Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Umræðan hófst með því að fyrirspurnum var beint til þeirra ráðherra sem kjaradeilan helst varðar og ég hafði vænst þess að einstakir ráðherrar mundu verða við umræðuna. Sömuleiðis hafði ég vænst þess að einstakir ráðherrar mundu svara þeim athugasemdum sem fram hafa komið í umræðunni en svo er ekki. Þeir hafa kosið að láta þögnina tala fyrir sig. Mig minnir að Björn Sigfússon segi í formála Ljósvetningasögu eitthvað á þá leið að þögnin segi oft mikið þó hún sé ekki einhlít í smáatriðum. Eins hygg ég að sé um þessa þögn hér núna að hún segi auðvitað mikið um rökþurrð ríkisstjórnarinnar og vondan málstað í þessu máli, að ráðherrarnir kjósa fremur að hitta blaðamenn hér frammi á gangi en standa fyrir sínu máli í þingsölum. Það er því miður að verða eitt af höfuðeinkennum umræðna hér á hinu háa Alþingi að það er erfitt að draga ráðherra til ábyrgðar því þegar þrengist um þá í þingsölunum hlaupa þeir út og leita uppi fréttamennina sem eru eins og flugur í kringum blóm hér á hinu hv. Alþingi. En svo er um þessa umræðu að ráðherrar hafa kosið að svara ekki þeim athugasemdum sem fram hafa komið.
    Það hafa, hæstv. forseti, ýmsir hlutir skýrst í umræðum nú síðustu daga um eðli þeirra kjaradeilna sem nú standa yfir og eðli þeirrar launastefnu sem núverandi ríkisstjórn fylgir. Frummælandi, hv. 6. þm. Reykv. Guðrún Agnarsdóttir, varpaði í upphafi máls síns fram þessari spurningu: Hvernig stóð á því að umræður um kjaramál, samningaviðræður, drógust svo mjög á langinn? Þetta er í rauninni sú spurning sem öll þjóðin spyr núna, bæði þeir sem kjaradeilan varðar beint og eins aðrir þegnar þessa þjóðfélags. Og hæstv. fjmrh. gaf svarið. Honum hafði láðst að skipa samninganefnd ríkisins í tíma. Hann talaði um það hér áðan að hann hefði tekið inn nýtt fólk í samninganefnd ríkisins. Það hefði tafið fyrir því að samningaviðræður gætu hafist. Síðan talaði hann um það í löngu og fjálglegu máli hversu mjög það reyndi á einstaklingana að standa í samningaviðræðum, það reyndi á þolinmæði fjölskyldu, konu og barna eða eiginmanns, sem auðvitað á jafnt við um samninganefnd ríkisins og miklu fremur og kannski enn þá frekar um samninganefnd þeirra manna sem hafa átt í kjaradeilum við ríkið nú á þessum vetri. Þess vegna drógust samningaviðræður á langinn. Þess vegna var málefnatilbúningur af hálfu ríkisstjórnarinnar illa undirbúinn að hæstv. fjmrh. hafði látið undir höfuð leggjast að skipa samninganefnd ríkisins í tíma og það olli því að dómi hans sjálfs að samningaviðræður gátu ekki hafist á réttum tíma.
