Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Kjartan Jóhannsson:
    Herra forseti. Það hefur víst farið fram allítarleg umræða um þessi mál þó að mér hafi ekki gefist tækifæri til að vera með í henni þegar hún var hvað heitust og merkilegust að því er mér skilst, a.m.k. gera menn mikið af því hér í kvöld að vitna hver í annan, sérstaklega um það sem þeir eru ósammála um.
    En ég verð að segja það fyrst að í þeirri gagnrýni sem kemur fram á þetta frv. og hjá þeim sem gagnrýni kemur fram hjá, þá finnst mér skorta mjög á að fram hafi komið tillögur um úrbætur. Það hefur gilt allan tímann. Mín skoðun er sú að núverandi húsnæðislánakerfi hafi mjög verulega galla og það þurfi ekki að fara mörgum orðum um það. Það er ekki gott kerfi þar sem menn þurfa að bíða 2--3 ár eftir því að fá lán og það er ekkert sem bendir til þess að það sé verulega að breytast. Þess vegna var auðvitað í þeirri nefnd sem fjallaði um málið lýst eftir öðrum tillögum. Þær tillögur hafa yfirleitt verið af því tagi að þær má taka saman undir fyrirsögninni að það ætti að sníða agnúa af núverandi kerfi. Og það komu fram fáeinar ábendingar af því tagi. Það varð að samkomulagi í nefndinni að margar þessara ábendinga voru teknar upp og þær voru í fyrstu greinum þess frv. sem hér var um fjallað og komu til móts við það sjónarmið að það væri unnt að sníða einhverja agnúa af núverandi kerfi.
    Ég hef að vísu sjálfur verið tiltölulega vantrúaður á að það bæri neinn verulegan árangur og í annan stað talið að í þeim aðgerðum eða aðgerðum af því tagi fælist aldrei lausn á því sem við er að stríða í þessu húsnæðislánakerfi. Menn hafa sagt að biðröðin mundi minnka. Allir útreikningar --- allt sem menn skoða um það, ef menn skoða það hlutlaust --- benda til þess að menn muni búa við álíka biðröð í mjög mörg ár til viðbótar í núverandi kerfi og það þrátt fyrir það að farið yrði í það að sníða af það sem menn hafa kallað agnúa.
    En kannski er ástæðulaust að vera að tala frekar um það því að deildin hefur þegar komist eiginlega að sömu niðurstöðu og ég í upphafi, að það mundi ekki skipta neinu meginmáli. Hins vegar finnst mér mjög einkennilegt ef menn tilgreina það í öðru orðinu að það þurfi að fara eftir ábendingum verkalýðshreyfingarinnar en hafa að hinu leytinu nýtt atkvæði sitt til þess að fella þetta út sem var þá það sem mátti teljast hið veigamesta í ábendingum verkalýðshreyfingarinnar um úrbætur.
    Ég held að þeir menn sem tala um að núverandi kerfi sé í lagi hafi ekki hugsað út í hvað það er þrautamikið fyrir fólk sem á í erfileikum að þurfa að bíða mjög lengi eftir láni. Og jafnvel þótt biðröðin styttist eitthvað, um einhverja mánuði, á næstu árum, þá eru æðimargir árgangar af fólki, ungu fólki, sem mundu líða verulegar þrautir fyrir það að það er engin önnur bærileg leið í núverandi kerfi en að setjast niður og bíða. Núverandi kerfi hefur líka marga aðra vankanta, úthlutun lánanna er ótengd fasteignaviðskiptum og það er ekki nokkur vafi á því að niðurgreiðslan á vöxtunum skapar óþarfa eftirspurn

eftir lánum og þess vegna nýtist lánsféð verr. Síðan má ekki gleyma því að núverandi kerfi er af því tagi að Byggingarsjóður ríkisins er á góðri leið með að fara á hausinn. Þetta er auðvitað grundvallaratriði. Og í nefndarstarfinu horfðu menn á þetta: Hvers vegna er þetta svona og hvernig er hægt að mæta þessu grundvallarvandamáli? Umframeftirspurnin, eftirspurn þeirra sem eiga verulegar eignir og leita eftir lánum að óþörfu vegna þess að vextirnir eru niðurgreiddir, lá auðvitað á borðinu. Það eru hins vegar líka búnar til eftirspurnarsprengingar í núverandi kerfi vegna þess að lánsúthlutun er ótengd fasteignaviðskiptum. Og það var út frá þessu, lélegri nýtingu á fjármagni, umframeftirspurn, tengslaleysi við raunveruleg fasteignaviðskipti, sem leitað var leiða sem uppfylltu þessi skilyrði. Jafnframt lá það fyrir að á Íslandi, frábrugðið öðrum löndum, lánuðu seljendur íbúða mjög lítið í þeim og skýringin var auðvitað einföld. Hún var sú að menn gátu ekki tekið þá áhættu með lífssparnað sinn að lána einstökum aðilum stóran hluta hans og þá varð að leita leiða til þess að menn gætu með öruggum hætti gert það. Þannig eru húsbréfin tilkomin og það er til þess að gera möguleg slík lán, gera seljendum íbúða mögulegt í rauninni að lána hluta af íbúðarverðinu, stærri hluta af íbúðarverðinu. Og ríkisábyrgðin er til þess að skapa trú á því, traust, að slík lánsviðskipti séu möguleg og á grundvelli hennar og þess að hér sé um seljanleg bréf að ræða er forsenda fyrir því að við fáum þá innri fjármögnun í húsnæðislánakerfið sem okkur hefur vantað.
