Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Nú er klukkan að verða sjö og við vorum búin að lofa því að klára þessa umræðu fyrir klukkan sjö. Það er ekki við okkur að sakast að svo hafi ekki tekist því ríkisstjórnin þurfti að koma nokkrum málum í gegn og það tók nú sinn tíma. En við ætluðum að þessi umræða mundi taka fjóra tíma.
    Ég vil aðeins koma með fáeinar athugasemdir. Í fyrsta lagi varðandi málflutning hv. 6. þm. Reykv. Guðrúnar Agnarsdóttur og svo varðandi ræðu hæstv. félmrh.
    Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði það fáránlegt og rangt að segja að hver kvennalistakona hafi kostað 100 millj. kr., en það kom fram í ræðu hv. þm. Júlíusar Sólnes hér áðan að Kvennalistinn hafi selt sig fyrir 600 millj. kr. Á það ber að líta að með frv. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun er verið að koma á nýju húsnæðiskerfi er felur í sér að koma á húsbréfakerfi í stað lánakerfis sem núverandi kerfi byggist á. Í frv. er hvorki verið að breyta félagslega húsnæðiskerfinu né minnka framlög til þess kerfis. Skilyrði Kvennalistans um 600 millj. kr. til félagslega íbúðakerfisins er ekki í neinum tengslum við frv. félmrh. um húsbréf. Tengslin á milli eru ekki nein. Því er hægt að segja að hver kvennalistakona hafi kostað 100 millj. kr. Menn verða að líta á það að þegar skilyrði eru sett um eitthvert atriði þá hlýtur það að tengjast því máli sem til umræðu er hverju sinni. Með þessu er Kvennalistinn að segja: Út af því að við fengum þetta þá erum við tilbúnar að samþykkja húsbréfakerfið. Hefðum við ekki fengið það hefðum við ekki verið tilbúnar að samþykkja húsbréfakerfið. Þetta er það sem hv. þm. átti við og undir þetta get ég tekið. Þess vegna var þetta sett svona fram.
    Í þessu sambandi má spyrja hæstv. félmrh. um þessar sérstöku 600 millj. kr. Eru þessar 600 millj. kr. sem Kvennalistanum var lofað þær sömu og Alþýðusambandinu var lofað? Ég vil ekki fara nánar út í þetta en að koma með þessa athugasemd.
    Í seinni ræðu hæstv. félmrh. byrjaði hann á því að segja að Borgfl. vildi halda áfram núverandi kerfi. Það er alrangt. Í máli mínu hér áðan kom það fram að ég vildi frekar reyna að gera endurbætur á núverandi kerfi en að taka upp það húsnæðiskerfi sem hún leggur til í frumvarpinu. Hins vegar höfum við þingmenn Borgfl. hér í Ed. lagt fram frv. til laga um húsbanka. Það er skoðun Borgfl. í þessum málum. Við viljum frekar endurbæta núverandi kerfi en að samþykkja frv. hæstv. félmrh.
    Í núverandi kerfi er sex mánaða forgangur til þeirra sem eru að kaupa í fyrsta skipti. En í frv. sem hæstv. félmrh. leggur fram er enginn slíkur forgangur. Ekki er heldur með þessu húsbréfakerfi gert ráð fyrir því að þeim sem eru að kaupa í fyrsta sinn verði gert eitthvað auðveldara fyrir að eignast húsnæði en öðrum. Það var kjarni málsins. Það var kannski ekki beint spurningin um forganginn heldur það að þeir sem eru að kaupa í fyrsta skipti eigi betra með að eignast húsnæði, það hlýtur að vera kjarni málsins. En í frv. félmrh. er ekkert gert til þess að auðvelda

þessum hópi, þ.e. þeim sem er að koma í fyrsta sinn út á markaðinn, að eignast húsnæði.
    Hæstv. félmrh. svaraði nokkuð vel þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann og ég þakka honum fyrir greinargóð svör. En spurningunni: Af hverju var ekki tekið upp það kerfi sem er á Norðurlöndunum í stað þess að búa til nýtt? svaraði hæstv. félmrh. þannig að þeir, sem voru í þeim tveimur nefndum sem skipaðar höfðu verið, hefðu kynnt sér rækilega þau kerfi sem eru erlendis og komist að þessari niðurstöðu. Kjarninn í kerfum nágrannalandanna er sá að það skuli vera frjáls samtök sem standa að þessum húsbönkum og gefa út húsbréfin. Hér aftur á móti er það ríkið sem stendur að útgáfunni og þar er grundvallarmunurinn. Það er engin hliðstæða fyrir því að ríkið sjái um útgáfu slíkra húsbréfa. Þetta er því nýtt kerfi sem hér er verið að byggja upp og hefur meira að segja verið varað við því alls staðar í nágrannalöndunum að ríkið sé að skipta sér af þessu. En þetta er nú kannski eins og allaf þegar kratarnir komast með puttana í hlutina, þá skiptir ríkið höfuðmáli. Ríkið á að taka og ríkið á að skammta. ( EKJ: Það er forsjáin öll.) ( Félmrh.: Hún þykir nú góð stundum.)
    Einu atriði gleymdi ég því miður í fyrri ræðu minni og vildi gera stutta grein fyrir. Það kemur einmitt inn á þetta síðasta atriði. Ríkið spilar hér höfuðhlutverk í kerfinu. Ríkið sér ekki aðeins um að gefa út húsbréfin heldur sér ríkið líka um að innheimta öll þau skuldabréf sem koma út úr fasteignaviðskiptum og tekur á sig alla þá áhættu sem því fylgir. Hæstv. félmrh. sagði hér, og ég dreg orð hennar ekki í efa, að ríkið hefði tapað mjög litlum peningum á innheimtu. Það er mjög eðlilegur hlutur þar sem ríkið hefur yfirleitt 1. veðrétt í öllum fasteignum. Lán sem koma frá Húsnæðisstofnun hafa 1. veðrétt og þegar ekki er lánað nema um 30% þá þarf það að vera mjög slæm eign svo ekki fáist upp í þær kröfur. En þegar þetta er komið upp í 65% af verði fasteignar gildir allt öðru máli. Að sjálfsögðu fer það eftir því hvernig fasteignin er metin og hvernig hlutirnir eru metnir. Margar eignir úti á landi eru því miður þannig að það fer eftir atvinnuástandi hverju sinni
hvert verðmæti fasteignanna er. Komi aflabrestur hrapar fasteignaverð niður og komi þá t.d. til nauðungarsölu tapar ríkið að sjálfsögðu á þeirri sölu. Annað hitt að ríkisvaldið tekur að sér að kosta alla innheimtuna, innheimta öll skuldabréfin og taka á sig afföllin.
    Ég held að þessum málum sé mikið betur borgið í höndum einkaaðila eða samtakaaðila og einnig með því að gefa út þessi bréf, eins og frv. okkar borgaraflokksmanna mælir fyrir um. Ég get alveg sagt það beint út að ég er á móti því að ríkið skuli á þennan hátt vera að skipta sér af hinum frjálsa fasteignamarkaði. Ríkið á einungis að sjá um hið félagslega kerfi, sjá um þá sem hafa orðið undir en markaðurinn á að sjá um hina sem betur eru færir til að sjá um sig sjálfir.