    Næst hljótum við að velta fyrir okkur hvernig á því stóð að til verkfalls háskólamenntaðra manna þurfti að koma. Hæstv. ráðherra sagði hér áðan í sinni ræðu að ríkisstjórnin hefði tekið þá ákvörðun að gerð yrði úrslitatilraun til að leysa deiluna um síðustu helgi. Fjórum mánuðum eftir að deilan hafði hafist, þá fyrst kom ríkisvaldið fram með einhverja þá tillögu sem var í líkingu eða sambærileg við þá kjarasamninga sem

gerðir höfðu verið við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. En spurningin er: Hvernig stóð á þeirri samningsgerð? Ekki vofði verkfall yfir hjá þeim hópi ríkisstarfsmanna. Samt sem áður urðu þeir samningar skyndilega til, alllöngu áður en verkfall háskólamenntaðra manna hófst. Maður hlýtur að spyrja sjálfan sig: Hvað var það sem vakti fyrir hæstv. fjmrh. með því að hafa uppi þá málsmeðferð sem ég hef nú lýst? Við vitum það að þeir hafa hrósað sér af því, bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh., innan þings og utan, að þeir eigi marga vini í röðum helstu forustumanna Bandalags háskólamenntaðra manna og það má raunar segja að þetta viðhorf þessara tveggja manna komi mjög glöggt fram í viðtali við menntmrh. í Þjóðviljanum í dag. Þá er hann spurður af blaðamanni Þjóðviljans: ,,En er þetta ekki líka erfið staða fyrir Alþb. sem hefur lýst því margoft yfir að kjör opinberra starfsmanna séu alls ekki nógu góð?`` Og hæstv. ráðherra svarar, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þetta er mjög erfið deila fyrir Alþb. Það reynir nú kannski fyrst verulega á flokkinn hvort hann dugar í átökum af þessu tagi. Að þessu leytinu til þá getur svona lota verið holl fyrir flokkinn ef menn hafa vit á því og þrek að draga af henni réttar ályktanir þegar deilan er búin.`` Þetta eru mikil vísdómsorð. Og í þeim felst að sjálfsögðu viss áminning til þeirra stuðningsmanna þessara tveggja ráðherra sem eru orðnir vanir því í innanríkisdeilum Alþb. að þessir tveir menn geti komið á síðustu stundu þegar uppreisn blasir við og kæft í fæðingunni. En nú tókst ekki eins vel til. Og hvers vegna ekki? Vegna þess að háskólamenntaðir opinberir starfsmenn fundu að hæstv. fjmrh. gekk ekki að samningsborðinu með þeim af neinni alvöru. Á sama tíma og hann þóttist vera að reyna að leysa deiluna við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn var hann öðrum þræði í samningaviðræðum við annan hóp ríkisstarfsmanna og hugsaði sér að ganga frá því samningsborði þannig að þar hefðu hinir háskólamenntuðu menn uppskrift að samningunum sem hann væri reiðubúinn til að ganga að.
    En þá er spurningin: Um hvað voru þá þeir samningar og hvers eðlis voru samningarnir sem hæstv. fjmrh. gerði við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja? Hæstv. viðskrh. og hæstv. sjútvrh. felldu dóm yfir þeirri samningsgerð á fundi
Ed. í gær. Þá sögðu báðir þessir menn að fólk hefði getað sagt sér það sjálft eftir þá samninga sem gerðir voru á hinum frjálsa vinnumarkaði að til gengisfellingar og gengissigs hlyti að koma. Og við munum það að í Sþ. tók hæstv. sjútvrh. það jafnframt fram að ef þeir samningar gengju yfir hinn almenna vinnumarkað hlytu þeir að hafa í för með sér röð verðhækkana á næstu vikum og mánuðum. Þetta voru með öðrum orðum dæmigerðir verðbólgusamningar. Og ef við spyrjum okkur um leið hvernig ástandið er í landinu nú og hvers vegna svo illa gengur og gekk að ná samningum við Bandalag háskólamenntaðra manna liggur svarið e.t.v. í því að síðan í júnímánuði fyrir einu ári höfðu laun manna einungis hækkað um

1,5% og nú standa sakir þannig að verðbólgan hér á landi frá áramótum er í kringum 30%. Sú uppskrift að samningum sem hæstv. fjmrh. gerði við BSRB, ef Bandalag háskólamenntaðra manna hefði gengið að þeim samningum óbreyttum, hefði með öðrum orðum þýtt að þeir hefðu samið um kjaraskerðingu. Það var betri kostur fyrir Bandalag háskólamenntaðra manna að engir samningar hefðu verið gerðir við einn né neinn, en á hinn bóginn hefði verið reynt að fara þá leið að slá á verðbólguna og draga til baka margar þær álögur sem ríkisstjórnin setti á þjóðina nú um síðustu áramót, bæði með beinum og óbeinum hætti. Þetta er bakgrunnurinn að þessum samningum, bakgrunnurinn að þessari deilu, að hæstv. fjmrh. þóttist sjá nokkra leiki fram í tímann. Leikfléttan gekk ekki upp og nú situr hann eftir með sárt ennið.
    Staðreyndin er sú að sú úrslitatilraun sem ríkisstjórnin reyndi að gera og sagðist vilja gera um síðustu helgi og fyrir síðustu helgi hefði betur verið gerð fjórum vikum áður í þann mund sem verkfall Bandalags háskólamenntaðra manna var að skella á. Það var sú rétta stund til að láta reyna á það til þrautar hvort samningar gætu tekist milli þessara aðila.
