Könnun á hagkvæmni Hvalfjarðarganga
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir umfjöllun þessa máls hér í þinginu nú. Ég tek undir það sem fyrirspyrjandi sagði að vitaskuld tengist framkvæmd eins og þessi engan veginn vegáætlun. Hér er væntanlega verið að fara eftir þeim vonum sem við tengjum við þetta mál, með því að Sementsverksmiðja ríkisins og Járnblendiverksmiðjan, fyrirtæki sem ráðherrann nefndi hér, hafa verið að fara inn á nýja braut, og vitaskuld þarf eins og ráðherrann nefndi að hafa ákveðinn tíma til að skoða það mál. En ég held að það sé mjög áhugavert og eins og nú lítur út fyrir og eftir þeim áætlunum sem þegar hafa verið gerðar að þetta verkefni sé mjög arðbært, þá mundi ég hvetja mjög til þess að sá tími sem færi í undirbúningskönnun á þessu yrði styttur svo sem kostur er, á meðan þeir aðilar sem hafa sýnt málinu áhuga eru tilbúnir að fara í þessa framkvæmd. Það getur verið að ef sá tími sem fer í að skoða það verður of langur þá minnki áhugi þeirra. Ég vil sem sé hvetja ráðherra til þess að skoða þetta mál sem fyrst og vitaskuld þarf að gera það mjög gaumgæfilega, en við megum ekki eyða allt of löngum tíma í þá könnun.