég held þess vegna að nauðsynlegt sé að breyta texta 2. gr. þannig að lántökugjald af skipasmíðafénu verði fellt niður. Það verður að koma skýrt fram í textanum.
    Ég vil jafnframt vekja athygli á því að t.d. Byggðasjóður hefur nú ákveðið lántöku sem svarar nær hálfum milljarði króna hjá Norræna fjárfestingarbankanum og það er alveg útilokað mál að hægt sé að hugsa sér að Byggðasjóður taki þessa peninga til landsins fyrir 1. júlí ef frv. verður samþykkt óbreytt og mundi þá leggja þetta 6% lántökugjald á viðskiptavini sína sem eru veruleg afföll fyrir ekki lengri tíma.
    Ég er í engum vafa um það, herra forseti, að þegar hæstv. ríkisstjórn hefur velt þessu máli fyrir sér og þegar hún gerir sér grein fyrir því hver verða viðbrögð stofnlánasjóðanna og annarra þeirra sem þurfa að taka erlend lán gerir ríkisstjórnin sér ljóst að þetta lántökugjald getur ekki orðið
tekjupóstur fram til 1. júlí. Það er auðvitað nauðungarlán ef einhverjir færu að taka á sig 6% afföll fyrir ekki lengri tíma, en einmitt þessar síðustu vikur og mánuði höfum við þingmenn verið að fjalla um að óheimilt sé að setjast sérstaklega að þeim sem eiga í miklum fjárhagslegum erfiðleikum, láta þá sæta afarkostum og það er í samræmi við málflutning ríkisstjórnarinnar og í samræmi við skýran vilja Alþingis á síðustu vikum að þvinga atvinnureksturinn ekki til að taka erlend lán með þeim afarkjörum, 6% afföllum, fyrir nokkrar vikur.
    Ég vil í öðru lagi, herra forseti, til þess að forðast misskilning taka fram að í sambandi við það sem ég hef áður sagt um gjaldþrotaskipti og þá hættu sem

m.a. stafar af því þegar um systurfyrirtæki er að ræða eða móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki að ég hef ekki haft nein sérstök dæmi þar í huga. Þó svo að mér hafi orðið á fyrir ógætni að nefna í nefnd í dag tvö fyrirtæki sem ég sé ekki ástæðu til að nefna hér gerði ég það vegna þess að ég vissi að í því sérstaka dæmi þar sem nú er gjaldþrotaskiptum að ljúka hefur ekki komið upp neinn grunur um eða nein ábending um að neitt óeðlilegt eða óheiðarlegt hafi átt sér stað. Ég tel nauðsynlegt að taka þetta fram vegna minnar fyrri ræðu og þar sem orð mín að öðru leyti gætu misskilist sem ég sagði í fjh.- og viðskn. og hafa annaðhvort misheyrst eða ég komist ógætilega að orði. Það liggur þá fyrir hér að dæmi það sem ég tók var tekið vegna þess að ég hafði ekki ástæðu til að ætla að í því sérstaka tilviki væri um neitt óheiðarlegt að ræða. Þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram.
    Ég vil svo vekja athygli á því, herra forseti, að 7. gr. eins og hún var orðuð í frv. tekur ekki á þeim vanda sem henni er ætlað að gera þar sem dæmi eru um að launafólk hafi orðið að bíða jafnvel svo mánuðum eða árum skiptir eftir uppgjöri í því tilviki að fyrirtæki verði gjaldþrota þar sem endanlegur úrskurður hefur ekki fengist fyrir skiptarétti og ég tel þess vegna nauðsynlegt að endurskoða efnisatriði þeirrar greinar, en skal ekki að öðru leyti gera það að umræðuefni.