    Það var athyglisvert þegar hæstv. forsrh. tók hér til máls fyrr í dag að hann skyldi lýsa því yfir að nú væri rétt að reyna að leita samninga eftir óformlegum leiðum og talaði skýrt um það að hann teldi ekki skynsamlegt að efna til samningafundar með formlegum hætti nema hann þættist sjá fyrir enda deilunnar. Það er eðlilegt að hæstv. forsrh. tali með þessum hætti, eins mikil harka og hlaupið hefur í þetta mál eftir þær miklu yfirlýsingar sem gengið hafa af munni hæstv. forsrh. á ýmsum tímum í þessari kjaradeilu.
    Það er líka eftirtektarvert að íhuga hvert sé síðasta innlegg hæstv. menntmrh. til deilunnar. Hann er spurður að því af blaðamanni Þjóðviljans á hverju strandi. Hann er spurður að því á hverju strandi í þessari kjaradeilu. Og hæstv. menntmrh. svarar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég held að það sé alveg ljóst að Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna verður að fara að setja lendingarhjólin niður. Það er jú venjan í kjaradeilu að menn átta sig á því að þeir eru með tiltekna óskastöðu, fá að lokum tiltekna niðurstöðu, mætast einhvers staðar á miðri leið. BHMR verður að átta sig á því að þeir verða að fara að finna flugvöllinn, a.m.k. setja á sig öryggisbeltin og setja niður lendingarhjólin.``
    Þetta er kveðja menntmrh. til kennara. Þetta eru skilaboð hans til háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Með þessum hætti talar menntmrh. niður til þessara stétta í Þjóðviljanum í dag.
    Það var athyglisverð spurning sem frummælandi varpaði fram hér í máli sínu í upphafi þessarar umræðu þegar hann spurði: ,,Er það staðreynd að verkfallsvopnið bítur síður á ríkið en atvinnurekendur?`` Auðvitað hljótum við að draga þann lærdóm af þessari kjaradeilu. Ríkisstjórnin hefur ekki lagt sig fram. Hún á ekki sömu hagsmuni í húfi og

einstök fyrirtæki. Þessi kjaradeila horfir allt öðruvísi við þeim mönnum sem halda um samningamálin hjá ríkisvaldinu heldur en hjá atvinnurekendum sem verða beinlínis fyrir fjárhagslegu tjóni eftir því sem deilan stendur lengur, en það margvíslega tjón sem þessi kjaradeila nú veldur, bæði því unga fólki sem ekki getur lokið sínu skólaári, fólki sem þarf að leita sér lækninga, mönnum sem engan samningsrétt hafa í sínum höndum en geta ekki rekið fyrirtæki sín með eðlilegum hætti, fólki sem ekki fær sínar bætur greiddar. Allt þetta fólk stendur auðvitað álengdar og hefur engin tök á því með einum eða neinum hætti að beita sér fyrir því að samningar takist. Lægst seildist hæstv. fjmrh. þegar hann varpaði þeirri spurningu að þingmönnum Kvennalista hver eigi að vera munurinn í krónutölu á þeim kjarabótum sem Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna eigi að fá annars vegar og hins vegar hver eigi að vera hin sérstaka launahækkun sem kennarar eigi að fá næstu þrjú til fjögur ár.
