Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Það eru gríðarleg verkefni sem blasa við þjóðinni í endurbótum og uppbyggingu gamalla húsa í þessu landi. Í því sambandi nægir að minna á hús eins og t.d. Þjóðleikhúsið og Þjóðminjasafnið að ekki sé minnst á margvíslegar þjóðminjar úti um allt land sem óhjákvæmilegt er að verja fjármunum til þess að varðveita á komandi árum. Ef við viljum heita menningarþjóð verðum við að halda utan um þann arf sem birtist í þessum byggingum, þessum húsum og húshlutum. Það er óhjákvæmilegt og ég tel að það sé mjög mikilvægt forgangsverkefni.
    Við höfum á undanförnum áratugum lagt á það mikla áherslu hér á landi að reisa ný hús og nýjar byggingar og allt gott um það að segja. Og menn hafa gjarnan mælt sinn pólitíska árangur í húsum. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við það vegna þess að á þau er hægt að benda. Fyrir vikið hefur það farið svo að endurbætur, lagfæringar og viðhald á eldri mannvirkjum hefur verið vanrækt. Það er hægt að benda á mýmörg dæmi þess, Þjóðminjasafn og Þjóðleikhús og mörg fleiri dæmi.
    Sá sjóður sem hér er talað um að stofna á að hafa það meginhlutverk í fyrsta lagi að ljúka við byggingu þjóðarbókhlöðunnar. Þó að öllu fé hans verði varið til þessa verkefnis allra næstu árin gerir það ekki meira en að duga í þessu skyni. Síðan er sagt sem svo: Það á að taka á verkefnum eins og Þjóðminjasafni og Þjóðleikhúsi og Þjóðskjalasafni, að endurbæta það hús sem keypt hefur verið fyrir Þjóðskjalasafn. Allt þetta kostar hundruð og aftur hundruð milljóna króna. Síðan er líka sagt: Það á að verja fjármunum úr þessum sjóði í það að varðveita alls konar byggingar, hús og húshluta sem teljast til þjóðmuna. Og ég segi: Þegar þetta hefur verið gert er sjóðurinn tómur. Það er þannig. Og ég er þeirrar skoðunar að það sé rangt að vekja falskar vonir hjá því góða fólki sem á undanförnum árum hefur t.d. verið að hvetja stjórnvöld til þess að taka á því verkefni að reisa hér tónlistarhús. Það væri rangt að segja því góða fólki núna: Gerið þið svo vel. Þarna hefur verið stofnaður sjóður handa ykkur. Það er ekki verið að því. Jafnvel þó að það væri sagt fengist svo lítið úr þessum sjóði að það dygði svo sem ekki fyrir neinu. Ég held að við eigum að reyna að takmarka verkefni okkar við hina fjárhagslegu getu og ég held að þau verkefni sem þessum sjóði eru ætluð séu þegar ærin samkvæmt frv. eins og það liggur fyrir. Ég get því ekki, herra forseti, fallist á þá tillögu sem hér liggur fyrir frá hv. 2. þm. Reykv.