Efling löggæslu
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flm. fyrir að leggja fram þessa till. til þál. og get ég stutt hana svo langt sem hún nær. Hins vegar er hún mjög stutt og felur mjög lítið í sér. Hún er aðeins á þessa leið:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að grípa nú þegar til ráðstafana er feli í sér eflingu löggæslu í landinu.``
    Því miður er þetta mjög loðið orðalag og þarna er ekki verið að taka á hvar þörfin er og hvað á að efla. ( GHG: Það kom fram í greinargerð og ræðu frsm.) Ég las greinargerðina og er búinn að kynna mér þá skýrslu sem var lögð hérna fram frá Lögreglufélaginu og það er rétt að þar koma ýmsar ábendingar, en svona orðalag í þáltill. segir mjög lítið. Þess vegna hefði mér fundist að það mætti fylla þetta betur út og taka á þeim þáttum sem flm. telja að þurfi að bæta.
    Í mínum huga er það aðalatriðið í því sem gera þarf varðandi lögregluna að það þarf að bæta skipulagninguna. Oft og tíðum finnst manni að henni sé mjög ábótavant og þá sérstaklega þegar grípa þarf til skjótvirkra aðgerða og fara í gegnum mjög langt ferli til þess að vinnubrögðin komi fram. Ég veit ekki til þess að það séu til lög um skipulag lögreglunnar. Því finnst mér aðalatriðið núna að það verði tekið á því hvernig á að koma því í rétt horf og einnig hvaða heimildir lögreglan hefur til þess t.d. að rannsaka brot og skera úr öðrum ágreiningi sem oft kemur upp því að þetta eru mjög vandasöm störf sem hvíla á lögreglunni og hún þarf oft og tíðum að taka ákvarðanir á staðnum þar sem hún er hverju sinni.
    En ég vil líka koma inn á skipulagsbreytingar. Mér hefur skilist að lögreglustjórinn í Reykjavík væri lögreglustjóri yfir landið án þess að það komi skýrt fram í lögum eða öðru, hann sé allsherjarlögreglustjóri yfir landið og geti gefið skipanir eftir því sem hann vill o.s.frv.
    Það sem eflaust knýr hv. þm. til að leggja þáltill. fram er skýrslan sem er fskj., skýrslan sem lögreglumenn sömdu og tóku þar út starfsemi sína. Þar kemur mjög margt fróðlegt fram um hverju sé ábótavant hjá lögreglunni og sérstaklega lögreglunni í Reykjavík. Ég ætla ekki að fara yfir þessa skýrslu. 1. flm. hefur farið nokkuð mörgum orðum yfir það og get ég tekið undir þá áherslu sem hann lagði á hana í sinni ræðu. En sérstaklega vil ég taka á þætti ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar. Það er t.d. mjög athyglisvert hvernig skipulagi þeirra mála er háttað.
    Hér í Reykjavík er sérstök deild ávana- og fíkniefna sem heyrir undir lögreglustjórann í Reykjavík og á að hafa samkvæmt því aðeins lögsögu í Reykjavík. Úti á landi eru engar sams konar deildir heldur fara almennir lögreglumenn með vald hver í sínu umdæmi og þá lögreglustjóri þess umdæmis sem er yfirleitt bæjarfógeti eða sýslumaður. Gerist það t.d. að upp kemur smyglmál með fíkniefni austur á fjörðum eða vestur á fjörðum eru einu mennirnir sem eru tiltækir til að sinna rannsóknarstarfi ávana- og fíkniefnadeildin í Reykjavík. Þeir hafa fagþekkingu á þessu sviði. Þeir geta ekki rannsakað þessi brot nema

fá leyfi viðkomandi bæjarfógeta. Neiti hann um leyfi verður ekki tekið almennilega á þessum málum. Ekki ætla ég að gera lítið úr starfi þeirra manna sem eru úti á landi og veit að þeir reyna að vinna sín verk af kostgæfni. Hins vegar vill stundum verða árekstur þegar ekki er vel skilgreint hvaða verksvið eða valdsvið hver hefur. Þess vegna mundi mér finnast eðlilegt að það verði stofnuð deild, jafnvel innan rannsóknarlögreglunnar, sem sér um ávana- og fíkniefni og hún hafi lögsögu um allt landið. Þarna er um mjög erfiðan og flókinn málaflokk að ræða og vandamálin vita allir um. Til þess að stemma virkilega stigu við þessu vandamáli þarf að hafa mjög virkt eftirlit.
    En ég þakka flm. fyrir að hafa lagt fram þessa till. þó hún sé, eins og ég nefndi í upphafi, ekki mjög vel skilgreind, hvaða þætti ætti að efla, og fagna ég því að þáltill. er lögð fram.
    Það er eitt sem ég vil nefna samt að lokum. Það er hvernig lögreglumenn hafa því miður orðið fyrir árásum bæði fjölmiðla og almenningsálits út af því að það hefur innan þeirra raða verið einn og einn sem hefur gerst offari í starfi. Þá vill það oft vera þannig að öll lögreglustéttin er dæmd. Þetta er eins og að dæma skóginn út frá einu tré.
    Fleira hef ég ekki um þetta að segja að sinni, en ég vona svo sannarlega að það megi efla löggæsluna og að framkvæmdarvaldið taki sig verulega á í þeim efnum, sérstaklega dómsmrh., og skipi nefnd til að fara vel ofan í þessi mál.