    Í umræðunni um þetta mál hafa sumir gert mikið úr þessum ábyrgðum ríkissjóðs. Ég held að það sé grundvallarmisskilningur. Þetta er nauðsynlegt til þess að koma kerfinu af stað alla vegana og menn ættu þá að hugsa út í hversu miklum ábyrgðum ríkið er í í núverandi kerfi og ef menn vilja útauka núverandi kerfi, ekkert yrðu ábyrgðinar minni þá leiðina heldur. Það er allt með ríkisábyrgðum. Ég held að menn ættu líka að hugsa út í það að í þessum ábyrgðum ríkisins felst langtum, langtum minni áhætta en í þeim ríkisábyrgðum sem yfirleitt er verið að afgreiða hér. Þetta er mjög dreifð áhætta og það er nú einu sinni svo að þetta venjulega fólk stendur yfirleitt langtum betur í skilum en fyrirtækin og þeir sem eru í hinum miklu viðskiptum. Þess vegna finnst mér ástæðulaust að vera að gera mikið úr því að þessar ábyrgðir séu
einhver sérstök áhætta fyrir ríkið, áhætta sem þurfi að takmarka með einhverjum sérstökum hætti. Áhættan er hverfandi í heild sinni.
    Um hríð fór fram þó nokkur umræða um það að það yrðu svo mikil afföll í þessum viðskiptum. Þetta var grundvallarmisskilningur vegna þess að hið skráða gengi bréfanna liggur nákvæmlega fyrir á hverjum tíma og þegar menn gera fasteignaviðskipti. Þess vegna eru afföllin engin. Afföllin eru engin vegna þess að menn hafa þetta beinlínis á borðinu og það eru meira að segja sérstök ákvæði í þessum lögum sem tiltaka upplýsingaskyldu um kaup og sölu á bréfunum og að þetta gangi í gegnum verðbréfaþing til þess einmitt að tryggja að menn séu upplýstir og

að það sé ekki verið að bjóða upp á neina áhættu í þessum efnum.
    Einn boðskapurinn hefur verið sá að fasteignaverð mundi þjóta upp úr öllu valdi ef þetta húsbréfafrv. yrði að lögum. Ég held að þessu sé einmitt þveröfugt varið og það kemur reyndar fram í álitum frá Þjóðhagsstofnun og fleirum að þetta muni hafa góð áhrif á fasteignaviðskipti vegna þess að með núverandi kerfi er verið að stuðla að óeðlilegum viðskiptum, óþarfa viðskiptum með niðurgreiddu lánsfé og það hefur spennt og mun spenna upp markaðinn. Það kerfi sem hér er verið að innleiða, húsbréfin, mun draga úr spennu. Það mun draga úr þessum óþarfa viðskiptum, þau munu reyndar hverfa og þessi óþarfa eftirspurn sem við erum með í kerfinu, þannig að kerfið sjálft, húsbréfakerfið, stuðlar beinlínis að jafnvægi í fasteignaviðskiptum og að eðlilegra verði á fasteignum en er í núverandi kerfi.
