Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, en vegna orða hv. 9. þm. Reykn. vil ég mótmæla því að ég hafi rangt fyrir mér eða að ég hafi misskilið frv. Það sem um er að ræða er að við höfum mismunandi viðhorf til þessara mála, til þessa atriðis, ég og hv. 9. þm. Reykn., eins og kom fram í hans máli. Það hefur aldrei hvarflað að mér að það væru neinar illar hvatir, hvorki hjá þingmönnum eða öðrum nefndarmönnum. Ég var aðeins að tala um grundvallarviðhorf til þess atriðis sem hér var fyrst og fremst verið að fjalla um, 27. gr. En mér fannst koma ansi kaldranalegt viðhorf fram í hans málflutningi þegar hann sagði að aldraðir eigi ekki afturkvæmt ef þeir lenda inn á hjúkrunardeild og þá sé það aðeins fyrir erfingjana að hirða peningana þeirra ef þeir eru ekki teknir til að greiða kostnað þeirra á hjúkrunardeildinni. Þetta finnst mér ekki gott viðhorf og ég mótmæli svona viðhorfum.