    Hæstv. fjmrh. hefur ekki gefið þingflokkum í stjórnarandstöðunni skýrslu um þessar samningaviðræður. Hann hefur heldur ekki gefið Alþingi skýrslu um það hvernig þessar samningaviðræður hafa gengið. Ég hygg á hinn bóginn að þessi deila sé komin á það alvarlegt stig að óhjákvæmilegt sé fyrir stjórnarandstöðuflokkana, þingflokka stjórnarandstöðunnar, að krefjast þess af ríkisstjórninni að hún gefi stjórnarandstöðunni skýrslu um samningaviðræðurnar eins og þær hafa gengið. Þeir sem hér eru inni sjá á hinn bóginn hvernig þessi ríkisstjórn vinnur. Ráðherrarnir eru hvor ofan í öðrum eins og ástfangnir kettir í staðinn fyrir að reyna að gera grein fyrir málum sínum hér á hinu háa
Alþingi.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh., af því að hann hefur verið að tala um hina sérstöku launahækkun sem hann vill láta kennara og háskólamenntaða menn njóta þrjú til fjögur næstu árin og hann krefur aðra svara um það hvernig sú hækkun eigi að vera og hversu mikil: Hvað hefur hann boðið fram í þessu efni? Hvert hefur verið boð hans til Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, til kennara og annarra háskólamenntaðra manna, um hugsanlega launahækkun umfram aðra ríkisstarfsmenn á næstu þremur til fjórum árum? Og ég vil líka spyrja hæstv. fjmrh. hvort það var einn liðurinn í samningsgerð hans við BSRB að hann mundi vera reiðubúinn til að marka þá launastefnu af hálfu ríkisvaldsins að Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna ætti að fá sérstakar umframlaunahækkanir á næstu þremur til fjórum árum, ef hann réði, þegar þetta ár er liðið. Er það í raun og veru í hnotskurn sú láglaunastefna sem hann var að hrósa sér af hér um daginn þegar hann biðlaði hvað mest til Kvennalistans? Hann setti hér á blað til mín: lág eins stafs prósenta sem háskólamenntaðir menn eiga að hans mati að fá á ári umfram það sem aðrir starfsmenn í þjónustu ríkisins hafa. 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9. Þetta er eins stafs prósenta. Það er svolítill munur á, einkanlega eftir fjögur ár. En það er líka

athyglisvert að um leið og þessi ráðherra Alþb. talaði um launastefnu til langs tíma og sömuleiðis hæstv. menntmrh., þá hafði hæstv. forsrh. þá skoðun á slíkum langtímasamningi að ekki væri hægt að semja um verðtryggingu í slíkum samningi, sem þýðir auðvitað um leið að það er ekki hægt að ganga að samningi til langs tíma, ef þeir sem gera samninginn hafa enga verðviðmiðun um það sem í slíkum samningi felst. Þess vegna er slíkur samningur í sjálfu sér ekki virði þess pappírs sem hann er skrifaður á. En hitt stendur eftir, að hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að á þessu ári sé hann ekki reiðubúinn til þess að koma með einum eða neinum hætti til móts við þann langtímasamning sem hann er að lofa háskólamenntuðum mönnum að þeir eigi að fá á næstu þremur til fjórum árum, auðvitað vegna þess að hann veit að það kemur ekki í hans hlut að efna samninginn því að þessi ríkisstjórn er sannarlega ekki á annan vetur setjandi.
    Ég vil taka undir það sem hv. 6. þm. Reykv. sagði hér áðan, að í samningaviðræðum er alltaf hættulegt að reka fleyg á milli starfsstétta, og ég vil taka undir þau orð hæstv. forsrh., að nú ríður á að leitað sé með óformlegum hætti eftir samningum, að reynt sé að byggja brú, og þó að ég hafi ekki alltaf mikla trú á hæstv. forsrh. er það nú samt svo í þessu tilviki að ég treysti honum betur en fjmrh. og ég vona sannarlega að sá fundur sem hann átti með forustumönnum Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna seinni partinn í dag megi leiða til þess að eitthvert líf færist í samningaviðræðurnar á nýjan leik. En það sýnir okkur um leið hversu illa ráðið það var af hæstv. forsrh. að hverfa til annarra landa lítilla erinda meðan þessi kjaradeila stóð yfir.
    Mín síðustu orð skulu vera þau að þessi kjaradeila hefur þegar valdið slíkum spjöllum, bæði uppeldislegum og peningalegum spjöllum, og spillt fyrir vísindalegum rannsóknum sem staðið hafa um langan aldur, hefur bitnað á sjúklingum og þeim sem minni háttar eru með margvíslegum hætti, að það er komið meira en á elleftu stund að þessir samningar takist og ég vona að hamingjan gefi að svo megi verða. Þess hljótum við að biðja á þessari stundu, og um leið ítreka ég að síðustu að nauðsynlegt er, hæstv. forseti, að stjórnarandstaðan fái skýrslu um það hvernig þessi samningalota hefur gengið, við fáum að vita hverjir segja satt um tilboð og gagntilboð, fulltrúar Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna eða fjmrh. Þingið verður að fá vitneskju og fulla vissu um það að ríkisstjórnin hafi lagt sig fram um að reyna að leysa deiluna og við verðum að geta gert okkur grein fyrir hvers vegna sú mikla harka færðist í þessa deilu sem raun ber vitni.