    Ég heyrði það hér áðan að hv. þm. Geir H. Haarde setti einhverjar spurningar við peningamálastjórn og eitthvað því um líkt og undarlegt nokk þá sýndist mér eða heyrðist og sýndist reyndar á nál. að hann hefði orðið fyrir einhverjum áhrifum af gulum bæklingi sem var gefinn hér út af einhverju fyrirbæri sem kallar sig Efnahagsumræðuna. Mig undrar það eftir að hafa lesið þennan bækling að hann skuli hafa valdið óróa í hugum þingmanna og langmest undrar mig ef hann skyldi hafa valdið óróa í huga hv. þm. Geirs H. Haarde vegna þess að ég fæ ekki betur séð en að aftur og aftur í þessum bæklingi séu öll venjuleg, eðlileg efnahagslögmál gjörsamlega á hvolfi. Ég held að ekki sé nokkur vafi á því að öllu furðulegri smíð um efnahagsmál og öllu furðulegri meðferð á eðlilegum efnahagslögmálum hafi tæpast komið fram á seinni árum eða alla vega telst það í flokki með því sem furðulegast er í þessum efnum. Og ég trúi því ekki að hv. þm. Geir H. Haarde hafi snúið sinni grundvallarmenntun svo á hvolf að hann hafi látið þennan bækling hafa veruleg áhrif á sig. Því ætla ég ekki að trúa. En það er auðvitað merkilegt í þessari umræðu ef þessi bæklingur á að vera eitthvert grundvallarstefnuplagg en menn horfi alveg fram hjá því að hagfræðingar eins og Tór Einarsson, Sigurður B. Stefánsson, Már Guðmundsson, Bragi Árnason, Þorvaldur Gylfason, Ólafur Davíðsson og Yngvi Örn Kristinsson hafa mælt með húsbréfafrv. og talið til þá efnahagslegu kosti sem það hefur. Ég veit ekki betur en að þetta sé verulegur partur af virtustu hagfræðingum hér á landi. Ég veit ekki betur. Og ég held að það hefði verið nær að menn hefðu tekið svolítið betur eftir því sem þeir hafa haft um þetta að segja.
    En áður en ég fer nánar út í þessi mál tel ég alveg nauðsynlegt að menn hafi það í huga að húsbréfin munu styrkja hér markað fyrir langtímabréf, markað sem hefur verið mjög veikur og vanburða og hefur reyndar einkennst af því að ríkisvaldinu hefur verið stillt upp við vegg, félagsmálaráðherrunum, hvort sem þeir hétu Alexander Stefánsson eða Jóhanna Sigurðardóttir, fjármálaráðherrunum, hvort sem þeir

hétu Þorsteinn Pálsson, Jón Baldvin eða Ólafur Ragnar. Þeim hefur verið stillt upp við vegg eins og hér tíðkast um orðbragðið, þ.e. þeir hafa ekki haft neina samningsstöðu og orðið að semja um það sem þeir voru þvingaðir til í vöxtum í samningum við lífeyrissjóðina og það átti svo að vera stefnumarkandi um það hvað væru eðlilegir vextir á langtímaskuldbindingum. Það var ekkert til. Það var ekkert raunverulegt tæki til til þess að taka mið af í þeim efnum og það hefur vantað. Með húsbréfakerfinu þá gefast hins vegar möguleikar til þess að fá eðlilegan markað á langtímaskuldbindingu frekar en að menn setjist niður í þvingaðri stöðu til þess að búa til einhverja vexti sem hafa auðvitað fyrir bragðið orðið langtum hærri en eðlilegt er. Ég held að það sé líka rétt að menn hyggi að því að slíkur virkur markaður á langtímaskuldbindingum gefur Seðlabankanum auðvitað einstakt tækifæri í peningamálastjórn, tækifæri sem hann hefur ekki núna, nefnilega tækifæri til þess að vera virkur á þessum markaði og hafa þar áhrif á vextina ef hann svo kýs. Það er auðvitað einn af kostum þessa kerfis. Og þegar menn vitna til þess að peningamálastjórn verði erfiðari við þessar aðstæður veit ég ekki beinlínis hvað menn eru að fara vegna þess að þarna gefst tæki sem hefur vantað.
    Sumir hafa haft stór orð um það að húsbréfakerfið væri mjög þensluhvetjandi. Ég spyr sjálfan mig: Húsbréfakerfið gefur möguleika til þess að selja bréfin ef menn svo kjósa til þess að verða sér úti um reiðufé, í sambandi við fasteignaviðskipti eða hvað sem er. En hvernig er kerfið núna? Nú er það svo að menn verða að skaffa sér reiðuféð, þessi 75--80%. Ég get ekki séð annað en
að núverandi kerfi sé meira sprengistoff, sé frekar þensluhvetjandi en húsbréfakerfið. Og í þessu sambandi verða menn auðvitað að hafa það í huga að þessi fasteignaviðskipti, 4000--5000 talsins, sem við erum með í landinu á ári hverju, eru öllsömul fjármögnuð með einhverjum hætti. Hér er verið að tala um að koma þessu í eðlilegan farveg, koma málunum í þannig farveg að þetta geti gengið eðlilega fyrir sig. Ég held að þeir sem eru að hugsa um einhvers konar peningasprengingar í þessu sambandi hafi ekki gert sér grein fyrir því að auðvitað mun vaxtastigið vinna á móti á hverjum tíma, þannig að það er sveiflujöfnun í þessu kerfi. Og ef hætta verður á einhverri sprengjumyndun eins og sumir eru að tala um munu bremsurnar fara í gang, augljóslega, en þar að auki eru hér tvöfaldar öryggisnælur, ef ég má orða það svo, með viðskiptavaka sem eiga að sjá til þess, bæði Byggingarsjóður ríkisins og Seðlabankinn, að þetta geti gengið eðlilega fyrir sig og að sveiflur verði litlar og væntanlega hverjar þær sveiflur sem yrðu á húsbréfamarkaðinum væru í takt við aðrar sveiflur í þjóðfélaginu. Mér er alveg fyrirmunað að skilja það, ef sú hagfræðikenning á að gilda núna allt í einu, bara varðandi þetta, að hærri vextir verði allt í einu þenslumyndandi þegar hingað til hefur verið talið að einmitt það að vextirnir væru eitthvað hærri væri til að slá á þenslu og auðvitað er það hin algilda kenning

og gildir í þessu tilviki eins og öðrum og húsbréfamarkaðurinn verður ekkert úr tengslum við allt annað.
    Sumir segja að hér verð feikileg peningamyndun. Í því er náttúrlega fólginn margháttaður misskilningur. Í fyrsta lagi eru húsbréfin ekki peningar. Þau eru ekki peningar samkvæmt eðlilegum skilningi þess orðs og jafnvel þó að þau séu gjaldgeng eins og ríkisskuldabréf minni ég á það í fyrsta lagi að ríkisskuldabréf hafa hingað til ekki verið talin til peninga og ef menn ætla að fara út í skilgreiningar af því tagi að vegna þess að hægt sé að selja þetta þá séu þetta peningar, ja, þá er bara allt peningar, bílar og málverk og hvað sem nöfnum tjáir að nefna. Skilgreiningar af þessu tagi eru því náttúrlega gjörsamlega út í hött, gjörsamlega út í hött.
    Nei, ég held að það sé alveg augljóst að hin hagrænu áhrif af húsbréfakerfinu verði sveiflujafnandi, verði til þess að hér verði eðlilegri markaður með langtímaskuldbindingar, muni verða til þess að vextir muni fara lækkandi þegar fram í sækir og heildaráhrifin muni verða í þá átt, ekki nokkur vafi.
    Þessi umræða hér í kvöld hefur kannski fyrst og fremst snúist um vextina og einhverja samninga um vexti milli flokkanna. Ég ætla bara að segja það um það mál að ég tel að það sé mjög óheppilegt og óvarlegt ef á að vera verulegur vaxtamunur í eldra kerfinu og hinu nýja. 0,5--1% getur sjálfsagt gengið, en ef á að vera einhver vaxtamunur að ráði held ég að það hafi mjög óheppileg áhrif. Hvernig menn hafa rætt þetta inni í einstökum flokkum hef ég ekkert um að segja.
    Á sama hátt þegar menn eru að tala um að setja einhvers konar þak á eða takmarkanir er það mín skoðun að það sé langtum skynsamlegra að fara hægt af stað, sjá til hvernig kerfið reynist, frekar en að búa sér til einhverjar tölur fyrir fram, af þeirri einföldu ástæðu að það gerist venjulega tvennt með þessar hámarkstölur, annaðhvort sprengja menn þær utan af sér, menn reka sig upp undir þær og allt gengur með skrykkjum, ellegar menn hafa tilhneigingu til þess að líta svo á að þeim sé nauðsynlegt að ná þessu hámarki og að það verði að nýta það. Nei, hin aðferðin er áreiðanlega skynsamlegri, að fara rólega af stað og sjá hvernig kerfið þróast og það hefur alltaf legið fyrir í málinu að þannig yrði að farið.
    Herra forseti. Ég skal fara að stytta mál mitt, en ég held nú að menn verði að segja að það sem hér er á ferðinni geti verið til mikilla bóta. Ég tók eftir því að hv. þm. Geir H. Haarde og einhverjir fleiri, hv. 1. þm. Suðurl., gerðu mikið úr því að málinu hefði verið stórspillt. Ég tel nú að svo sé ekki en staðreyndin í málinu sé auðvitað sú að það hafi alltaf verið hægt að spilla þessu kerfi og muni alltaf vera hægt af þeim sem vilja, hvernig svo sem frá lögum er gengið, en hitt sé líka alveg ljóst að eins og þetta lagafrv. liggur nú fyrir geti skynsöm ríkisstjórn látið kerfið njóta sín og fólkið í landinu njóta þess.